Kennaraverkföll

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

22/11/2000

22. 11. 2000

Hver hefur svo sem ekki lent í því að verða fyrir kennaraverkfalli í framhaldsskóla? Nokkurnvegin enginn enda eru framhaldsskólakennarar með verkfallsglaðari stéttum. Vissulega má færa rök fyrir því að verkfallsgleði þeirra stafi af því að kaup þeirra og kjör séu að engu leiti í samræmi við vinnuálag, menntun og ábyrgð, en samt sem áður er […]

Hver hefur svo sem ekki lent í því að verða fyrir kennaraverkfalli í framhaldsskóla? Nokkurnvegin enginn enda eru framhaldsskólakennarar með verkfallsglaðari stéttum. Vissulega má færa rök fyrir því að verkfallsgleði þeirra stafi af því að kaup þeirra og kjör séu að engu leiti í samræmi við vinnuálag, menntun og ábyrgð, en samt sem áður er ég dálítið efins um réttmæti kennaraverkfalla.


Helsti kostur verkfallsvopnsins er að það veldur þeim skaða sem á beinna hagsmuna að gæta. T.d. veldur verkfall starfsmanna fyrirtækja því að fyrirtæki þeirra tapa fjárhæðum. Orðstýr þeirra og áreiðanleiki verða fyrir hnekkjum enda geta þau ekki staðið við hvers kyns samninga og skilmála fari starfsmenn þess í verkfall. Þetta á hinsvegar ekki við um kennara. Fórnarlömb kennaraverkfalla eru einungis og undantekningarlaust nemendurnir, og nemendurnir hafa því miður engin áhrif á kjör kennara.

Hvað er til bragðs?
Sigríður Jóhannesdóttir benti á það á þingi að án kennara væru engir skólar. Þetta er mikill sannleikur. Þessu má þó ráða bót á. Ef horft er til þess að nánast hver einasti einstaklingur sem fer í gegnum framhaldsskóla verður fyrir einu kennaraverkfalli er ekki svo fjærri lagi að setja verkföll inn á kennsluskrá. Þannig gæti kennaraverkfall verið hluti af náminu, metið til vissra eininga eftir því hve langt það er. Þannig myndi það ekki tefja fyrir námi heldur þjóna þeim góða tilgangi að vekja nemendur til umhugsunar um kjaramál.

Kennaraverkföll eru orðin heldur tíð og leiðinleg. Ein lausnin væri að svipta kennara verkfallsrétti. Hin lausnin væri að hækka laun þeirra verulega. Því miður eru hvorugur kosturinn mögulegur. Sá fyrri yrði túlkaður sem gróft mannréttindabrot og myndi að öllum líkindum þurka út hvern þann stjórnmálaflokk sem stæði fyrir því. Seinni kosturinn myndi gera bensínafgreiðslufólk, verkamenn og ræstitækna ákaflega reiða. Í kjölfarið myndu þeir krefjast samskonar launahækkunar enda telja þeir störf sín sambærileg kennslustörfum, bæði hvað varðar vinnuálag og ábyrgð.

Tími til að breyta
Það þarf í rauninni að taka hressilega til í kjaramálum kennara. Það þarf að brjóta upp þetta einsleita kerfi og finna leið til að verðlauna kennara í samræmi við getu og árangur. Það eru margir færir framhaldsskólakennarar sem eiga betra skilið en á meðan eitt er látið yfir alla ganga mun kjarasamningar kennara alltaf miðast við lægstu afköst og getu.

Deildu