Við upphaf þessa mánaðar kynnti Sólveig Pétursdóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, niðurstöður nefndar sem fjallaði um málefni ungra afbrotamanna. Þar kom meðal annars fram að fjöldi einstaklinga undir 18 ára sem dæmdir hafa verið í fangelsi (skilorðs- eða óskilorðsbundið) hafi fjölgað úr 44 árið 1996 í 114 á síðasta ári. Enn fremur kom fram að 30 – 40% afbrota í öllum aldurshópum eru framkvæmd af einstaklingum sem eru 18 ára og yngri.
Líkja má umræðunni um vanda ungmenna við sápuóperu þar sem yfirdrifin dramatík og þriðja flokks leiklist ræður ríkum. Nýjasta dramatíkin eru fyrrnefndar niðurstöður um aukna afbrotatíðni ungmenna. Í kjölfarið rauðglóa símalínur Þjóðarsálarinnar og þeir sem komast að, keppast við að lýsa vanþókknun sinni á því hnignandi samfélagi sem við búum í. Fréttamenn lýsa grafalvarlegir ástandinu og krefja yfirvöld um tafarlausar úrbætur. Stjórnmálamenn koma fram og tjá sig um málið af alkunnri yfirvegun og málsnilld. Þeir benda á að hinar og þessar nefndir hafi skilað tillögum um úrbætur sem bráðum komast í framkvæmd. Hvar hef ég heyrt þetta áður?
Allir þeir sem eitthvað hafa fylgst með þjóðmálaumræðunni kannast við þessa þriðja flokks sápu. Gagnslaust jakkafatablaður og endalausar nefndarsetur sem skila engu, nema í besta falli veglegu rasssæri, eru allsráðandi. Hagur fólksins sem um er rætt breytist hins vegar lítið sem ekkert.
En hvernig getum við komið í veg fyrir aukna afbrotahneigð ungmenna sem lýsir sér meðal annars í ofdrykkju, fíkniefnaneyslu, innbrotum og ofbeldi? Íslendingar eru duglegir við að miða sig við nágrannalöndin og þá oftar en ekki við Norðurlöndin. Úrræðin koma augljóslega samt ekki þaðan, því ef eitthvað er þá er vandinn þar verri en hér.
Ekki er viskuna heldur að fá frá Bandaríkjum Norður Ameríku þar sem Clinton forseti kennir tölvuleikjum og bíómyndum um nýjustu öldu ofbeldis þar í landi. Hófsamir andstæðingar forsetans í flokki repúblíkana kenna hins vegar illum öflum á borð við guðleysi, kynfræðslu, getnaðarvörnum og dagheimilum um sama ástand.
Hvað er þá til ráða? Er kannski ekkert til ráða? Er það kannski „eðlilegt“ að ákveðinn hluti ungmenna detti ofan í dóp- og afbrotagryfjuna? Ég segi nei! Ég tel að það sé vel hægt að draga verulega úr og jafnvel koma í veg fyrir alvarleg afbrot ungmenna. Með samstilltu átaki samfélagsins þar sem menntastofnanir eru í aðalhlutverki er hægt að gera mikið til þess að bæta ástandið.
Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að afbrotamenn eru einstaklingar sem hafa tilfinningar. Við þurfum að átta okkur á því hvers vegna ungmenni leiðast út í óreglu og afbrot og hvernig hægt er að koma í veg fyrir það. Margir virðast gleyma því, um leið og þeir verða fullorðnir, að unglingsárin geta verið mjög erfið. Með þessu er ég að sjálfsögðu ekki að segja að fólk beri ekki ábyrgð á athæfi sínu. Fólk ber alltaf ábyrgð á því sem það gerir. Því má samt ekki gleyma að við sem samfélag berum ábyrgð á því hvernig komið er fyrir ungu fólki. Við berum ábyrgð á því að menntastofnanir landsins kenna nemendum sínum ekki að hugsa rökrétt og vinna úr tilfinningum sínum. Við berum ábyrgð á því að ungu fólki er ekki kennt að tjá sig. Við berum ábyrgð á því að alltof mörgum hundleiðist í skóla og gengur illa með námið. Það er á okkar ábyrgð að sú menntun sem við veitum ungmennum landsins undirbýr þau einfaldlega ekki undir lífið sjálf!
Það sem þarf að gera er að hætta að sóa tíma og peningum í áróðursskilti, harðari refsingar og herferðir sem gera ekkert gagn. Ekkert af þessu mun nokkurn tíma skila neinu gagni. Nóg er að horfa til annara landa til þess að átta sig á því.
Mun skynsamlegra er að byggja upp öflugt menntakerfi þar sem nemendur eru ánægðir, áhugasamir og læra að takast á við lífið. Hér er að mínu mati um raunverulega og árangursríka lausn að ræða sem kostar bæði tíma (sem spannar meira en eitt kjörtímabil) og peninga.
Þetta er lausnin sem ég legg til, því ég er satt að segja orðinn dauðþreyttur á þriðja flokks sápuóperum.