Biskupsfulltrúa svarað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/12/2010

13. 12. 2010

Í laugardagsblaði Morgunblaðsins 4. desember sl. er fjallað um athugasemdir Gísla Jónassonar, prófasts og fulltrúa biskups, við tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur að reglum um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög. Gísli er afar ósáttur við tillöguna og hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum verði hún samþykkt óbreytt. Ekki er ljóst hvort Gísli […]

Í laugardagsblaði Morgunblaðsins 4. desember sl. er fjallað um athugasemdir Gísla Jónassonar, prófasts og fulltrúa biskups, við tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur að reglum um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög. Gísli er afar ósáttur við tillöguna og hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum verði hún samþykkt óbreytt. Ekki er ljóst hvort Gísli hefur lesið tillöguna sem hann gagnrýnir svo mjög en verður það að teljast ólíklegt miðað við allar þær rangfærslur sem eru að finna í athugasemdum hans. Ég leyfi mér að leiðrétta helstu rangfærslur hans hér.

1. RANGT er að banna eigi þjóðsönginn og þjóðfánann í skólum
Gísli segir að upphafleg tillaga Mannréttindaráðs sé nánast orðrétt upp úr bréfi sem Siðmennt sendi frá sér 2005. Þetta er rangt, þó vissulega sé margt í tillögum Mannréttindaráðs sem er í samræmi við stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum. Siðmennt hefur fjallað um trúfrelsi og þar á meðal um samskipti trúfélaga og opinbera skóla nánast frá því að félagið var stofnað. Siðmennt hefur þó aldrei lagt til að bannað verði að syngja þjóðsönginn eða hafa þjóðfánann í skólum. Þessum þvættingi hefur nokkrum sinnum verið logið upp á félagið í gegnum tíðina. Ég man að biskup Íslands hélt þessu fram í ræðu og riti árið 2002 og þá svaraði ég rangfærslum hans. Síðan hef ég þurft að skrifa tugi greina til að leiðrétta sömu rangfærslur frá ýmsum þjónum kirkjunnar og stjórnmálamönnum. Sumir virðast halda að sé logið nægjanlega oft, breytist ósannindi sjálfkrafa í sannindi.

2. RANGT er að hægt sé að bera saman trúaráróður, íþróttaiðkun og Rauða krossinn
Þegar kemur að kynningum í opinberum skólum skilur prófasturinn ekki að gerður sé greinarmunur á trúar- og lífsskoðunarhópum annars vegar og öðrum félögum sem bjóða upp á „tómstundastarf“ hins vegar. Nefnir hann félög eins og íþróttafélög, Rauða krossinn og Amnesty. Mér þykir það merkilegt þegar trúaðir einstaklingar þykjast ekki sjá muninn á trúarstarfi og til dæmis íþróttaiðkun. Ég hélt að öllum væri ljóst að munurinn er mikill. Að bera saman trúboð og íþróttaiðkun er svo augljóslega óviðeigandi að það þarf varla að útskýra það. Er virkilega hægt að bera sunnudagaskóla saman við Taflfélag Reykjavíkur? Mun nær væri að bera áróður trúfélaga saman við áróður stjórnmálahreyfinga í skólum. Mér þætti óeðlilegt ef kennarar væru látnir dreifa auglýsingum frá Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum í skólum, að sama skapi er óeðlilegt að áróðri frá trúarhreyfingum sé dreift í opinberum skólum. Börn eiga að fá að vera í friði fyrir áróðri í skólum.

3. RANGT er að banna eigi að gefa börnum Nýja testamentið
Gísli gagnrýnir að það eigi að banna Gídeonfélaginu að dreifa Nýja testamentinu í skólum. Bendir hann á að Nýja testamentið sé kennslugagn enda segi í námsskrá að börn eigi að kunna skil á Mattheusarguðspjalli. Því þyrfti borgin að kaupa Nýja testamentið fyrir börnin ef Gídeonfélaginu yrði bannað að dreifa því í skólum.

