Lærdómsríkt ferðalag

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

04/09/2000

4. 9. 2000

Það má varla búast við því að mörg íslensk tár munu falla á morgun þegar fjöldamorðinginn og Íslandsvinurinn Li Peng hverfur af landi brott. Þó að mér hafi þótt Peng vera nokkuð dónalegur í gær þegar hann hunsaði móttökunefnd íslenskra ungliða sem sungu svo fallega fyrir hann ,,Human rights have no borders“ þá má með […]

Það má varla búast við því að mörg íslensk tár munu falla á morgun þegar fjöldamorðinginn og Íslandsvinurinn Li Peng hverfur af landi brott. Þó að mér hafi þótt Peng vera nokkuð dónalegur í gær þegar hann hunsaði móttökunefnd íslenskra ungliða sem sungu svo fallega fyrir hann ,,Human rights have no borders“ þá má með sanni segja að margt hefur áorkast á ferðalagi hans. Li Peng hefur til dæmis fengið að kynnast því hvernig íslensk alþýða hefur það og það sem merkilegra er þá lærðu íslensk stjórnvöld í leiðinni hvernig á að „hliðra til“ réttindum fólksins svo þjóðarleiðtogar geti óhindrað fengið sér kaffi og með því með lítilmagnanum.


Áhrif Li Pengs eru mikil
Eins og allir þeir sem fylgdust með fréttum í gær vita þá skrapp Li Peng og frú í heimsókn til fjölskyldu í Breiðholtinu í gær. Forsaga þessarar heimsóknar er sú að Li Peng þóttist vera forvitinn um hag íslenskrar alþýðu og vildi þess vegna heimsækja einhverja ,,venjulega“ íslenska fjölskyldu. Íslensk stjórnvöld brugðu því á það ráð að girða af heila íbúðarblokk í Fellahverfinu þannig að enginn komst hvorki inn né út úr því hverfi. Það sem meira er þá fengu þeir íbúar sem bjuggu í sama stigagangi og gestgjafar Pengs ek

ki að líta fjöldamorðingjann augum né, það sem mikilvægara er, að forða sér út úr blokkinni. Hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu sér að varpa réttu ljósi á hag íslenskrar alþýðu með þessum fantaskap er mér gjörsamlega hulin ráðgáta.

Ég hlýt að spyrja hver réttur stjórnvalda sé að meina ,,íslenskri alþýðu“ frjálsan aðgang að eigin heimili. Er þetta löglegt? Getur íslenska ríkið boðið alræmdum fjöldamorðingja í heimsókn til nágranna míns án þess að ég geti nokkuð gert í því? Hefur lögreglan rétt til þess að setja nokkurn mann í stofufangelsi á eigin heimili í þeim tilgangi einum að trufla ekki teboð erlends fjöldamorðingja?

Íslensk stjórnvöld tryggðu Li Peng mjög öfluga löggæslu því líklegast voru í kringum 50 lögreglumenn auk sérsveitarmanna og hunda að vernda Peng þegar mest var. Nú er ekkert nema eðlilegt að stjórnvöld tryggi gestum sínum öfluga vernd gegn íslenskum hryðjuverkamönnum en hvað gerðu stjórnvöld til að tryggja réttindi þegna sinna? Ekki neitt. Þvert á móti tóku íslensk stjórnvöld upp einræðisleg vinnubrögð Li Pengs og félaga og tróðu á réttindum hins almenna borgara.

Ég svo sannarlega vona að þeir Breiðhyltingar sem voru settir í tímabundið stofufangelsi í gær leiti réttar síns og kæri stjórnvöld fyrir frelsisskerðingu. Þessi siðlausi fantaskapur stjórnvalda getur einfaldlega ekki verið löglegur.

Deildu