Að forðast dómarann

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

11/12/2000

11. 12. 2000

Það mátti lesa í Degi um helgina að Ísland var ekki með í TIMSS samanburðarrannsókninni á menntakerfum ýmissa ríkja sem fram fór á síðasta ári. Lesendur muna væntanlega flestir eftir heldur ömurlegri útkomu Íslands úr TIMSS rannsókninni 1995 og því hvarflar að manni að ákveðið hafi verið að vera ekki með til að forðast frekari […]

Það mátti lesa í Degi um helgina að Ísland var ekki með í TIMSS samanburðarrannsókninni á menntakerfum ýmissa ríkja sem fram fór á síðasta ári. Lesendur muna væntanlega flestir eftir heldur ömurlegri útkomu Íslands úr TIMSS rannsókninni 1995 og því hvarflar að manni að ákveðið hafi verið að vera ekki með til að forðast frekari niðurlægingu.


Það skal reyndar strax tekið fram að þessu hafna þeir menn innan menntamálaráðuneytisins sem rætt er við og segja að það hafi einfaldlega enn ekki verið tekin ákvörðun um hvort vera ætti með eða ekki. Hins vegar stendur til að vera með í samanburðarrannsóknum OECD ríkja.

Hvað sem því líður voru viðbrögð stjórnmálamanna þá og yfirlýsingar síðar til marks um það öfgakennda metnaðarleysi sem oft einkennir umræðu um menntamál. Rannsóknin var sögð gölluð og ekki hægt að taka full mark á henni. Enda hefur hörmuleg útkoma Íslands fyrir fimm árum ekki orðið til þess að draga úr yfirlýsingum margra hérlendra stjórnmálamanna að íslenska menntakerfið sé í fremstu röð og tryggja verði að svo verði áfram.

Íslenska menntakerfið er hins vegar ekki í fremstu röð. Þrátt fyrir yfirlýsingar um mikilvægi mennta hefur tvennt öðru fremur einkennt málaflokkinn. Fjárskortur og skortur á hugmyndaauðgi. Núverandi menntamálaráðherra virðist ekki hafa mikinn skilning á menntamálum. Viss tæknileg atriði hafa vissulega verið vel leyst en innihald kennslunnar virðist á köflum ýmist hafa orðið útundan eða mótast um of af úreltum viðhorfum sem áttu sína blómatíð í ráðherratíð Jónasar frá Hriflu. Ekki það að stjórnarandstaðan sé mikið betri. Þar er lögð höfuðáhersla á að auka útgjöld til menntamála. Á því er vissulega þörf. En það hefur farið afskaplega lítið fyrir umræðu um inntak námsins og hvað aukin útgjöld skuli nýtt í. Menntamálaráðherra hafði nefnilega rétt fyrir sér að sumu leyti þegar hann sagði að vandi menntakerfisins væri ekki fjárskortur. Fjárskortur er nefnilega aðeins hluti vandans eins og áður segir. Fjárskortur og hugmyndaskortur sem vel flestir stjórnmálamenn hafa gert sig seka um er stærsti vandinn.

Hér á Skoðun höfum áður lýst ýmsum þeim breytingum sem við viljum sjá gerðar í íslensku menntakerfi og því skal ekki farið í þær hér en vísað til eldri greina. Það er hins vegar full ástæða til að harma það metnaðarleysi að forðast dómarann í stað þess að bæta stöðu menntamála. Niðurstöður TIMSS rannsóknarinnar 1995 sýndu fram á vissa veikleika íslenska menntakerfisins. Það hefði verið fróðlegt að sjá hvernig staðan er núna, hvað hefur breyst og hvort það hafi orðið til góðs eða slæms. En það verður víst töf á því fyrst ákveðið var að sitja hjá við frekari samanburðarrannsóknir.

Deildu