Langt seilst

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

21/08/2000

21. 8. 2000

Ljósmynd í Lesbók Morgunblaðsins í fyrradag ber vitni um mikla og skondna sögu. Á myndinni sem er frá 1971 blasir Bernhöftstorfan við. Eitt húsið er vel merkt því fyrirtæki sem þar er til húsa, Ferðaskrifstofu ríkisins. Nú er ekki mikið að segja um Ferðaskrifstofu ríkisins, hún heyrir sem betur fer sögunni til, en það er […]

Ljósmynd í Lesbók Morgunblaðsins í fyrradag ber vitni um mikla og skondna sögu. Á myndinni sem er frá 1971 blasir Bernhöftstorfan við. Eitt húsið er vel merkt því fyrirtæki sem þar er til húsa, Ferðaskrifstofu ríkisins. Nú er ekki mikið að segja um Ferðaskrifstofu ríkisins, hún heyrir sem betur fer sögunni til, en það er merkilegt hversu langt ríkisvaldið hefur seilst með áhrif sín.


Þegar ég heyrði fyrst um Ferðaskrifstofu ríkisins hélt ég reyndar að sannleiksgildi frásagnarinnar væri ekki meira en sannleiksgildi margra þeirra Evrópusambandsgoðsagna sem oft verður vart við í ýmissi umræðu. Svo var þó ekki. Ekki frekar en er með svo mörg verkefni sem ríkisvaldið og sveitarfélög hafa tekið að sér á undanförnum árum og áratugum. Þannig hafa stjórnmálamenn talið það í verkahring hins opinbera að úthluta lánum og styrkjum, reka sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki, sjá fólki fyrir afþreyingu og stjórna því hvar fólk býr svo fátt eitt sé nefnt.

Byggðastefna undanfarinna áratuga hefur fyrir löngu beðið gjaldþrot. Þrátt fyrir að ómældum fjármunum hafi verið varið í að halda lífi í gjaldþrota fyrirtækjum og önnur þau verkefni sem hafa átt að gera ýmsa staði á landsbyggðinni vænlegri til búsetu hefur fólki þar farið fækkandi. Í stað þess að sjá að sér og læra af mistökum sínum og forvera sinna hafa stjórnmálamenn hins vegar valið að halda áfram og finna nýjar leiðir til að eyða fé skattgreiðenda í vitleysu. Byggðastefnan heldur því áfram og á sama tíma ýmis rekstur þar sem aðkoma ríkisvaldsins tilheyrir liðnum tíma.

Ríkisvald í samkeppnisrekstri
Landssíminn og Ríkisútvarpið – sjónvarp eru góð dæmi um fyrirtæki sem stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina talið nauðsynlegt að stjórnvöld héldu úti, landsmönnum til hagsbóta. Í dag njóta þessi fyrirtæki áralangrar einokunaraðstöðu sinnar í samkeppni sinni við önnur fyrirtæki á sama markaði.

Sem betur fer hafa flestir stjórnmálamenn séð að sér þegar kemur að Landssímanum og vilja selja fyrirtækið. Helsta deiluefnið er hvort dreifikerfið eigi að fylgja með í kaupunum eður ei. Þannig hefur verið bent á að einkavæddur Landssími muni með yfirráðum á dreifikerfinu njóta sömu yfirburðastöðu sem byggir á fyrri einkarétti og ríkisrekni Landssíminn gerir í dag. Eini munurinn yrði að annars vegar er um einokun einkaaðila að ræða, hins vegar einokum hins opinbera. Því má gera ráð fyrir því að á endanum verði sæst á þá málamiðlun stjórnarflokkanna að Landssíminn verði einkavæddur en að dreifikerfið verði skilið frá honum og enn þá rekið á vegum hins opinbera. Sjálfstæðismönnum mun væntanlega þykja of skammt gengið en Framsóknarmenn ættu að geta sætt sig við niðurstöðuna því þar eru fleiri sem vilja fara sér hægt í einkavæðingu.

Einn flokkur sem virðist ekki sjá neina ástæðu fyrir einkavæðingu Landssímans er Vinstrihreyfingin – Grænt framboð. Formaður flokksins sagði fyrir skemmstu að það væri engin ástæða til að selja Landssímann. Formaður og þingflokksformaður hafa báðir hagað málflutningi sínum þannig að lítil ástæða er að draga brigður á efasemdir þeirra um kosti markaðarins. Formaðurinn hefur lýst miklum efasemdum um kosti milliríkjaviðskipta og þingflokksformaðurinn ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að ósanngjarnt sé að einn maður græði þegar hann selur öðrum vöru eða þjónustu. Því er ef til vill ekki furða að flokkurinn setji sig upp á móti einkavæðingu Landssímans.

