En það gæti verið satt!

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

27/11/2000

27. 11. 2000

Það er alltof lítið gert úr því að rifja upp afrek og ummæli stjórnmálamanna á fyrri tíð. Um það höfum við á Skoðun gerst sekir eins og svo margir aðrir. Því er ekki úr vegi að rifja upp nokkur ummæli hins merka stjórnmálaleiðtoga Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Manns sem sameinaði í senn helstu kosti bóndadurgsins […]

Það er alltof lítið gert úr því að rifja upp afrek og ummæli stjórnmálamanna á fyrri tíð. Um það höfum við á Skoðun gerst sekir eins og svo margir aðrir. Því er ekki úr vegi að rifja upp nokkur ummæli hins merka stjórnmálaleiðtoga Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Manns sem sameinaði í senn helstu kosti bóndadurgsins og heimsborgarans.


,,Reynsla manna hvarvetna í heiminum hefir sýnt og sannað, að kjarnameira fólk yfirleitt, sterkara andlega og líkamlega, vex upp og lifir í sveitunum en í borgum og kauptúnum. Því fleiri af íbúum einhverrar þjóðar, sem lifa í borgum, því meiri hætta er á afturför og hnignum.“ Úr grein í Skinfaxa 1913. „

Í bókmenntum og listum samtíðarinnar má greina fjórar kvíslir sömu elfu. Í bókmenntum er það kynóra- eða klámstefnan, í húsagerðarlist kassastíllinn, í höggmyndagerð klossastefnan, en í málaralist klessugerðin. Hér á landi má sjá dæmi um kynórastefnuna í ritum kommúnista og nokkurra annarra viðvaninga sem tekið hafa þá til fyrirmyndar.“ Úr Tímanum 18. desember 1941

,,Og birtan úr ljóðum Jónasar Hallgrímssonar mun lýsa landinu og verma þjóðarsálina, löngu eftir að Halldór Laxness hefur hætt að bera sorta sjúkra hugsana inn í bókmenntir Íslendinga.“ Úr Tímanum 13. desember 1941.

,,Ísland hefur verið leikhús í rómverskum stíl. Samkeppni og sundrung hafa verið óheillanornir landsmanna frá elstu tímum…Enskt máltæki segir: Djöfullinn taki þann aftasta. Þetta er fyrsta boðorð samkeppninnar.“ Úr Tímanum 1922.

Reyndar er rétt og skylt að taka tvennt fram áður en við lesandann er skilið. Í fyrsta lagi var sótt grimmt í þá ágætu bók Íslenskar tilvitnanir eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Í öðru lagi, svo við stælum fréttastofu Skjás eins þegar Málinu er lokið, þá þurfa þær skoðanir sem hér koma fram ekki að endurspegla viðhorf Skoðunar eða þeirra sem að henni standa. Reyndar eitt enn. Fyrirsögn þessa korns er að sjálfsögðu fengin frá Jónasi. Hann var víst gjarn á það að segja fleira en það sem satt eitt var, merkilegt nokk af stjórnmálamanni að vera.

Deildu