Leiðin til Evrópu

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

23/08/2000

23. 8. 2000

Umræðan um Evrópumál hefur verið með ýmsum hætti frá því menn skoðuð fyrst möguleika þess að Ísland gerðist aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu á sjöunda áratugnum. Þó lengst af hafi verið þagað um þessi mál eru blikur á lofti sem benda til að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu áður en langt um líður. Framsókn og […]

Umræðan um Evrópumál hefur verið með ýmsum hætti frá því menn skoðuð fyrst möguleika þess að Ísland gerðist aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu á sjöunda áratugnum. Þó lengst af hafi verið þagað um þessi mál eru blikur á lofti sem benda til að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu áður en langt um líður.


Framsókn og Samfylking heit
Það fer vart framhjá mörgum að formaður Framsóknarflokksins hefur gert það upp við sig að hagsmunum Íslendinga verði best borgið innan Evrópusambandsins. Sama skoðun hefur orðið sífellt útbreiddari í flokki sem greiddi atkvæði gegn samningnum um evrópska efnahagssvæðið fyrir nokkrum árum síðan og sýnir það ef til vill best þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur meðal margra. Vissulega eru enn margir innan Framsóknar sem mæla gegn þessu og má greina átakalínur á grundvelli pólitískrar kynslóðaskiptingar. Þannig eru sígildu Framsóknarmennirnir sem halda í eldri viðhorf flokksins á móti aðild enda hefur stundum verið sagt um þá sveit manna að utanríkisstefnu þeirra megi skýra í fjórum orðum: Útlendingar eru varhugavert fólk. Þeir Framsóknarmenn sem hafa á undanförnum árum lagt áherslu á að breyta flokknum í takt við þjóðfélagsbreytingar eru öllu opnari fyrir aðild. Það er ólíklegt að flokkurinn lýsi því yfir á flokksþingi að sækja beri um aðild en það má teljast nokkuð víst að skref verði stigin í þá átt.

Samfylkingin býr að því að önnur meginstoða flokksins er gamli Alþýðuflokkurinn sem einn flokka lýsti því yfir að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Hin meginstoðin er frjálslyndari armur Alþýðubandalagsins sem hefur lengi verið frjálslyndari gagnvart alþjóðlegri samvinnu en vinstri armurinn sem stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Samfylkingin mun innan skamms boða til ráðstefnu um Evrópumál og hvort sem því verður lýst yfir þá að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu eða fljótlega upp úr því má ljóst vera að Samfylkingin mun fljótlega taka þá afstöðu að hagsmunum Íslendinga sé best borgið með aðild að Evrópusambandinu.

Kaldir og ískaldir
Allt frá því formaður Sjálfstæðisflokksins kvað upp þann dóm að Evrópumálin væru ekki á dagskrá hafa málin lítið verið rædd innan þess flokks. Þó er ljóst að innan flokksins er að finna mikinn stuðning við Evrópusambandsaðild (sem sést best á því að skoðanakannanir hafa sýnt allt að 60% fylgi flokksmanna við aðild). Vandi Sjálfstæðisflokksins umfram aðra flokka virðist þó vera sá að andstaða við Evrópusambandsaðild er orðið persónulegt mál formannsins og hafa yfirlýsingar hans orðið til að vanda málin. Alla umræðu innanflokks um Evrópumál væri því hægt að túlka sem gagnrýni á stefnu og athafnir formanns flokksins og forsætisráðherra. Því má vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn gengur ekki mörg skref í áttina að Evrópusambandsaðild fyrr en formannsskipti verða í flokknum. Að þeim loknum er þó líklegt að flokkurinn verði Evrópusinnaðri en hann er í dag.

Eini flokkurinn sem er nokkuð víst að verður andvígur Evrópusambandsaðild er Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Flokkurinn byggir á mjög þjóðernissinnuðum grunni eins og sést best á andstöðu flokksmanna, og lærimeistara þeirra, við EES-samninginn, EFTA og NATO, hvert á sínum tíma. Eins má minna á að alþjóðaviðskipti virðast oft njóta minni stuðnings innan Vinstrihreyfingarinnar en annarra flokka auk þess sem ýmsir forsvarsmenn hennar hafa lýst þeim áhyggjum sínum að Evrópusambandið gagnist helst atvinnurekendum, þá væntanlega á kostnað launamanna.

Næstu ár
Ef stuðningsmenn aðildar að Evrópusamstarfinu halda rétt á spilunum geta þeir gert afstöðuna til Evrópusambandins að aðalmáli næstu kosninga. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn munu bæði vera jákvæð til aðildar. Vinstrihreyfingin mun vera andvíg. Úrkoman mun hins vegar ráðast af afstöðu Sjálfstæðismanna. Innan flokksins eru nógu margir Evrópusinnar til að tryggja meirihlutastuðning við aðildarumsókn. Spurningin er hins vegar hvort þeir séu nógu margir og nógu öflugir til að sjá til þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki málið upp á arma sína. Evrópusinnar innan Sjálfstæðisflokksins munu því að líkindum leika lykilhlutverk í máli sem þegar er orðið eitt mikilvægasta og umdeildasta mál síðari tíma stjórnmálasögu á Íslandi.

Deildu