Þjóðkirkjan stóð ein gegn trúfrelsi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/06/2005

14. 6. 2005

Ánægjulegt var að heyra háværa kröfu frjálsra félagasamtaka um aðskilnað ríkis og kirkju á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar sem haldin var á Hótel lofleiðum síðastliðin laugardag. Á fundinum voru fulltrúar fimm félagasamtaka sem allir vildu að 62. grein stjórnarskrárinnar, sem kveður á um þjóðkirkju, yrði felld niður. Reyndar var aðeins einn maður sem talaði gegn aðskilnaði ríkis […]

Ánægjulegt var að heyra háværa kröfu frjálsra félagasamtaka um aðskilnað ríkis og kirkju á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar sem haldin var á Hótel lofleiðum síðastliðin laugardag. Á fundinum voru fulltrúar fimm félagasamtaka sem allir vildu að 62. grein stjórnarskrárinnar, sem kveður á um þjóðkirkju, yrði felld niður. Reyndar var aðeins einn maður sem talaði gegn aðskilnaði ríkis og kirkju á þinginu og var það vitaskuld fulltrúi Þjóðkirkjunnar. Fulltrúi Þjóðkirkjunnar var sá eini sem talaði fyrir sérhagsmunum en gegn jafnrétti í trúmálum þjóðarinnar.

Áhugavert er að bera saman ræður fulltrúa SARK og Siðmennt annars vegar og ræðu fulltrúa Þjóðkirkjunnar hins vegar.

Friðrik Þór Guðmundsson, oddviti SARK lagði áherslu á jafnrétti og réttlæti:

“Krafa Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju er krafa um mannréttindi og trúarlegt jafnrétti. Í samtökunum eru sömu megin borðsins trúað fólk og trúlaust, sem telur það brot á mannréttindum, trúfrelsi og trúarjafnrétti að eitt tiltekið trúfélag njóti stjórnarskrárbundins forgangs og forréttinda umfram önnur trúfélög og lífsviðhorf”

[…]

“Samtökin telja óforsvaranlegt að næstum því sjötti hver landsmaður er nú settur í annan og óæðri flokk í trúmálum en hinir útvöldu. Nær sjötta hverjum landsmanni er að óbreyttu efnislega sagt, að hann sé afvegaleiddur trúvillingur. Þetta er sagt við 43 þúsund landsmenn; þetta er sagt við 11 þúsund meðlimi Fríkirkjusafnaða, við 6 þúsund Kaþólikka, við nær þúsund Ástatrúarmenn, við yfir 500 Búddista, við yfir 7 þúsund manns utan trúfélaga og áfram mætti upp telja. Öll umræða um hversu trúar- og lífsskoðanahópar eru fjölmennir er að öðru leyti óviðeigandi í þessu samhengi. Annað hvort eru menn fylgjandi mannréttindum og jafnrétti til handa öllum, eða ekki.”

[…]

“Lítið í kringum ykkur, ágætu nefndarmenn. Í ríkisstjórninni er kaþólskur ráðherra. Í þingliðinu er ásatrúarmaður. Eru trúvillingarnir að smokra sér upp á dekk? Ef þingmenn væru að sönnu þverskurður þjóðarinnar ættu 9 þingmenn af sextíu og þremur að vera utan Ríkiskirkjunnar. Það þætti aldeilis ekki marklaus þingflokkur og væntanlega ekki talinn óæðri hinum.”

Bjarni Jónsson, fulltrúi Siðmenntar á fundinum, talaði um frelsi og lýðræði:

“Krafa Siðmenntar um aðskilnað ríkis og kirkju um niðurfellingu á 62. grein stjórnarskrárinnar, en hún kveður á um ríkiskirkju, er krafa um trúfrelsi í upplýstu þjóðfélagi. Það samrýmist ekki viðhorfum vorra tíma til lýðræðis og mannréttinda að sumir skul vera jafnari en aðrir.”

