Trúfræðsla eða trúboð?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/06/2000

9. 6. 2000

Eins og fram kom í grein Jóhanns Björnssonar sem birt var á þessum síðum í gær er ljóst að trúboð á sér stað í sumum af okkar ríkisreknu grunnskólum. Og hvað með það?, spyrja sumir. Ísland er nú einu sinni kristið land og rúm 90% þjóðarinnar er kristin. Þó að stærstur hluti landsmanna kenni sig […]

Eins og fram kom í grein Jóhanns Björnssonar sem birt var á þessum síðum í gær er ljóst að trúboð á sér stað í sumum af okkar ríkisreknu grunnskólum. Og hvað með það?, spyrja sumir. Ísland er nú einu sinni kristið land og rúm 90% þjóðarinnar er kristin. Þó að stærstur hluti landsmanna kenni sig við kristni er það engan veginn ásættanlegt og í raun siðlaust að trúboð fari fram í skólum á vegum hins opinbera.

Skólar eiga að vera veraldlegar stofnanir, ekki trúarlegar
Það sem börn læra í skóla búa þau við alla ævi. Það er því afar mikilvægt að vandað sé vel til þess hvaða námsefni og hvaða kennsluhættir eru við lýði í skólum. Frelsiselskandi og lýðræðisþenkjandi fólk hlýtur að vera sammála því að mikilvægt sé að hlutleysis og sanngirnis sé gætt í öllu námsefni opinberra skólastofnanna. Gildir þá einu hvort námsefnið tengist sagnfræði, vísindum, menningu, trúarbrögðum eða öðru.

Sú menntun sem fer fram í grunnskólum ætti að mati undirritaðs að miða að því að veita nemendum þekkingu sem er byggð á rökum, reynslu og staðreyndum en ekki trú. Enn fremur er mikilvægt að nemendum sé kennt að hugsa sjálfstætt, að forðast rökvillur og að tjá skoðanir sínar. Því miður búum við við allt annan raunveruleika í dag. Vegna tengsla ríkisins við kirkju fá margir grunnskólanemendur afar hlutdræga kennslu kristninni í hag sem stundum er ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem beinu trúboði.

Ráðamenn virðast ekki skilja að öll afskipti yfirvalda af trúariðkun manna eru með öllu siðlaus. Þvert á móti virðast yfirvöld telja að ekkert sé sjálfsagðara en að stunda trúboð með peningum skattgreiðenda. Þessu til vitnis má nefna nýlega tillögu sem forysta Alþingis vinnur nú að þess efnis að eyða skuli 500 milljónum í viðbót af ríkisfé til þess að efla kristni hér á landi. Þessa peninga á meðal annars að nota til að efla trúarfræðslu.

Trúfræðsla og trúboð
Ef trúfræðsla stæði undir nafni væri ég ekkert á móti því að hún væri kennd í skólum. Staðreyndin er hins vegar sú að nemendur eru lítið sem ekkert fræddir um raunverulegan uppruna trúarbragða og hvaða áhrif trúarbrögð hafa haft á mannkynssöguna. Í staðinn eru nemendur látnir læra kenningar kirkjunnar (þær sem mönnum þóknast að kenna í dag) og goðsagnir Biblíunnar, stundum jafnvel eins og um sannleika og staðreyndir séu að ræða. Stundum kemur það jafnvel fyrir að prestar, prestlærðir menn eða mjög trúaðar manneskjur eru látnar sjá um þessa svokölluðu fræðslu.

Kristni og önnur trúarbrögð hafa vissulega haft geipilega mikil áhrif á líf og aðstæður manna í gegnum tíðina og í fæstum tilvikum geta þessi áhrif talist mjög jákvæð. Það er því mjög mikilvægt að grunn- og framhaldsskólanemum séu gerð grein fyrir hver þessi áhrif hafa verið sem hluti af almennu sagnfræðinámi. Það er hins vegar með öllu óþolandi að kennarar séu látnir fara í trúboðshlutverk presta.

 

Deildu