Drullupollur

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

20/10/2000

20. 10. 2000

Engin er sá flokkur svo smánarlegur og lítill að ekki virðist mega kljúfa. Þetta virðist a.m.k. vera viðhorf þess litla hóps sem stendur að Frjálslyndaflokknum. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að dag eftir dag hafa verkefnalitlir blaðamenn notað deilur forsprakka, og næstum allra félaga, þess flokks til að fylla inn í þær eyður […]

Engin er sá flokkur svo smánarlegur og lítill að ekki virðist mega kljúfa. Þetta virðist a.m.k. vera viðhorf þess litla hóps sem stendur að Frjálslyndaflokknum. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að dag eftir dag hafa verkefnalitlir blaðamenn notað deilur forsprakka, og næstum allra félaga, þess flokks til að fylla inn í þær eyður sem ella hefðu skapast í síðum blaða þeirra.


Það er marklaust að neita því að ímyndir stjórnmálamanna skipta miklu máli í fjölmiðlasamfélagi nútímans. Þannig reynir forsætisráðherra að hefja sig yfir aðra stjórnmálamenn með því að forðast dægurþras við kollega sína og svo mætti lengi telja. Hinsvegar hefur enginn maður skilgreint sig á jafn sérstæðan hátt og Gunnar Ingi Gunnarsson, fyrrverandi varaformaður Frjálslyndaflokksins sem lýsti því yfir í lok síðustu aldar að í grundvallaratriðum væri hann drullupollur.

Hvaða áhrif þessi ímyndarhönnun hefur svo haft á stjórnmálaferil varaformannsins fyrrverandi skal ekki metið hér en skal þó engan undra að jafnaðarmenn hafi andað ögn léttar þegar þessi ágæti maður ákvað að finna rennsli sínu farveg í röðum Frjálslynda flokksins enda væri siðferðisleg staða hans mun sterkari en annarra flokka.

Um hvað snúast svo deilur hinna frjálslyndu? Að sögn pollsins snúast þær um peningalegt siðferði formanns flokksins. Hver hefði trúað því að ástæða væri til að hafa efasemdir um peningalegt siðferði Sverris Hermannssonar? Líklega allir þeir sem fylgdust með aðdraganda stofnunar Frjálslyndaflokksins. Það er hinsvegar erfitt að trúa því að Gunnar Ingi hafi kastað sér út í starf flokksins af einlægni og í góðri trú. Það er því frekar ótrúverðugt þegar hann tekur sér gervi siðapostulans og gagnrýnir fyrrum vin sinn fyrir siðleysi.

Og sjá. Gunnar Ingi hefur aðeins sagt af sér varaformennsku í flokknum og krafist þess að formaður flokksins víki af þingi. Gunnar Ingi hefur hvorki gengið úr flokknum né látið af varaþingmennsku. Það er pínlega augljóst hvað hann ætlar sér. Gunnar Ingi veit að senn eru dagar frjálslyndaflokksins taldir. Í örvæntingu leitar hann að möguleika á pólitísku framhaldslífi og reiknast þá réttilega til að takist honum að bola Sverri burt muni hann sjálfur í krafti þingmennsku án ábyrgðar gagnvart flokknum geta samið sig inn í einhvern þeirra fjögurra flokka sem munu lifa kjörtímabilið af.

Það er aðeins einn galli á ætlun Gunnars Inga sem er að þó hann sé allur af vilja gerður til að þjóna öðrum flokkum á þingi þá er þjónustu hans ekki óskað. Pólitísk örlög hans virðast ætla að verða hin dæmigerðu örlög drullupollsins, að gufa upp og skilja aðeins eftir sig ólögulega skán á malbikinu.

Deildu