Eitthvað að skýrast

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

06/12/2000

6. 12. 2000

Það virðist loksins vera að skýrast með hvaða hætti verður kosið um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Samkvæmt tillögum meirihluta þess hóps sem hefur unnið málið verður boðið upp á fjóra valkosti og hugur annarra landsmanna en Reykvíkinga kannaður með skoðanakönnun. Það má segja að tillögur meirihlutans hafi þrjá kosti sem sérstök ástæða er að geta. Í fyrsta […]

Það virðist loksins vera að skýrast með hvaða hætti verður kosið um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Samkvæmt tillögum meirihluta þess hóps sem hefur unnið málið verður boðið upp á fjóra valkosti og hugur annarra landsmanna en Reykvíkinga kannaður með skoðanakönnun.


Það má segja að tillögur meirihlutans hafi þrjá kosti sem sérstök ástæða er að geta. Í fyrsta lagi er boðið upp á fjóra skýra valkosti. Í öðru lagi er lagt til að atkvæðagreiðslan verði rafræn í hluta eða heild. Í þriðja lagi er lagt til að hugur þeirra sem búsettir eru utan Reykjavíkur verði kannaður með víðtækri skoðanakönnun.

Nokkuð hefur verið rætt um hvað nákvæmlega á að kjósa um. Meirihluti starfshópsins leggur til að kosið verði um alla raunhæfa möguleika. Flugvöllinn á sama stað í sömu mynd. Flugvöllinn á sama stað í breyttri mynd. Flugvöllinn fluttan til en staðsettan nálægt borginni. Allt innanlandsflug flutt til Keflavíkur. Ég er þeirrar skoðunar að ef almenningur á að kjósa um framtíð flugvallarins eigi almenningi að standa til boða að kjósa um alla raunhæfa valkosti. Þessar tillögur meirihlutans eru því afar jákvæðar að mínu mati.

Það er ánægjulegt að starfshópurinn leggi til að kosningakerfið verði rafvætt. Hvort sem er með því að hafa miðlæga kjörskrá þannig að kjósendur séu ekki bundnir af kjördeild sinni eða með því að atkvæði séu greidd í tölvu og talning þá væntanlega fljótlegri og öruggari. Það er í það minnsta vert að reyna þennan möguleika í kosningum sem þessum og meta reynsluna við síðari kosningar.

Að lokum er svo gert ráð fyrir því að hugur þeirra sem búa utan Reykjavíkur verði kannaður. Framtíð Reykjavíkurflugvallar skiptir stóran hluta þjóðarinnar máli. Fólkið hvers atvinna tengist flugvellinum. Fólkið sem ferðast um hann, til og frá borginni og nágrannasveitarfélögum. Fólkið sem býr nærri flugvellinum og verður fyrir ónæði af honum. Það væri því óviturlegt að kanna ekki hug sem flestra landsmanna og virðist tillaga meirihluta starfshópsins um skoðanakönnun meðal þeirra sem búa utan Reykjavíkur samhliða kosningum í Reykjavík vel til þess fallin að leysa þá þraut.

Reyndar er fjarri því víst að farið verði að tillögum meirihluta starfshópsins en ég ætla að leyfa mér að vona að svo verði gert. Það er ef til vill óskhyggja að vonast til þess að stjórnmálamenn velji réttu leiðina. Stjórnmálamenn eru jú eins og aðrir gjarnir á að velja auðveldustu leiðina. Þá sem skapar minnst umrót, minnsta óánægju og krefst minnstrar fyrirhafnar. En því fer ekki fjarri að þessar tillögur sameini kosti hvoru tveggja.

Deildu