*Í kjölfar svargreinar Sigurðar Hólm Gunnarssonar, ,,Fordómar eða umburðarlyndi?“, við grein Ragnar Fjalars prests um kirkjuna og samkynhneigð sendi Hróbjartur Guðsteinsson eftirfarandi grein í Moggann þann 29. október 1999 þar sem hann sakaði Sigurð Hólm, sem þá var formaður Félags ungra jafnaðarmanna, um sögufölsun. Sigurður svaraði Hróbjarti stuttu seinna með grein sinni ,,Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir satt.“
Fullyrðing formanns félags ungra jafnaðarmanna í grein í Mbl. þann 13. okt. vakti athygli mína þar sem hann segir orðrétt: „Allir sem hafa kynnt sér málin vita t.a.m. að Matteusarguðspjall er hvorki orð Jesú Krists né skrifað af Matteusi.“ Svo segir hann: „Höfundur þess er með öllu óþekktur. Þetta er söguleg staðreynd sem ekki er deilt um.“
Ég kynnti mér málið og talaði við ýmsa aðila, þar á meðal sagnfræðing og guðfræðing. Allir voru sammála um að Matteusarguðspjall væri talið skrifað af Matteusi postula. Ég leitaði líka í fræðiritum og þar var niðurstaðan sú sama, Matteusarguðspjall er talið vera skrifað af Matteusi. Í alfræðiorðabókinni frá Erni og Örlygi stendur m.a.: „Matteusarguðspjall: talið ritað um 70 e.Kr, skv. fornum heimildum, af Matteusi postula.“
Það var alveg sama hvar ég bar niður, alls staðar var niðurstaðan sú sama. Þá má vera að til séu aðrar kenningar um þetta en ofangreindar fullyrðingar formannsins eru alrangar. Þrjú af guðspjöllunum, Matteus, Markús, og Jóhannes, eru öll talin vera skrifuð af lærisveinum Jesú. Það fjórða, Lúkasarguðspjall er talið vera skrifað af lækni sem hét Lúkas og ferðaðist með Páli postula og kynntist þannig lærisveinunum. Þessi rit dreifðust síðan vítt og breitt um jörðina en innihaldið er það sama hvert sem litið er.
Hróbjartur Guðsteinsson
Tengdar greinar:
Fordómar eða umburðarlyndi?
Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir satt