Hroki eða fáfræði?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

23/11/2000

23. 11. 2000

„Það kom aldrei til álita af okkar hálfu að við borguðum þetta allt. Og mér finnst það vera óeðlileg krafa.“ Þetta er það sem fjármálaráðherra hafði að segja um þá ákvörðun að heimila hækkun útsvars án þess að því yrði mætt að fullu með lækkun tekjuskatts. Skattar á tekjur almennings munu því hækka um allt […]

„Það kom aldrei til álita af okkar hálfu að við borguðum þetta allt. Og mér finnst það vera óeðlileg krafa.“ Þetta er það sem fjármálaráðherra hafði að segja um þá ákvörðun að heimila hækkun útsvars án þess að því yrði mætt að fullu með lækkun tekjuskatts. Skattar á tekjur almennings munu því hækka um allt að tvo og hálfan milljarð króna.


Óeðlileg krafa að skattar hækki ekki?
Ég skal fúslega viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á þessari yfirlýsingu fjármálaráðherra sem hann gaf í viðtali við helgarblað Dags. Þarna eru tvær fullyrðingar sem báðar vekja furðu mína. Annars vegar er það sú fullyrðing hans að „við“ ætli ekki að borga allt. Það fer reyndar ekki á milli mála að „við“ er ríkissjóður. En í ljósi þess að féð í ríkissjóði er eign almennings (þó almenningur hafi ekki lengur vald yfir því fé) skil ég ekki hvernig fjármálaráðherra dettur í hug að það sé æskilegra að hækka skatta á almenning en að nota umframtekjur ríkissjóðs til að mæta vanda sveitarfélaganna. Eða er það eitthvert æðra markmið ríkisstjórnarinnar að sýna sem mestar tekjur umfram útgjöld til að geta bent á ráðdeild í útgjöldum ríkissjóðs?

Hitt sem vekur furðu mína er sú staðhæfing fjármálaráðherra að það sé óeðlileg krafa að skattar á almenning verði ekki hækkaðir. Það er ljóst að tekjur ríkissjóðs eru langt umfram útgjöld og af þessu hefur fjármálaráðherra gumað, eins og reyndar margir aðrir. Við sem byggjum þetta land erum sem sagt skattlögð langt um fram það sem þörf krefur til að fjármagna starfsemi ríkisins. Þetta tækifæri hefði mátt nota til að lækka skatta. Ég hefði í það minnsta haldið að það væri ekki ástæða til að hækka þá en fjármálaráðherra virðist vera ósammála mér.

Stjórnvöld hafa skattlagt almenning langt umfram það sem þörf krefur til að mæta útgjöldum ríkissjóðs. Á sama tíma hafa tekjustofnar sveitarfélaga almennt ekki dugað til að sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað að inna af hendi. Skuldir sveitarfélaga hafa því aukist verulega. Auðvitað er eitthvað um það að sveitarfélög eyði fé í óþarfa en samt sem áður verður ekki litið fram hjá því að tekjustofnar sveitarfélaga hafa ekki vaxið í takt við aukin verkefni. Vanda sveitarfélaganna hefði verið hægt að leysa með því að færa flytja hluta af tekjum stjórnvalda til sveitarfélaga. Þá leið virðist núverandi ríkisstjórn ekki vilja fara. Þess í stað á að hækka skattbyrði almennings sem flestir telja þó næga fyrir.

Mikilmennskubrjálæði sumra þingmanna og ráðherra
Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst ýmsir þingmenn og ráðherrar fá vott af mikilmennskubrjálæði þegar þeir komast í aðstöðu til að fara með fé almennings. Ummæli fjármálaráðherra eru gott dæmi um þetta. Peningar ríkissjóðs tilheyra ekki lengur almenningi heldur virðast vera djásn stjórnarinnar til að dást að og monta sig af. Annað gott dæmi um þetta er gjöf Alþingis til íslensku þjóðarinnar vegna Kristnihátíðar. Þá ákvað Alþingi að gefa almenningi ýmis verkefni fyrir hálfan milljarð króna. Sem er nokkuð öfugsnúið í ljósi þess að það lendir á almenningi að borga gjöfina sína. Nú ætla ég ekkert að fara í felur með það að ég er jafnaðarmaður og tel að ríkisvaldið gegni mikilvægu hlutverki. Því er heldur ekki að neyta að ríkisvaldið þarf á trygggum tekjustofnum að halda til að sinna hlutverki sínu. En ég fæ ekki séð hvaða þörf er fyrir að hækka skatta á almenning þegar það er ljóst að skattar eru þegar mun hærri en þörf krefur.

Deildu