Öllu lengra virðist þó vera í að Ríkisútvarpið – Sjónvarp verði selt. Fáir stjórnmálamenn virðast áhugasamir um sölu þess og helst að stuðningsmenn einkavæðingar þess megi finna innan ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna (ungir Sjálfstæðismenn hafa mælt fyrir sölu þess og það sama gerðu ungir Alþýðuflokksmenn á sínum tíma). Ýmis rök hafa verið færð fyrir ríkisrekstri þessa fjölmiðlarisa. Helst hefur verið rætt um öryggishlutverk og menningarhlutverks þess. Þó þurfti ekki nema einn geðtruflaðan mann til að slökkva á því. Þá má ekki gleyma þeirri harkalegu gagnrýni sem heyrðist eftir að jarðskjálftinn reið yfir á Suðurlandi 17. júní. Þá þurftu landsmenn að leita til annarra fjölmiðla til að fá fréttir af atburðunum. Menningarhlutverkið hefur minna verið rætt um og með tilkomu Skjás eins hefur umræðan um þátt Sjónvarpsins í innlendri dagskrárgerð heyrt sögunni til. Þá er vert að velta fyrir sér hvort ríkisvaldið eigi að styrkja framleiðslu og flutning menningarefnis auk þess að spyrja sig hvort þurfi tvær útvarpsrásir og eina sjónvarpsstöð til að tryggja flutning þess.

Rökin fyrir ríkisrekstri fjölmiðla virðast ekki mikil. Lítill munur er á hinni ríkisreknu Rás 2 og Bylgjunni einkareknu. Þá er ekki alltaf mikill munur á Sjónvarpinu og Stöð 2. Einu sjónvarpsstöðvarnar sem skera sig úr eru litlu stöðvarnar, hin trúarlega Omega, tónlistarmyndbandastöðin Popptíví og litla stöðin Skjár einn sem er með stærstan hluta innlends efnis á dagskrá sinni. Það er ekki alltaf merkilegasta sjónvarpsefnið en gefur vísbendingu um hvað hægt er að gera þegar viljinn er fyrir hendi. Þennan vilja virðist skorta hjá ríkisrekna fjölmiðlarisanum í Efstaleiti. Þrátt fyrir öflugan stuðning ríkisvaldsins hafa stjórnendur þess ekki komið með betri hugmynd um frekari þjónustu við viðskiptavini en að setja á fót aðra sjónvarpsrás sem legði áherslu á íþróttir og annað afþreyingarefni. Nokkurs konar Sýn 2.

Samkeppni takmörkuð og skekkt
Ég skal fúslega viðurkenna að ég er þeirrar skoðunar að ríki og sveitarfélög eigi að fjármagna ýmsa starfsemi með skattheimtu. Símaþjónusta og afþreyingarstarfsemi hvort sem um útvarps- og sjónvarpsrekstur er að ræða eða styrki til leikfélaga eru hins vegar ekki þar á meðal. Einkaaðilar hafa fyrir löngu sýnt að þeir geti sinnt þessari starfsemi jafn vel og betur en ríkisvaldið. Aðkoma ríkisfyrirtækja á þessum sviðum er því eingöngu til að skekkja samkeppni á markaði.

Vandinn með markaðshagkerfið á Íslandi hefur hingað til ekki verið sú að samkeppnin hafi verið of óvægin. Vandinn hefur frekar verið sá að samkeppni hefur skort eða hún verið skekkt með afskiptum ríkisvaldsins eða samráði fyrirtækja. Þannig hefur mátt skipta afstöðu flestra stjórnmálaflokka til efnahagslífsins í tvennt: annars vegar þeirra sem vildu einkarekstur, hins vegar þeirra sem vildu ríkisrekstur. Reyndar var skiptingin aldrei svo skýr. Það sem hefur hins vegar fylgt öllum stjórnmálaflokkum er viss vantrú á samkeppni. Þannig hefur verið auðveldara að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn sem fulltrúa einkafjármagns en samkeppni rétt eins og Alþýðubandalagið og arftaka þess Vinstrihreyfinguna – Grænt framboð má oft frekar lýsa sem fulltrúa ríkisrekstrar en góðrar þjónustu við almenning.

Einkavæðing Landssímans og Ríkisútvarpsins – Sjónvarps er æskilegt til að bæta samkeppni á þeim mörkuðum sem fyrirtækin starfa á. Þar með eru ekki öll vandamál leyst og það væri eftir sem áður varasamt að eitt fjarskiptafyrirtæki í samkeppni við önnur sæi um grunnnetið en það væri vissulega skref í rétta átt.

Deildu