Í fréttum í gær var sagt frá opnum félagsfundi Félags íslenskra þjóðernissinna, en sá félagsskapur berst gegn því að útlendingar af öðrum en vestur-evrópskum uppruna setjist að hér á landi. Í þeim fréttum sem undirritaður sá og heyrði var greint frá því að skráðir félagar í FÍÞ væru rúmlega 100 og að félagsskapurinn stefndi að því að bjóða sig fram til Alþingis. Hvergi var minnst einu orði á að FÍÞ er ekkert annað en félagsskapur kynþáttahatara eins og formaður þeirra hefur ítrekað sýnt og sannað með orðum sínum. Til að leggja áherslu á þessa staðreynd hefur undirritaður ákveðið að setja saman samantekt á samskiptum sínum við formann FÍÞ fyrr á þessu ári.
Þann 4. ágúst síðastliðinn skrifaði undirritaður opið bréf til Félags íslenskra þjóðernissinna þar sem ég spurði þá nokkurra spurninga um stefnumál þeirra. Þann 16 ágúst sendi Jón Vigfússon formaður FÍÞ mér svar sem hann bað sérstaklega um að yrði birt á Skoðun. Ég varð að sjálfsögðu við þessari ósk enda kom mjög skýrt fram í svarbréfi Jóns að hann var ekkert annað en kynþáttahatari. Í kjölfarið ritaði ég grein þar sem ég gerði athugasemdir við málflutning formanns FÍÞ auk þess sem ég útbjó samanburð á þeim spurningum sem ég hafði sent til FÍÞ og þeim svörum sem ég fékk til baka.
Ég hvet alla fréttamenn til að lesa þessar greinar og hafa innihald þeirra til hliðsjónar næst þegar þeir sjá ástæðu til þess að fjalla um FÍÞ eða tala við félagsmenn þess. Eitt skal mönnum vera ljóst: Félagar í FÍÞ eru EKKI bara menn sem „hafa áhyggjur af þróun innflytjendamála á Íslandi í ljósi reynslu annarra landa“ eins og þeir hafa haldið fram í fjölmiðlum. Ef eitthvað er að marka málflutning þeirra þá er ljóst að þessir menn eru ekkert annað en hreinræktaðir kynþáttahatarar.