Seljum RÚV

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

30/10/1999

30. 10. 1999

Einhverra hluta vegna virðist svo vera að þegar ríkisvaldið hefur afskipti sín af einhverju er afar erfitt að draga úr þeim afskiptum síðar. Þannig er málum farið með útvarps- og sjónvarpsrekstur hins opinbera þar sem forráðamenn RÚV undirbúa nýja sjónvarpsrás þegar ef til vill væri réttara að undirbúa sölu stofnunarinnar. Tilvistarkreppa RÚV Ef til vill […]

Einhverra hluta vegna virðist svo vera að þegar ríkisvaldið hefur afskipti sín af einhverju er afar erfitt að draga úr þeim afskiptum síðar. Þannig er málum farið með útvarps- og sjónvarpsrekstur hins opinbera þar sem forráðamenn RÚV undirbúa nýja sjónvarpsrás þegar ef til vill væri réttara að undirbúa sölu stofnunarinnar.


Tilvistarkreppa RÚV
Ef til vill virkaði RÚV best þegar stofnunin hafði einkarétt á útvarps- og sjónvarpsútsendingum. Með tilkomu einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva hefur stofnunin átt í meiri og meiri vandræðum með að réttlæta tilveru sína. Líklega vegna þess að í ljós hefur komið að einkaaðilar eru allt eins vel færir um útvarps- og sjónvarpsrekstur og opinberir aðilar.

Það að stofnunin hefur farið hallloka fyrir öðrum útvarps- og sjónvarpsstöðum þrátt fyrir styrki úr ríkissjóði og tekjur af skylduáskrift auk auglýsingatekna hlýtur að vera vísbending um að ríkisreknir fjölmiðlar eru tímaskekkja. Þegar ríkisreknir fjölmiðlar eru svo farnir að keppa við einkaaðila á mjög svo ójöfnum forsendum hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé rétt að leggja þá niður eða einkavæða.

Sú viðleitni forsvarsmanna RÚV um að setja á fót nýja sjónvarpsrás í samkeppni við einkaaðila er sorglegt dæmi um það hvernig menn leitast við að finna úreltum stofnunum nýtt hlutverk og ný verkefni.

Ríkisstofnanir og einkaframtak
Fjöldi einkarekinna útvarpsstöðva hefur starfað hérlendis um margra ára skeið og unnið til sín fjölmarga hlustendur. Sama þróun á sjónvarpsmarkaði hefur gengið hægar en virðist í fullum blóma núna. Þannig horfum við upp á að verið er að setja á fót hverja sjónvarpsstöðina á fætur annarri sem allar eru reknar á grundvelli þess hversu vel þær ná að lokka til sín áhorfendur og auglýsendur.

Á móti þessu stendur Ríkisútvarpið – sjónvarp sem hefur notið ríkisstyrkja, nauðungaráskriftar og auglýsingatekna. Þrátt fyrir það farnast henni illa og starfsmenn jafnt sem aðilar utan stofnunarinnar kvarta undan þeim ramma sem stofnunin starfar innan.

Vissulega má einstaka sinnum réttlæta inngrip ríkisvaldsins í atvinnustarfsemi. Í dag er hins vegar ekkert sem réttlætir það að ríkið sé í samkeppni við einkaaðila á fjölmiðlamarkaði. Einkaaðilar hafa sýnt og sannað að þeir eru færir um að reka sín fyrirtæki á þessu sviði hagkvæmar og betur en forráðamönnum opinberra stofnana tekst innan þess þrönga ramma sem takmarkar möguleika þeirra til nýjunga.

Ef til vill hefur ríkisrekin sjónvarpsstöð átt rétt á sér þegar Sjónvarpið tók til starfa á sjöunda áratugnum en sá tími er liðinn. Ríkisreknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar skila ekki öðrum árangri en að draga úr samkeppnisstöðu einkarekinna stöðva og sólunda fjármunum skattgreiðenda sem mætti hæglega nota í annað nytsamlegra. Það er kominn tími til að breyta.

Seljum RÚV
Þess vegna segi ég að það er kominn tími til að selja RÚV. Ríkisreknir fjölmiðlar hafa beðið skipbrot á undanförnum árum og lausnin á vanda þeirra er ekki að setja á fót nýja sjónvarpsrás til að berjast við einkaaðila.

Það er kominn tími til að Ríkisútvarpið – Sjónvarp fari sömu leið og ýmis fyrirtæki og stofnanir sem hið opinbera hefur átt í heild eða að hluta. Sú leið liggur til einkarekstrar þar sem einkaaðilar fá tækifæri til að þróa fyrirtækið í þá veru að það verði álitlegur kostur en dagi ekki uppi sem minnisvarði um forsjárhyggju þeirra stjórnvalda sem svara ekki kalli tímans.

Deildu