Tilgangslausasta embætti íslenskra stjórnmála?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

04/09/2000

4. 9. 2000

Meðan ég starfaði enn í pólitík var ég eitt sinn staddur á fundi á Vesturlandi. Vinur minn sem starfaði í Alþýðubandalaginu og nú í Samfylkingunni spurði mig hvaða maður það væri sem hélt afarlanga ræðu sem mínum manni var farið að leiðast að hlusta á. ,,Jóhann Geirdal“, svaraði ég og þótti fullsvarað. ,,Hver er það“, […]

Meðan ég starfaði enn í pólitík var ég eitt sinn staddur á fundi á Vesturlandi. Vinur minn sem starfaði í Alþýðubandalaginu og nú í Samfylkingunni spurði mig hvaða maður það væri sem hélt afarlanga ræðu sem mínum manni var farið að leiðast að hlusta á. ,,Jóhann Geirdal“, svaraði ég og þótti fullsvarað. ,,Hver er það“, spurði hann aftur. ,,Varaformaðurinn þinn“, sagði ég og furðaði mig á fáfræði vinar míns. Þó er hún ef til vill skiljanleg í ljósi þess hversu embætti varaformanns í stjórnmálaflokki hefur lítið vægi.


Lítið vægi varaformanna
Framsóknarmenn hafa verið varaformannslausir frá áramótum og er ekki að sjá að það hái þeim mjög. Ýmsir verða að hugsa sig um áður en þeir svara því til hverjir eru varaformenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og mér er það til efs að margir viti hver er varaformaður Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs. Ykkur að segja er það Svanhildur Kaaber. Látið mig vita það, ég var að fletta því upp á heimasíðu flokksins.

Ef við lítum á síðari tíma sögu er ekki að sjá að varaformenn hafi mikið vægi eða að þeir séu líklegir til forystu í flokkum sínum. Þannig var Friðrik Sophusson tvisvar varaformaður Sjálfstæðisflokksins en aldrei formaður. Í Alþýðuflokknum voru Guðmundur Árni Stefánsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta B. Þorsteinsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir öll varaformenn á tíunda áratugnum en ekkert þeirra varð formaður flokksins. Jóhanna náði því reyndar að verða flokksformaður en til þess þurfti hún að stofna sinn eigin flokk. Steingrímur J. var varaformaður Alþýðubandalagsins og vildi verða formaður en féll fyrir Margréti Frímannsdóttur í kosningum. Hann náði því reyndar að verða formaður en líkt og Jóhanna ekki fyrr en eftir að hafa stofnað nýjan flokk. Ólíkt Jóhönnu á hann þó von á því að flokkur sinn haldi lífi.

Haft hefur verið á orði að varaformaður Framsóknarflokksins sé erfingi að formennskunni. Þá er auðvelt að benda á að Halldór Ásgrímsson var varaformaður Steingríms Hermannssonar en á móti kemur að varaformaður Ólafs Jóhannessonar var Einar Ágústsson, ekki Steingrímur. Fyrri tíma sögu Framsóknarflokksins þekki ég ekki. Þó má vera nokkuð öruggt miðað við núverandi stöðu Guðna Ágústssonar að hann verði formaður flokksins hvort sem hann verður einhvern tíma varaformaður eða ekki.

Mikil umræða og eftirsókn en lítil áhrif
Undanfarið hafa fjölmiðlar margir velt því mikið fyrir sér hver verði næsti varaformaður Framsóknarflokksins. Ef mark er tekið á umræðunni virðist vera sem svo að varaformaðurinn gegni veigamiklu hlutverki. En þrátt fyrir að varaformaður Framsóknarflokksins gegni ef til vill veigameira hlutverki í sínum flokki en varaformenn annarra flokka í sínum er fátt sem gefur til kynna að fjölmiðlaumfjöllunin sé í samræmi við umfjöllunarefnið.

Embætti varaformanns tryggir þeim sem embættinu gegnir hverju sinni alla jafna sæti ráðherra komist flokkurinn í stjórn. Það þarf þó alls ekki að þýða að áhrif viðkomandi séu meiri en annarra þingmanna og áberandi flokksmanna. Oft reyna flokksmenn að sætta andstæða hópa með því að formaður og varaformaður komi úr ólíkum áttum innan flokksins. Þannig fórnaði Ólafur Ragnar Grímsson Svanfríði Jónasdóttur til þess að vinstri armur Alþýðubandalagsins fengi fulltrúa sinn í varaformennskuna, varaformenn Jóns Baldvins komu iðulega úr vinstri armi flokksins og ósjaldan leitast menn eftir því að varaformaður sé af landsbyggðinni ef formaðurinn er af höfuðborgarsvæðinu. Gagnsemi þessa er þó óljós. Þannig logaði Alþýðubandalagið löngum í deilum og vinsæll varaformaður Alþýðuflokksins klauf flokkinn og stofnaði nýjan.

Það vill líka loða við embætti varaformanns að menn leggi mikið á sig að komast í það eða sjá til þess að það sé vel mannað án þess að niðurstaðan breyti nokkru fyrir flokkinn. Í Samfylkingunni voru til dæmis margir ósáttir við þá ákvörðun Margrétar Frímannsdóttur að sækjast eftir embætti varaformanns. Hvoru tveggja þótti mönnum óeðlilegt að formaður annars A-flokkanna yrði í forystu nýju hreyfingarinnar og eins þótti sumum tvísýnt að hún væri rétta manneskjan til að takast á við þau tengsl við flokksfólk sem stundum hefur verið sagt að sé helsta hlutverk varaformanns. Eftir stofnfund Samfylkingarinnar hefur þó lítið sem ekkert borið á óánægju, ekki endilega vegna starfa varaformanns heldur frekar vegna þess að eftir kosningar er varaformaðurinn oft fyrsta manneskjan til að gleymast.

Tilgangslaust embætti?
Þrátt fyrir yfirskriftina er embætti varaformanns stjórnmálaflokks sennilega ekki tilgangslausasta embætti íslenskra stjórnmála (til dæmis má nefna verkalýðsmálanefndir sumra stjórnmálaflokka sem eru kosnar á hverju flokksþingi en koma aldrei saman). En mér er þó til efs að öll sú umræða sem fer í gang, líkt og um varaformennsku í Framsóknarflokknum nú um stundir, sé í samræði við mikilvægi embættisins sem um ræðir.

Deildu