Listin að biðjast afsökunar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

25/09/2000

25. 9. 2000

Því hefur löngum verið haldið fram að stjórnmálamenn forðist það í lengstu lög að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar. Ég held að það sé afskaplega lítil ástæða til að neita þessari staðhæfingu. Þess vegna er það alltaf skemmtilegt þegar stjórnmálamenn axla ábyrgð og biðjast afsökunar Hrokafullur forsætisráðherra biðst afsökunar Þúsaldarhvelfing Breta hefur vakið nokkra […]

Því hefur löngum verið haldið fram að stjórnmálamenn forðist það í lengstu lög að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar. Ég held að það sé afskaplega lítil ástæða til að neita þessari staðhæfingu. Þess vegna er það alltaf skemmtilegt þegar stjórnmálamenn axla ábyrgð og biðjast afsökunar


Hrokafullur forsætisráðherra biðst afsökunar
Þúsaldarhvelfing Breta hefur vakið nokkra kátínu og undrun fólks víða um heim. Þar er komið enn eitt gæluverkefni stjórnmálamanna sem eyða háum fjárhæðum almennings í byggingu og rekstur fyrirbæris sem enginn virðist hafa beðið um og litlu færri sýnt áhuga eftir að hún var byggð. Samt hafa forystumenn í breskum stjórnmálum ýmist neitað að viðurkenna að byggingin hafi verið mistök eða neitað því að þeir hafi átt þátt í mistökunum.

Nú hefur breski forsætisráðherrann viðurkennt, ekki aðeins að bygging þúsaldarhvelfingarinnar hafi verið mistök heldur að hann beri ábyrgð á þeim mistökum. Hann reynir reyndar að draga úr mistökunum með því að benda á að fjármunirnir sem varið var í bygginguna hafi að stórum hluta farið í laun til fólks sem ella hefði verið atvinnulaust. Þau rök má þau blása á með því einfaldlega að segja að óvíst er hvort fleiri eða færri hefðu fengið vinnu hefði fénu verið varið í annað. Hvort sem er með því að bæta ýmsa þjónustu stjórnvalda við þegnana eða með því að lækka skatta og leyfa atvinnulífi og einstaklingum að ráða ráðstöfun fjársins.

Afsökunarbeiðnin er vafalítið tilraun forsætisráðherra sem sífellt fleiri álíta hrokafullan og úr tengslum við breskan raunveruleika til að bæta ímynd sína og auka fylgi sitt og flokks síns. Þó verður ekki litið framhjá því að viðurkenningin á mistökunum er stórt skref fram á við frá þeim stjórnmálamönnum sem reyna í lengstu lög að afneita mistökum sínum.

Sambærileg íslensk dæmi
Hérlendis var hundruðum milljóna króna eytt í að minnast þess með ýmsum hætti að þúsund ár eru liðin frá því kristni var lögtekin á Alþingi og trúfrelsi afnumið. Kristnihátíðin á Þingvöllum í sumar kostaði skattgreiðendur morðfjár en aðsókn á hana olli aðstandendum hennar væntanlega jafn miklum vonbrigðum og aðsóknin að Þúsaldarhvelfingu Breta olli aðstandendum hennar í ríki Elísabetar drottningar.

Þó leitast aðstandendur Kristnihátíðar enn við að sannfæra sjálfa sig og aðra um að hátíðin hafi verið vel heppnuð, vel sótt og vel tekið af þorra þjóðarinnar. Þannig ýkja menn gestafjölda, gera mikið úr sjónvarpsáhorfi og fá vini, kunningja og starfsmenn kirkjunnar til að skrifa jákvæðar greinar um hátíðina. Þó virðist fæstum blandast hugur um að hátíðin hafi verið stór mistök. Aðstandendur hátíðarinnar myndu gera vel í því að viðurkenna mistök sín. Jafn vel að biðjast afsökunar.

Þá má ekki gleyma því að viðbrögð stjórnmálamanna við dómsniðurstöðum og mati umboðsmanns Alþingis geta verið ansi skrautleg. Þannig hefur það gerst trekk í trekk að athafnir stjórnvalda hafa verið úrskurðaðar ólöglegar en stjórnmála- og embættismenn hafa brugðist við með því að kvarta undan þeim sem dóminn kveður frekar en að horfast í augu við að þeir kunni að hafa gert mistök.

Reyndar hefur verið sagt að viðbrögð stjórnmálamanna við niðurstöðum umboðsmanns Alþingis séu á tveimur stigum. Fyrst kemur afneitunin og opinber yfirlýsing um efasemdir á niðurstöðu umboðsmanns. Svo er brugðist við athugasemdum og mál færð til samræmis við niðurstöðu umboðsmanns, það kemur þó oftast all nokkru síðar og fer hljótt.

Deildu