Í dag hef ég ákveðið að fjalla um Thomas Paine (1737-1809), einn merkasta baráttumann frelsis og réttlætis sem uppi hefur verið. Paine átti þátt í að skapa stjórnarskrár Bandaríkjanna og Frakklands, hann barðist fyrir og var fyrstur manna til að berjast fyrir því velferðarkerfi sem vesturlandabúar búa við í dag, hann var einn sá allra fyrsti til að berjast gegn þrælahaldi og hann var einnig einn af þeim allra fyrstu sem börðust fyrir því að konur fengju sama rétt og karlar.
Afrekalisti Paine er svo langur og þau áhrif sem skoðanir hans hafa haft á vestræn samfélög eru svo mikil að það er í raun ótrúlegt hversu fáir vita hver Thomas Paine var. Fjölmargir hafa jafnvel aldrei heyrt hans getið.
Frá Bretlandi til Ameríku
Thomas Paine fæddist þann 29. janúar 1737 í smábænum Thetford í Englandi. Á þessum tíma var menntun almennings í Bretlandi afar lítil og fátæktin gríðarleg. Af þeim 2000 einstaklingum sem bjuggu í Thetford á þessum tíma höfðu aðeins 31 rétt til þess að kjósa sér þingmenn sem sýnir glögglega hve réttindi almennings voru lítil.
Paine varð fljótlega mikill lýðræðissinni og ákvað því árið 1774 að fara til Ameríku og aðstoða bandaríska landnema í baráttunni við ægivald Georgs þriðja, konungs Breta. Tveimur árum seinna gaf Paine út bæklinginn Common Sense þar sem hann rökstuddi hvers vegna Ameríka ætti að berjast fyrir sjálfstæði frá Bretlandi. Common Sense seldist í 56 upplögum fyrsta árið og eftir það vissi hver einasti Ameríkani hver Thomas Paine var.
Þegar stríð landnemanna við Bretland hófst tók Thomas Paine fullan þátt í baráttunni. Bæði sem hermaður og beittur penni. Í stríðinu hóf Paine að rita röð bæklinga sem fengu titilinn The Crisis. Þar hvatti hann skoðanabræður sína áfram í baráttunni fyrir frelsi og lýðræði:
These are the times that try men’s souls: The summer soldier and the sunshine patriot will, in this crisis, shrink from the service of his country, but he that stands it NOW, deserves the love and thanks of man and woman. Tyranny, like hell, a not easily conquered, yet we have this consolation with us, that the harder the conflict, the more glorious the triumph. What we obtain too cheap, we esteem too lightly.
Eftir að stríðinu lauk ákvað Paine að fara aftur heim, til Englands, og berjast fyrir réttlæti og mannréttindum þar enda ekki vanþörf á. En um þann hluta af ævi Paine mun ég fjalla um síðar.