Ég verð að viðurkenna að ég fæ ekki skilið aðdáun ungra sjálfstæðismanna og annarra ágætra frjálshyggjumanna hér á landi á repúblikananum og forsetaframbjóðandanum George W. Bush. Frjálshyggjumenn segjast vera talsmenn frelsis, mannréttinda og umfangsminna ríkisvalds. Gott og vel, Bush segist vissulega vera talsmaður umfangsminna ríkisvalds og frelsis á sumum sviðum en þegar kemur að mannréttindum minnir hann frekar á einræðisherra frá miðöldum fremur en boðbera frelsis og réttlætis. Lítum á nokkur dæmi.
Fóstureyðingar
Bush er á algerlega á móti fóstureyðingum nema í neyðartilvikum, eins og þegar heilsa móður er í hættu eða getnaður hefur átt sér stað vegna nauðgunar eða sifjaspells. Bush telur reyndar að réttur allra ófæddra barna ætti að vera „tryggður með lögum“ (nema þegar þau verða til vegna nauðgunar). Ólíkt Al Gore, forsetaframbjóðanda demókrata, þá vill Bush ekki að konur fái að taka þá siðferðilegu ákvörðun sjálfar um hvort eyða eigi fóstri eða ekki. Ríkisbáknið á að hafa siðferðilegt vit fyrir konum þar eins og reyndar á öðrum sviðum. Stefna Bush er reyndar í hrópandi mótsögn við klapplið hans á Íslandi þar sem Björgvin Guðmundsson, hinn ágæti formaður Heimdallar, hefur lýst því yfir að fóstur séu ekki einstaklingar fyrr en þau eru komin út fyrir móðurkvið og því séu þau í raun réttdræp allt fram að fæðingu (en það er allt annað mál sem verður ekki farið nánar út í hér).
Réttindi samkynhneigðra
Bush virðist vera á móti samkynhneigðum. Ef hann fengi að ráða (hræðileg tilhugsun) fengju samkynhneigðir aldrei að giftast né að ættleiða börn. Það sem meira er þá er Bush á móti því að samkynheigðir séu í skátunum og styður því lög sem banna þeim það. Bush telur að hin svokölluðu hatursglæpalög (hate crime laws), sem vernda minnihlutahópa fyrir ofbeldi og mismunun, eigi EKKI VIÐ um samkynhneigða.
Meira um forsjárhyggju-Bush
Bush er trúrækinn maður enda segir hann að Jesú sé hluti af lífi sínu. Bush er því þeirrar skoðunar að það eigi að hengja boðorðin tíu upp á vegg í öllum skólum landsins enda séu þau siðaboðskapur sem hafi gildi fyrir alla. Minnist hann sérstaklega á boðorðið „þú skalt ekki myrða“ máli sínu til stuðnings, sem er reyndar hlægilegt af manni sem hefur grillað 134 af þegnum sínum í starfi sínu sem fylkisstjóri Texas. Bush er einnig þeirrar skoðunar að sköpunarsaga biblíunnar eigi jafn mikið heima í opinberum skólastofum landsins og þróunarkenning Darwins auk þess sem hann vill að kirkjur sjái um áfengis- og eiturlyfjameðferðir, fátæktaraðstoð og aðra félagsþjónustu í auknum mæli á kostnað ríkisins. Af þessu má sjá að Bush ber litla virðingu fyrir trúfrelsi þegna sinna.
Naglinn frá Texas
Bush er einn af þessum amerísku nöglum sem telur að besta leiðin til að koma í veg fyrir glæpi og önnur samfélagsvandamál sé bara að herða refsingar bara nógu djöfulli mikið. Hann er mikill stuðningsmaður dauðarefsinga sem hann telur réttláta refsingu enda duglegur grillari. Töfra“lausn“ Bush við fíkniefnavandanum er til dæmis sú að þyngja refsingar til þeirra sem eru handteknir með fíkniefni í fórum sínum. Þetta er ótrúleg afstaða þar sem flestir vita að hertar refsingar hafa lítil sem engin áhrif á neyslu eiturlyfja og skaðleg áhrif þeirra.
Hvað haldið þið svo að Bush vilji gera til að koma í veg fyrir þau fjöldamörgu morð og slys sem hafa orðið í Bandaríkjunum af völdum frjálsrar og útbreiddar byssueignar landans? Hann er auðvitað á móti því að skylda framleiðendur að setja barnalæsingar á byssur. Hann vill ekki banna hinum almenna borgara að ganga með fullhlaðnar byssur innan klæða. Hann er harður andstæðingur þess að skerða „rétt“ Bandaríkjamanna til að eiga sérstaklega hönnuð árásarvopn (ekki veiðivopn), auk þess sem hann er þeirrar skoðunar að menn eigi að geta farið út í búð og keypt sér vopn og fengið þau afhent strax, án þess að þurfa bíða í einhvern tíma. Það eina sem Texasbúinn vill gera er að herða refsingar við misnotkun vopna. Hvaða heilvita manni dettur í hug að hertar refsingar muni hindra alvarlega geðtrufluð börn í því að skjóta bekkjarfélaga sína?
Óhæfur frambjóðandi
Nú má segja margt miður gott um flesta þá sem hafa boðið sig fram til forseta Bandaríkjanna og svo sannarlega er enginn þeirra fullkominn. Ég hika þó ekki við að segja að ég myndi ALDREI kjósa George W. Bush né hvetja nokkurn mann til að kjósa hann. Ég ætla ekki að ganga svo langt segja að stefnumál hans einkennist af fasisma en engu að síður er fasískur blær yfir þeim. Að sama skapi dettur mér ekki í hug að væna fylgendur hans um að vera fasistar enda litu margir þeirra eflaust á allt önnur mál en þau sem ég hef minnst á í þessari grein þegar þeir gerðu upp hug sinn. Ég fæ þó ekki skilið það fólk sem getur mælt með Bush þrátt fyrir ofangreindar skoðanir hans. Stuðningur við Bush og það sem hann stendur fyrir er að mínu mati daður við fasismann.