Menntastefna síðustu aldar á þeirri næstu

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

11/10/1999

11. 10. 1999

Björn Bjarnason menntamálaráðherra hefur verið duglegur við að færa íslenskt menntakerfi nokkra áratugi aftur í tímann. Þannig hefur hann opnað fyrir umræðuna um skólagjöld þó svo sjálfur þykist hann ekki viss um hversu góð hugmynd þau séu og lýsir við hvert tækifæri yfir hugmyndum um kennslu grunnskólabarna sem hefur ekki verið betur lýst síðan Jónas […]


Björn Bjarnason menntamálaráðherra hefur verið duglegur við að færa íslenskt menntakerfi nokkra áratugi aftur í tímann. Þannig hefur hann opnað fyrir umræðuna um skólagjöld þó svo sjálfur þykist hann ekki viss um hversu góð hugmynd þau séu og lýsir við hvert tækifæri yfir hugmyndum um kennslu grunnskólabarna sem hefur ekki verið betur lýst síðan Jónas frá Hriflu var og hét.


Auðveldari aðgangur að námi
Það hefur lengi verið stefna íslenskra stjórnvalda að auðvelda aðgang almennings að námi, á öllum skólastigum. Þessari stefnu hefur verið hrint í framkvæmd með því að kosta skóla að mestu eða öllu með greiðslum úr opinberum sjóðum, námslánakerfi og uppbyggingu skólakerfisins sem víðast um land.

Undanfarin ár hefur hins vegar raunin orðið sú að menntamálaráðherra og helstu hugmyndabræður hans úr Vefþjóðviljanum og Sambandi ungra sjálfstæðismanna talað um hvort ekki sé rétt að taka upp skólagjöld, svo menn séu ekki að eyða tíma sínum og fjármunum annarra í vitleysu, og draga úr hlutverki lánasjóðs eða að leggja hann niður, enda vill svo til að hann hefur ekki leitt til annars en síaukinnar heimtufrekju námsmanna. (Hér er rétt að taka fram að skýringarnar sem fylgja þessum hugmyndum hefur menntamálaráðherra ekki látið frá sér fara heldur ungir háskólanemar úr Sambandi ungra sjálfstæðismanna.) Merkilegast er ef til vill að heyra menntamálaráðherra tala um það sem réttlætingu á skólagjöldum að Anthony Giddens (sem hann hafði skömmu áður gert lítið úr) talaði um að ekki væri hægt að reka skóla án skólagjalda við núverandi aðstæður.

Einhvern veginn finnst mér sem þessar leiðir, skólagjöld og minni áhersla á námslánakerfi (þó námslánin hafi verið hækkuð í miðri kosningabaráttunni) ekki líklegar til að tryggja almenningi aðstöðu til að leita sér menntunar.

Björn og grunnskólinn
Annað sem er athyglisvert við þá stefnu sem Björn er að hrinda í framkvæmd er hvernig hann sér fyrir sér að grunnskólarnir starfi. Í stuttu máli er hann með stefnu sem hljómar afar líkt þeirri sem Jónas frá Hriflu hafði uppi fyrr á öldinni. Hugmyndum uppeldisfræðinga og annarra sérfróðra aðila á sviði menntunnar er vikið til hliðar fyrir brjóstviti manns sem var löngum þekktari fyrir andstöðuna við Sovétríkin en áhuga sinn á menntamálum.

Áhersla hans á einhliða menntun kennara á námssviði þeirra og hrein og klár andstaða við uppeldishlutverk grunnskóla gefur mér þó oft ástæðu til að efast um hæfni Björns til setu í stól menntamálaráðherra. Þannig nýtir hann ekki tækifærin sem grunnskólinn býður upp á til að byggja upp rökfasta og sjálfstæða einstaklinga sem standast pressu betur en margir þeir sem nú lenda í alls kyns sálrænum vandamálum og fíkniefnanotkun. Grunnskólinn, þó góður sé, getur verið mun betri og getur útskrifað mun hæfileikaríkari og hamingjusamari nemendur en nú er. Til þess að svo megi verða er hins vegar nauðsynlegt að menntamálaráðherra horfi til nýrrar aldar frekar en til fyrri hluta þessarar aldar um hvernig best verði að verki staðið.

Deildu