Fróðlegur dagur að baki

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

29/09/2000

29. 9. 2000

Evrukosningarnar áfall fyrir stuðningsmenn aukins Evrópusamruna Niðurstaða Evrukosninganna í Danmörku í gær hlýtur að vera mikið áfall fyrir stuðningsmenn aukins Evrópusamruna. Það hefur verið yfirlýst stefna fjölmargra framámanna, hvoru tveggja í Evrópusambandinu og ríkisstjórnum aðildarríkja þess, að vinna að auknum efnahagslegum og pólitískum samruna ríkjanna fimmtán. Danskir kjósendur hafa nú í annað sinn á fáum […]

Evrukosningarnar áfall fyrir stuðningsmenn aukins Evrópusamruna
Niðurstaða Evrukosninganna í Danmörku í gær hlýtur að vera mikið áfall fyrir stuðningsmenn aukins Evrópusamruna. Það hefur verið yfirlýst stefna fjölmargra framámanna, hvoru tveggja í Evrópusambandinu og ríkisstjórnum aðildarríkja þess, að vinna að auknum efnahagslegum og pólitískum samruna ríkjanna fimmtán. Danskir kjósendur hafa nú í annað sinn á fáum árum gefið þessum samrunadraumum langt nef og ákveðið að halda sig við það sem þeir þekkja. Þegar þeir höfnuðu Maastricht samkomulaginu fyrir nokkrum árum bauðst þeim annað betra samkomulag. Nú verður ekki um neina málamiðlun að ræða. Því verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Danmörku á næstu árum.


Það verður einnig fróðlegt að rýna í hvaða áhrif kosningarnar í Danmörku hafa á íslensk stjórnmál. Ef Danir hefðu sagt já í gær hefði það væntanlega verið notað sem rökstuðningur fyrir Evrópusambandsaðild Íslands. Þó svo höfnun Dana á Evrunni verði vart til að draga kjarkinn úr íslenskum Evrópusinnum má þó vera víst að þeir læri eitt af kosningunum. Það þarf að eyða miklum tíma, fé og fyrirhöfn í að kynna alla þætti málsins fyrir almenningi ef vel á að fara.

Halldór opnar fyrir fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi
Yfirlýsing utanríkisráðherra í Bifröst í gær þess efnis að heimila ætti fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Tvennt stendur þó út úr. Í fyrsta lagi er þetta algjör stefnubreyting og sem slík líkleg til að valda nokkrum deilum. Í öðru lagi er athyglisvert að Halldór sem var sjávarútvegsráðherra um margra ára skeið skuli núna fyrst komast á þessa skoðun.

Ýmsir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa lengi hvatt til þess að opnað yrði fyrir fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi og munu þeir væntanlega fagna stefnubreytingu formanns Framsóknarflokksins. Þó á eftir að koma í ljós hversu miklu fylgi tillögur hans eiga að fagna í hans flokki og öðrum. Umræða næstu daga leiðir það vonandi í ljós.

Deildu