Frelsi felur í sér ábyrgð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/07/1999

21. 7. 1999

Auglýsingar frá Samtökum iðnaðarins hafa verið áberandi undanfarna daga, þar sem auglýsingabannið á bjór er harðlega gagnrýnt. Þessar auglýsingar, ásamt auglýsingum frá íslenskum bjórframleiðendum, þar sem menn birtast ýmist keflaðir eða fýldir á svip, hafa vakið nokkra umræðu um það hvort að auglýsingabann á áfengi sé réttlætanlegt. Íslenskir bjórframleiðendur benda á að núgildandi bann við […]

Auglýsingar frá Samtökum iðnaðarins hafa verið áberandi undanfarna daga, þar sem auglýsingabannið á bjór er harðlega gagnrýnt. Þessar auglýsingar, ásamt auglýsingum frá íslenskum bjórframleiðendum, þar sem menn birtast ýmist keflaðir eða fýldir á svip, hafa vakið nokkra umræðu um það hvort að auglýsingabann á áfengi sé réttlætanlegt.

Íslenskir bjórframleiðendur benda á að núgildandi bann við bjórauglýsingum sé skerðing á tjáningarfrelsi, sérstaklega þar sem það má bæði kaupa og drekka bjór hér á landi. Einnig er bent á að íslenskir bjórframleiðendur standa höllum fæti gagnvart erlendum keppinautum sínum sem geta óhindrað auglýst í erlendum tímaritum og sjónvarpsstöðvum sem margir Íslendingar hafa aðgang að.

Þeir sem eru fylgjandi áframhaldandi banni á áfengisauglýsingum benda á að ef banninu verði aflétt geti það grafið undan áralöngu forvarnarstarfi gegn drykkju barna og unglinga. Þessar áhyggjur eru ekki með öllu ástæðulausar. Þeir sem starfa við auglýsingagerð vita mætavel mikilvægi þess að ná til ungra neytenda. Það er til að mynda þekkt að neytendur halda mikilli tryggð við þær vörutegundir sem þeir kynnast á unga aldri.

Fólk á það til, því miður, að vera afar áhrifagjarnt og á það sérstaklega við um óharnaða unglinga. Eftir vel heppnaða auglýsingaherferð ganga nær allir í fötum eftir X og Y en allt annað verður „púkó“ og vinsældalistar útvarps- og sjónvarpsstöðvanna ráða því nánast hvað er „góð“ tónlist og hvað ekki. Það er í raun því ekki spurning að auglýsingar þar sem fallegt og skemmtilegt fólk drekkur áfengi án nokkurra neikvæðra afleiðinga geta gefið ungu fólki villandi mynd af neyslu áfengis.

Boð og bönn eru að sjálfsögðu ekki lausnirnar að vandamálum heimsins. Mótefni gegn ofdrykkju og vímuefnaneyslu ungmenna felast ekki í því að banna allt og ekkert. Undirritaður er hins vegar hræddur um að, á meðan skólakerfið gerir nánast ekkert til þess að byggja sjálfstæða og gagnrýna nemendur, muni það veika og oftast „ókúl“ forvarnarstarf sem nú er stundað, einfaldlega drukkna í auglýsingaflóði frá vel fjármögnuðum áróðursvélum áfengisframleiðenda. Því tel ég, ef við berum hag æsku þessa lands fyrir brjósti, að það sé óskynsamlegt að lyfta banninu af áfengisauglýsingum.

Röksemd íslenskra bjórframleiðenda, um skerta samkeppnisstöðu, er auk þess gölluð að einu mikilvægu leyti. Það hefur um langa hríð verið bannað að auglýsa bjór og aðra áfenga drykki hér á landi. Þessari staðreynd hljóta íslenskir bjórframleiðendur að hafa gert ráð fyrir áður en þeir ákváðu að hefja framleiðslu og sölu á íslenskum bjór.

Deildu