Enginn er að banna Gídeonfélaginu að gefa börnum bækur. Það sem verið er að banna er að fulltrúar Gídeonfélagsins komi inn í tíma í opinberum skólum, fari með trúaráróður og láti börnin jafnvel fara með bænir (eins og ég veit að iðulega er gert). Markmið Gídeonfélagsins er fyrst og fremst trúboð, ekki einlægur áhugi á að bæta úr bókaskorti barna. Ég hef nokkrum sinnum rætt við fulltrúa Gídeonfélagsins og spurt hvers vegna þeir geta ekki gefið bókasöfnum skóla, eða Námsgagnastofnun Nýja testamentið sem síðan væri hægt að dreifa til barna og nýta í fræðslu um kristna trú. Svörin sem ég hef fengið eru á þann veg að sú aðferð komi ekki til greina því markmiðið sé fyrst og fremst að ná „persónulegum tengslum“ við börn og segja þeim frá Jesú. Einmitt þess vegna hefur Gídeonfélagið ekkert erindi inn í opinbera skóla borgarinnar.

Að auki má benda á að þar sem við erum „kristin þjóð“ eins og oft heyrist, hljóta að vera til Biblíur á nánast hverju einasta heimili sem börnin geta fengið lánuð. Ég, trúleysinginn, á þrjár Biblíur og hef meira að segja lesið þá merkilegu bók spjaldanna á milli. Ég trúi því ekki að í þessu „kristna samfélagi“ sem Ísland á víst að vera, sé svo mikill skortur á Nýja testamentinu að trúboðsfélag þurfi að fara inn í hvern einasta bekk færandi hendi.

4. RANGT er að halda því fram að útiloka eigi starfsstétt presta úr áfallateymum skóla
Gísli prófastur lýkur svo máli sínu á því að nú eigi að útiloka presta úr „samstarfi við viðbrögð við áföllum í skólum borgarinnar“. Þetta er ekki rétt eins og Gísli veit mætavel sjálfur. Í tillögu Mannréttindaráðs er einungis kveðið á um að börnum sé tryggður réttur til að fá þjónustu fagaðila sem óbundnir eru trúar- og lífsskoðunarfélögum. Það á semsagt ekki að vera nóg að fulltrúi trúarhreyfingar sé til staðar þegar áföll dynja yfir.

Segir Gísli: „Þýðir það að sálfræðingar megi ekki vinna við áfallahjálp í skólum ef þeir tilheyra kirkju eða trúfélagi? […] Það horfir framhjá því að prestar og djáknar hafa sérfræðimenntun og reynslu á sviði sálgæslu sem er jafnvel langt umfram reynslu margra annarra sem starfa á þessu sviði.“

Nei, Gísli. Auðvitað mega sálfræðingar sem eru í trúfélagi vinna við áfallahjálp. Í opinberum stofnunum skal einfaldlega gerð sú krafa að fagmenn, hvort sem það eru kennarar, læknar, hjúkrunarfólk, sálfræðingar eða einhverjir aðrir blandi ekki trúarskoðunum sínum í sín störf. Siðareglur flestra starfsstétta kveða einmitt á um þetta og þykir það sjálfsagt. Ef prestlærður einstaklingur getur ekki veitt börnum í opinberum skólum áfallahjálp, án þess að blanda trúarskoðunum sínum í þá vinnu, á slík áfallahjálp heima í kirkjum eða inn á heimilum, ekki í opinberum skólum.

Ekki skal ég neita því að margir prestar hafa mjög mikla reynslu í því að vinna úr áföllum. Það sem skiptir máli er hvort þeir treysta sér til að veita slíka þjónustu án þess að vera með einhvern trúaráróður í leiðinni.

Hvað varðar meinta „sérfræðimenntun“ presta á þessu sviði þá má geta þess að guðfræðingur getur tekið hámark 12 einingar í sálgæslu í guðfræðideildinni, allt valkúrsar. Tólf einingar af 180 eininga námi benda ekki til mikillar sérfræðimenntunar, satt best að segja.

Deildu