Sökkvum Eyjabökkum en virkjum ekki

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/12/1999

9. 12. 1999

Nú eru virkjanaáform Landsvirkjunar á Eyjabökkum með þeim allra leiðinlegustu umræðuefnum sem um getur. Ekki vegna þess að umræðan sé óþörf eða málefnið lítilvægt heldur vegna þess að það er allt of mikið fjallað um atriði sem skipta litlu eða engu máli. Í mínum huga eru það fyrst og fremst þrjú atriði sem menn verða […]

Nú eru virkjanaáform Landsvirkjunar á Eyjabökkum með þeim allra leiðinlegustu umræðuefnum sem um getur. Ekki vegna þess að umræðan sé óþörf eða málefnið lítilvægt heldur vegna þess að það er allt of mikið fjallað um atriði sem skipta litlu eða engu máli. Í mínum huga eru það fyrst og fremst þrjú atriði sem menn verða að hafa sæmilega á hreinu þegar þeir ákveða að sökkva Eyjabökkum undir virkjunarlón. Öll þessi atriði snúa að hagnaði og fórnkostnaði.

1. Hve miklum peningum tapa Íslendingar á Fljótsdalsvirkjun?
Nokkrir hagfræðingar hafa komið fram í fjölmiðlum landsins og lýst því yfir að stórtap verði á Fljótsdalsvirkjun. Heyrst hafa tölur á bilinu 11-20 milljarðar. Engin haldbær svör hafa borist frá hæstvirtum ráðherrum eða forstjóra Landsvirkjunar. Það er ekkert grín að fórna 11-20 milljörðum af almanna fé. Það er sjálfsögð krafa almennings að ráðamenn geri þjóðinni grein fyrir hve mikil arðsemi verði af Fljótsdalsvirkjun. Þessu hlýtur iðnaðarráðherra að geta svarað með yfirlýstum forsendum og hugsanlegum skekkjumörkum. Sá iðnaðarráðherra og sú ríkisstjórn sem ekki geta svarað þessum spurningum hljóta að teljast með öllu óhæf.

2. Hver er hagur Austfirðinga?
Eru menn handvissir á því að álver í kjölfar raforkuvers sé skynsamlegasta leiðin til þess að efla byggð á Austurlandi? Er álver besta leiðin til þess að halda í unga fólkið? Ég verð að viðurkenna að ég hef mínar efasemdir. Oft hefur komið fram að fólk sækist eftir fjölbreyttu atvinnulífi og mörg hundruð störf við eitt stórt álver geta varla talist fjölbreyttni. Nú er ég alls ekki á móti því að efla byggð í landinu ég efast einfaldlega að álver sé rétta leiðin til þess. Ég gæti að sjálfsögðu haft rangt fyrir mér.

3. Hver er fórnkostnaður náttúrunnar?
Sett hefur verið fram sú lágmarkskrafa að Fljótsdalsvirkjun verði sett í lögformlegt umhverfismat. Enda verður að bera virðingu fyrir því dýralífi sem á svæðinu er og kanna verður til hlítar hvaða áhrif virkjanir munu hafa á það. Augljóslega er verið að fórna mikilli náttúruperlu undir þessar framkvæmdir, um það deila fæstir. Ég er þó þeirrar skoðunar að ómögulegt sé svara því hvort réttlætanlegt sé að fórna Eyjabökkum fyrir Fljótdalsvirkjun og álver fyrr en búið er að svara því hvort arðsemi eða tap verði af virkjuninni og hve mikil áhrif virkjunin mun hafa á mannlíf á Austurlandi. Þessum spurningum hefur einfaldlega ekki verið nægilega svarað.

Á meðan Umhverfisvinir berjast fyrir lögformlegu umhverfismati ættu einhverjir að taka sig saman og berjast fyrir óháðu arðsemismati því ég treysti satt að segja ekki þingmönnum okkar, sem flestir eru hlekkjaðir við flokksfánann sinn, til þess að gefa almenningi heiðarleg svör.

Deildu