Að vakna upp við vondan draum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/10/1999

7. 10. 1999

Þegar ég var að fylgjast með umræðunum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra síðastliðinn mánudag tók ég sérstaklega eftir ræðu Hjálmars Árnasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um fíkniefnavandann. Í ræðu sinni lýsti Hjálmar algjöru metnaðarleysi sínu í garð málaflokksins og varpaði um leið allri ábyrgð frá stjórnvöldum. Úrræðaleysi Framsóknarflokksins Hjálmar sagði í ræðu sinni að fíkniefnavandinn væri tilkominn […]

Þegar ég var að fylgjast með umræðunum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra síðastliðinn mánudag tók ég sérstaklega eftir ræðu Hjálmars Árnasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um fíkniefnavandann. Í ræðu sinni lýsti Hjálmar algjöru metnaðarleysi sínu í garð málaflokksins og varpaði um leið allri ábyrgð frá stjórnvöldum.


Úrræðaleysi Framsóknarflokksins
Hjálmar sagði í ræðu sinni að fíkniefnavandinn væri tilkominn vegna ,,almenns agaleysis“ í samfélaginu og því yrðu heimili og skóli að taka til sinna ráða þar sem stjórnmálaaðgerðir dugi ekki. Það eina sem Hjálmari finnst stjórnvöld geta gert gegn fíkniefnavandanum er að herða dóma gegn ,,sölumönnum dauðans“ eins og hann orðaði það. Ræða Hjálmars minnti því frekar á predikun fremur en á hefðbundna ræðu. Hann skammar samfélagið fyrir almennt agaleysi en bendir ekki á neinar haldbærar lausnir.

Það er í raun merkilegt hvað sá þingflokkur sem vill (eða vildi?) verja milljarði í fíkniefnavandann virðist vita lítið um málefnið. Í hvað eiga allir þessir peningar að fara ef aðgerðir stjórnvalda duga ekki gegn vandanum? Í fleiri áróðursskilti sem skila engu?

Það virðist stundum sem að stjórnmálamenn séu úr öllu sambandi við það sem er að gerast í kringum þá. Til dæmis er þess skemmst að minnast þegar Páll Pétursson félagsmálaráðherra lýsti því yfir, á síðasta kjötímabili, hvað það kæmi sér mikið á óvart hve fíkniefnavandinn væri orðinn mikill!

Að vakna upp við vondan draum
Þar sem stjórnmálamenn segja reglulega í ræðum sínum að þeir séu að „vakna upp við vondan draum“ um umfang og afleiðingar fíkniefnavandans langar mig til þess að benda þeim á hugsanleg úrræði áður en þeir sofna aftur.

Ein mikilvægasta ástæða þess að börn og unglingar leiðast út í óreglu er lélegt sjálfsálit þeirra. Heilbrigð skynsemi segir okkur að þeir einstaklingar sem eru feimnir og óöruggir leiti frekar skjóls í vímu en þeir sem hafa öruggari sjálfsmynd. Ósjálfstæðir og óöruggir einstaklingar eru að sjálfsögðu einnig líklegri til þess að láta undan hópþrýstingi. Niðurstöður vísindarannsókna taka undir þessi sjónarmið. Það er því löngu orðið tímabært að stjórnmálamenn taki tillit til þessara staðreynda.

Ef grunnskólamenntun yrði til að mynda byggð upp með það markmið að leiðarljósi að gera nemendur að sjálfstæðari og sjálfsöruggari einstaklingum væri verulega hægt að draga úr fíkniefnavandanum. Yfirlýsingar þingmanna um að stjórnvöld geti lítið að gert, lýsa aðeins yfirgripsmikilli vanþekkingu þeirra á rót vandans.

Harðari refsingar
Sífellt háværari kröfur um harðari refsingar gegn „sölumönnum dauðans“ eru undarlegar í ljósi þess að margir þeir sem selja vímuefni eru einmitt sjálfir neytendurnir sem við viljum bjarga. Hertari refsingar gera líklegast lítið annað en að kveða niður þann hefndarþorsta sem menn hafa til þeirra sem selja fíkniefni. Sannleikurinn er sá að svo lengi sem eftirspurn er eftir fíkniefnum þá mun vera framboð á þeim. Hertari refsingar munu breyta litlu, ef þá einhverju um framboð fíkniefna.

Hvað myndir þú gera?
Hvað myndir þú gera ef fjöldi ungmenna væri fastur í lífsháska upp á fjöllum?* Ég myndi umsvifalaust gera hvað sem ég gæti til þess að bjarga þeim þaðan. Síðan myndi ég reyna að komast að því hvers vegna ungmennin fóru þangað til þess að byrja með og nota þá þekkingu til þess að koma í veg fyrir að aðrir lentu í sömu aðstæðum.

Undirritaður leggur því til að stjórnvöld fari að einbeita sér að rót vandans. Hjálpum ungu fólki að verða að sjálfstæðum einstaklingum. Þetta er hægt, spurningin er bara hvort viljinn til þess sé fyrir hendi.

*Svona hljómaði ein kosningaauglýsing Framsóknarflokksins um fíkniefnavandann.

Deildu