Lýðveldið Bretland

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

08/12/2000

8. 12. 2000

Þeir á breska dagblaðinu Guardian mega eiga það að þeir standa öðrum framar að ýmsu leyti. Þeir skrifa skemmtilegri og áhugaverðari greinar en önnur bresk blöð sem ég hef lesið og luma oft á betri húmor. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma því að þeir hafa nú ákveðið að kæra erfðalög bresku krúnunnar. Ritstjórar Guardian […]

Þeir á breska dagblaðinu Guardian mega eiga það að þeir standa öðrum framar að ýmsu leyti. Þeir skrifa skemmtilegri og áhugaverðari greinar en önnur bresk blöð sem ég hef lesið og luma oft á betri húmor. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma því að þeir hafa nú ákveðið að kæra erfðalög bresku krúnunnar.


Ritstjórar Guardian eru lýðveldissinnar og hafa lengi hvatt til þess að konungsveldi verði afnumið og komið á fót lýðveldi í Bretlandi. Einn þáttur þeirrar baráttu er að kæra erfðalögin sem þeir telja brjóta í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljósi þess annars vegar að erfðalögin meina afkomendum konunga og drottninga að taka við embætti konungs ef þeir játa aðra trú en þá sem enska biskupakirkjan boðar og hins vegar þess að karlar eru konum rétthærri við erfðir má gera ráð fyrir að þeir hafi ýmislegt til síns máls. Fólki er mismunað á grundvelli kynferðis og trúarbragða og slíkt er með öllu óásættanlegt.

Konungsveldi er auðvitað úrelt fyrirbæri hafi það einhvern tíma átt rétt á sér. Það byggir á þeirri hugmynd að embætti þjóðhöfðingja erfist frá foreldri til afkvæmis án þess að þegnarnir hafi nokkuð um það að segja. Það upphefur einn mann og eina ætt yfir aðrar, ekki á grundvelli hæfileika viðkomandi heldur á grundvelli ætternis.

Þrátt fyrir og jafn vel vegna þess að konungar og drottningar hafa ekki lengur nein raunveruleg völd er furða að enn sé haldið í konungsveldin. Þau eru arfleifð þess tíma þegar völdin voru í höndum fámennra valdaklíka og yfirstétta og litið var á almenning sem þegna sem bar að hlýða yfirvöldum í stað borgara sem völdu sér yfirvöld.

Reyndar er ein birtingarmynd þessa á mörkum þess að vera skondin og sorgleg. Samkvæmt lögum frá 1848 er hægt að dæma ritstjóra og ábyrgðarmenn Guardian í útlegð til æviloka fyrir umfjöllun sína. Hægt er að kæra þá fyrir að reyna að koma drottningunni frá völdum. Refsingin við slíkum drottinssvikum er aðeins ein: Útlegð.

Fyrr á öldinni unnu nokkrir mætir Íslendingar að því að koma hér á fót konungsveldi þegar Ísland yrði sjálfstætt og fullvalda ríki. Þá stóð til að bjóða norrænum eða þýskum prins konungsembætti á Íslandi. Viðkomandi yrði konungur og embættið gengi í erfðir til afkvæma viðkomandi. Ég geri ráð fyrir að flestum lesendum þyki þetta hjákátlegar hugmyndir íhaldssamra manna. En er þetta að einhverju leyti hjákátlegra en konungsveldin sem við þekkjum í dag? Það held ég ekki.

Deildu