Heimska

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

16/10/2000

16. 10. 2000

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá lesendum Skoðunar að þeir sem að útgáfunni standa hafa nokkuð ákveðnar skoðanir þegar kemur að málefnum innflytjenda og umræðu sem þeim tengist. Ég fagnaði því mjög ráðstefnunni um fjölmenningarlegt þjóðfélag sem haldin var á dögunum. En niðurstöður skoðanakönnunar meðal unglinga sem unnin var í tengslum við ráðstefnuna […]

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá lesendum Skoðunar að þeir sem að útgáfunni standa hafa nokkuð ákveðnar skoðanir þegar kemur að málefnum innflytjenda og umræðu sem þeim tengist. Ég fagnaði því mjög ráðstefnunni um fjölmenningarlegt þjóðfélag sem haldin var á dögunum. En niðurstöður skoðanakönnunar meðal unglinga sem unnin var í tengslum við ráðstefnuna vöktu óhug minn.


Samkvæmt könnuninni er rúmlega þriðjungur unglinga þeirrar skoðunar að innflytjendur séu of margir á Íslandi. Það sem er jafnvel verra er að einn af hverjum sex unglingum virðist þeirrar skoðunar að innflytjendur eigi ekki að njóta sömu réttinda og innfæddir. Þessar niðurstöður hljóta að vera varúðarmerki fyrir landsmenn alla. Því þó maður eigi ef til vill ekki alltaf að lesa of djúpt í kannanir má vera ljóst að hér er að finna jarðveg fyrir alls kyns hatursáróður og vitleysu sem nokkuð hefur borið á að undanförnu.

Nú ætla ég ekki að segja að þessi ungmenni muni öll eða flest fylkja sér um málstað íslenskra þjóðernisöfgamanna. Flest munu þau vonandi sjá að sér. En til þess að svo megi fara verðum við að láta að okkur kveða. Við verðum að kynna hvað fjölmenningarlegt þjóðfélag hefur í för með sér. Við verðum að kynna hvaða áhrif fólksflutningar milli landa hafa á íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf. Við verðum að tryggja að staðreyndir málsins heyrist og nái til sem flestra.

Aðstandendur Skoðunar hafa verið gagnrýndir fyrir að ræða um útlendinga- og kynþáttahatur. Það hefur verið sagt að öll opinber umræða um þessi mál sé til þess eins að gera málstað þjóðernisöfgamanna opinberan og réttmætan. Slíkt tel ég fásinnu. Með því að þegja um þessi mál spilum við upp í hendurnar á öfgamönnum sem boða ofbeldi byggt á fáfræði og hræðslu. Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem hefur verið um málefni nýbúa að undanförnu. Hún er mikilvægt skref í átt að því að tryggja réttlátt og gott þjóðfélag sem mismunar fólki ekki eftir mismunandi uppruna og útliti. En við verðum að vera óhrædd við að ráðast að rótum vandans. Annars vegar að rakalausum þvættingi öfgaþjóðernissinna, hins vegar að fáfræði margra þegar kemur að málefnum innfluttra og innfæddra.

Skyldur og tækifæri
Það var athyglisvert að lesa svör við spurningu dagsins í laugardagsblaði Dags. Spurt var hvort skylda ætti útlendinga til að læra íslensku ef þeir ætla að setjast hér að. Þrír af fjórum sögðu já. Þetta finnst mér satt að segja skrýtið viðhorf. Ég tel rétt að nýbúum verði tryggð tækifæri til íslenskunáms auk ýmiss annars náms og fræðslu sem þeir þurfa á að halda til að aðlagast íslensku samfélagi. Ég er hins vegar ekki viss um að rétta leiðin sé sú að skylda nýbúa til að læra íslensku. Það á að vera val hvers og eins hvort hann leggur stund á íslenskunám. Flestir hefja slíkt nám að eigin ósk, enda gerir það nýbúa betur í stakk búna að taka þátt í íslensku samfélagi. Þeir sem ekki velja að læra íslensku bera skaðann, ef einhver er, sjálfir. Við eigum ekki að skylda þá sem velja að setjast hér að til að læra íslensku. En við eigum að tryggja þeim tækifæri til þess rétt eins og við eigum að tryggja þeim sem hér eru fæddir fræðslu um kosti og galla fjölmenningarlegs þjóðfélags.

Deildu