Þær breytingar sem nú er verið að gera á kjördæmakerfinu sem við búum við eru skref í rétta átt. Þetta er þó lítið skref og úrbætur á gamla kerfinu frekar en grundvallarbreytingar sem tryggja öllum landsmönnum jafnan atkvæðisrétt sem ég hef í einfeldni minni talið fremur eftirsóknarverðan kost.
Til hvers kjördæmi?
Íslandi hefur alla tíð verið skipt upp í kjördæmi. Þetta virðast margir telja fullnægjandi rök fyrir því að Íslandi verði alla tíð skipt upp í kjördæmi. Þessir sömu aðilar virðast gleyma því hvaða hlutverki kjördæmi hafa gegnt í gegnum tíðina og hvaða hlutverki þau geta gegnt.
Um miðbik síðustu aldar, og fram á þessa öld, var ógerlegt og óhugsandi að landið yrði eitt kjördæmi. Því réði margt meðal annars má nefna langar vegalengdir, takmörkuð samskipti og síðast en ekki síst það að stjórnmálaflokkar komu ekki fram á sjónarsviðið hérlendis fyrr en á öðrum áratug aldarinnar. Fram að þeim tíma buðu menn fram sem einstaklingar og vafasamt að það hefði gengið að hafa landið eitt kjördæmi.
Með tilkomu skipulagðra stjórnmálaflokka á öðrum og þriðja áratug aldarinnar breyttist þetta hins vegar. Með því varð mögulegt að bjóða fram á víðari grunni, enda var það um þetta leiti sem fram komu hugmyndir um að gera landið að einu kjördæmi. Það var hins vegar ekki farið að því ráði og hefur misjafnt vægi atkvæða síðan haft veruleg áhrif á íslensk stjórnmál. Framan af hafði kjördæmakerfið og misvægi atkvæða meðal annars þau áhrif að flokkur með þriðjung atkvæða gat náð meirihluta á þingi. Þó svo það hafi verið lagað og jöfnuði náð milli flokka verður seint sagt að jafnræði ríki milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að landið verði gert að einu kjördæmi, annað en stjórnmálamenn sem standa gegn því að svo verði. Samgöngur og samskiptatækni eru það góðar að þar er engin fyrirstaða. Stærð landsins er engin fyrirstaða, Grænland er miklu mun stærra land og dreifbýlla en þó er Grænland eitt kjördæmi. Fleira mætti telja en verður látið ógert. Þó ætla ég ekki að sleppa tækifærinu og minnist því á þá spillingu og fyrirgreiðslu sem hefur fylgt kjördæmafyrirkomulaginu. Stjórnmálamenn hafa kappkostað að dæla peningum í sín kjördæmi og alltof oft látið almannahag víkja fyrir hagsmunum aðila í sínu kjördæmi. Byggðastefna undanfarinna áratuga er lýsandi dæmi um þessa hugsun.
Landið eitt kjördæmi
Með því að gera landið að einu kjördæmi náum við nokkrum markmiðum sem geta verið umdeilanleg en ég tel æskileg. Allir landsmenn, óháð búsetu, hafa jafnan atkvæðisrétt. Kjördæmapot og meðfylgjandi spilling minnkar með tíð og tíma, við komum aldrei í veg fyrir þessa iðju en við getum dregið úr henni. Konur og ungt fólk munu líklega eiga greiðari leið á þing en á listum lítilla flokka í kjördæmum með fáa þingmenn.
Loks má auka möguleika fólks á því að breyta listum, strika yfir óæskilega frambjóðendur og breyta röð manna, en það er annað mál sem bíður seinni greinar.