Að deila við dómarann

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

10/01/2000

10. 1. 2000

Þegar ég var sem smápolli að byrja að fylgjast með fótbolta tókst mér eldri og reyndari mönnum að koma mér í skilning um það að ekki þýddi að deila við dómarann. Forsætisráðherra hefur nú í tvígang sýnt að hann hefur farið á mis við þennan þarfa lærdóm. Dómnum mótmælt Þegar hæstiréttur felldi sinn sögulega úrskurð […]

Þegar ég var sem smápolli að byrja að fylgjast með fótbolta tókst mér eldri og reyndari mönnum að koma mér í skilning um það að ekki þýddi að deila við dómarann. Forsætisráðherra hefur nú í tvígang sýnt að hann hefur farið á mis við þennan þarfa lærdóm.


Dómnum mótmælt
Þegar hæstiréttur felldi sinn sögulega úrskurð í máli Valdimars Jóhannessonar fyrir rétt rúmu ári síðan fann forsætisráðherra dómnum allt til foráttu. Hann gekk reyndar ekki jafn langt og utanríkisráðherra sem taldi fyrst að helst kæmi til greina að breyta stjórnarskrá en lét að því liggja að engar breytingar yrðu á stefnu sinni þrátt fyrir dóm hæstaréttar sem dæmdi þann hluta fiskveiðikerfis sem var tekinn fyrir í málinu ólöglegan. Forsætisráðherra ætlaði þá ekki að láta dómara segja sér fyrir verkum.

Nú þegar héraðsdómur Vestfjarða fellir svipaðan dóm, sem ef staðfestur í hæstarétti, kollvarpar því úthlutunarkerfi sem við búum við í fiskveiðum hvín í forsætisráðherra sem aldrei fyrr. Dómurinn segir hann að leiði til landauðnar ef staðfestur. Þannig sé næsta víst að erlend fiskiskip verði fljót að drífa sig á Íslandsmið og sópa upp öllum þeim fiski sem þar er að finna. Lítið verði því eftir til að halda byggð hérlendis.

Viðbrögð sem vekja vart traust
Viðbrögð forsætisráðherra eru öll hin furðulegustu. Í stað þess að bregðast við dómnum með því að leita nýrra leiða við úthlutun veiðiheimilda virðist hann ákveða að reyna að hræða menn til hlýðni með hörmungarsögum. Slíkt er ekki líklegt til árangurs og gefur ekki til kynna að hann sé reiðubúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir starfi hans.

Það má því segja að forsætisráðherra minni einna helst á tapsáran leikmann sem getur ekki sætt sig við að frammistaða hans dugði ekki til sigurs. Í stað þess að gera sér grein fyrir stöðunni kvartar hann undan öðrum og skýtur sér undan ábyrgð. Slíkt er ekki sæmandi fyrir forystumann ríkisstjórnar í lýðræðislandi.

Deildu