Mikil og ævi misjöfn viðbrögð hafa orðið við grein minni, Íslensku boxi gefið rothögg, sem birtist á þessum síðum síðastliðinn mánudag. Sumir hafa hrósað mér fyrir afstöðu mína á meðan aðrir hafa sagt mig vera andstæðing frelsis og mannréttinda. Ég hef því ákveðið að útskýra afstöðu mína örlítið betur.
Frelsi eða höft
Að mínu mati er það allt of algengt að menn hafi svart-hvítar skoðanir á hinum ýmsu málaflokkum. Nú tel ég mig vera afar frjálslyndan mann. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi að skipta sér sem minnst af athöfnum manna. Ég er þó þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi að tryggja þegnum sínum aðgang að menntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þessu er ég fylgjandi þrátt fyrir að slík þjónusta skerði vissulega frelsi einstaklingsins að nokkru leyti þar sem almenningur er neyddur til að borga skatta af tekjum sínum til þess að halda þessari þjónustu uppi.
Viðbrögð
Menn hafa skrifað mér og sagt að það sé gróft brot á almennum mannréttindum að banna hnefaleika. Í ágætum pistli sínum, sem var birtur hér í gær, segir Heimir Helgason: ,,Ef Jón Jónsson vill berja hausnum í stein þá er það hans ákvörðun, því hver veit nema hann fái góða hugmynd við þá athöfn?” Í öðru bréfi sem mér barst segir bréfritari eftirfarandi: ,,Sigurður, þessi skoðun þín varðandi boxið er stórhættuleg og kom mér á óvart miðað við önnur skrif ykkar”.
Mannréttindi og siðmenning
Í fyrri pistli mínum um hnefaleika benti ég á að munurinn á hnefaleikum og öðrum íþróttagreinum væri sá að slys og meiðingar væru óheppilegar afleiðingar í öðrum íþróttum sem ég þekki til á meðan meiðingar væru augljóslega tilgangurinn með hnefaleikum. Þetta skiptir miklu máli. Ef við höfum einhvern áhuga á að búa í landi þar sem siðmenning ræður ríkum þá verðum við spyrja okkur að því hvort leyfa eigi “íþróttir” sem ganga út á það að yfirbuga andstæðinginn með ofbeldi með tilheyrandi afleiðingum.
Ef svarið við þessari spurningu er já þá verðum við líka að spyrja okkur annarar spurningar. Hvað með atvinnumannahnefaleika, hvað með aðrar og hugsanlega ofbeldisfyllri íþróttir? Eigum við þá ekki að leyfa allar þær ,,ofbeldisíþróttir” sem mönnum dettur í hug að iðka því að það er frelsi einstaklingsins að gera hvað sem er svo lengi sem hann skaðar ekki aðra? Ef svarið við þessari spurningu er nei, hver á þá að dæma hvaða “ofbeldisíþróttir” eru mönnum þóknanlegar og hverjar ekki? Hver ætlar með sinni alvisku að dæma hvenær ofbeldið er komið út í öfgar og hvenær það er “ásættanlegt”? Slíkt getur enginn gert að mínu mati.
Ef svarið við ofangreindir spurningu er já, megum við þá ekki eiga von á því að til verði klúbbar þar sem menn geta slegist án nokkura hlífðarfatnaða og jafnvel til síðasta blóðdropa ef þeim svo sýnist (og fjölskyldan heima að horfa á beina útsendingu og borða popp og kók)? Er þá nokkuð því til fyrirstöðu að lögleiða einvígi fyrir þá sem vilja gera upp sín mál á þann máta? Við gætum jafnvel farið út í það að byggja ríkisrekna bardagahöll þegar búið er að reka síðasta naglann í tónleikahúsið okkar ,,ódýra“.
Ég geri mér grein fyrir að dæmin sem ég tek eru ýkt og gríni blandin en þau eru engu að síður fullgild. Sjálfskipaðir talsmenn frelsis geta ekki sagt leyfum ólympíska hnefaleika en bönnum atvinnuhnefaleika. Eða leyfum atvinnuhnefaleika en bönnum mönnum að slást opinberlega án þess að vera með hlífðarhanska. Eða leyfum mönnum að slást án hlíðfarfatnaða en bönnum fólki að berjast með vopnum. Ef þeir sem kenna sig við frelsi ætla að taka kennisetningar sínar alvarlega verða þeir einfaldlega að leyfa allt, svo lengi sem það kemur ekki niður á öðrum.
Samfélög meiga setja sér reglur
Mín niðurstaða er enn sem áður sú að það eigi ekki að leyfa allt. Samfélög geta sett sér reglur í krafti meirihluta og í þessu tilfelli er ég þeirrar skoðunar að við eigum að banna “íþróttir” sem ganga út á það að meiða og slasa andstæðinginn. Það þýðir að við eigum að banna ólympíska hnefaleika. Læknar og taugasérfræðingar hafa margsinnis sýnt fram á að ólympískir hnefaleikar séu stórhættulegir þrátt fyrir hlífðarfatnaðinn. Reynslan kennir okkur einnig að svo sé. Ég þarf ekki að upplifa það að einhver drepist eða slasist varanlega til þess komast á þá skoðun að þessa íþrótt eigi að banna. Rannsóknarniðurstöður og reynsla annarra nægir mér.
Að lokum
Greinaskrif mín hafa valdið ótrúlega miklu tilfinningaöngþveiti meðal lesenda minna. Ég hef beint og óbeint verið sakaður um að vera hættulegur og kommúnisti vegna þess hvaða viðhorf ég hef til hnefaleika. Ég vísa slíkum ásökunum til föðurhúsana og bendi mönnum einfaldlega að lesa það sem ég hef áður sent frá mér. Skoðun mín á hnefaleikum á fullkomlega rétt á sér og hefur nú verið rökstudd ítarlega. Fólk má auðvitað vera ósammála mér en það er þó óþarfi að gera mig hættulegan eða að kommúnista fyrir vikið. Ég skora á menn að gagnrýna rök mín efnislega en ekki mig sjálfan ómálefnalega.