[…]

“Ég vil hvetja meðlimi stjórnarskrárnefndar til þess að stíga skrefið í átt til fulls trúfrelsis og lýðræðis með því að leggja til aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðin er tilbúinn í slíkar breytingar, það sýna viðhorfskannanir svo glögglega. Ráðamenn þjóðarinnar sjá vonandi heiður sinn í því að bæta enn frekar okkar mæta þjóðfélag með ákvörðun um aukið jafnrétti lífsskoðana.”

Eins og sjá má er leggja bæði Siðmennt og SARK megináherslu á að jafnrétti og þar með réttlæti ríki í trúmálum. Siðmennt, sem er félag um siðrænan húmanisma, leggur til að mynda ekki til að lífsskoðun félagsins njóti sérstakar verndar eða stuðnings yfirvalda umfram aðrar lífsskoðanir. Enda segir í upphafsorðum trúfrelsisstefnu Siðmenntar:

“Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju.”

Þjóðkirkja allra landsmanna berst gegn jafnrétti
Sama verður því miður ekki sagt um málflutning Þjóðkirkjunnar á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar. Í ræðu Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, talsmanns ríkiskirkjunnar, er ekki einu orði vikið að jafnrétti, frelsi eða réttlæti. Ekki einu einasta orði.

Þess í stað virðast fulltrúar Þjóðkirkjunnar telja að það sé bæði nauðsynlegt og æskilegt að ríkisvaldið hafi áhrif á trúar- og lífsskoðanir Íslendinga í krafti ríkisvalds:

“Kirkjan er slík stofnun með helgihaldi sínu og boðun. Hún skiptir óneitanlega miklu máli fyrir kristindóminn. Hún tryggir opinbera hlutdeild trúarinnar í samfélagslegri umræðu og styrkir jafnframt stöðu hennar í samtali við aðrar stofnanir samfélagsins. Kirkja og kristni sem ein af stofunum samfélagsins er samkvæmt þessum skilningi ómissandi fyrir gildismótunina. Þessi staða kirkjunnar innan samfélagsins er þegar virt í stjórnarskránni og ber að tryggja að svo verði.”

Þetta eru einu rök Sigurjóns fyrir sérstakri ríkiskirkju, og þessi rök eru bæði ólýðræðisleg og þar með stórhættuleg. Sigurjón vill að Þjóðkirkjan hafi sérstakt tangarhald á gildismótun frjálsra einstaklinga á Íslandi. Þá nægir ekki að nýta tjáningarfrelsið og boða fagnaðarerindið (þ.e. útgáfu Þjóðkirkjunnar af fagnaðarerindinu sem er alls ólíki öðrum útgáfum) til þeirra sem vilja hlusta. Nei, ríkisvaldið á sérstaklega að styrkja og styðja trúarboðskap útvalins trúarhóps á kostnað allra hinna. Frelsi og jafnrétti koma hér ekki málinu við. Þjóðkirkjan hefur vald frá ríkinu til að móta gildi þegnanna og hún vill halda því.

Athyglisvert er að annað í ræðu Sigurjóns hefur ekkert að gera með rök með eða á móti Þjóðkirkju. Það er svosem ekki undarlegt þar sem engin lýðræðisleg rök eru fyrir slíku miðaldarfyrirkomulagi.

Fulltrúi ríkiskirkjunnar notaði það sem eftir var af ræðutíma sínum til að breiða út rógburð um trúleysinga og til að fjalla um hvað trúin væri mikilvæg mannlegu samfélagi. Eitthvað sem margir eru sammála en sú tilfinning gefur ekki einu útvöldu trúfélagi rétt til að njóta sértaks stuðnings yfirvalda umfram önnur félög. Alveg er ég viss um að múslimar, hindúar, búddistar og aðrir telja trú sína jafn mikilvæga fyrir samfélagið allt. Sjálfur tel ég mína lífsskoðun þá skynsamlegustu sem völ er á (annars aðhylltist ég hana væntanlega ekki). Ekki dettur mér þó í hug að leggja til að aðrir landsmenn séu neyddir með beinum eða óbeinum hætti að fara eftir minni lífsskoðun. Ég nýti þó þau tækifæri sem mér gefast til að fjalla um siðrænan húmanisma, algerlega án sérstakrar umframverndar ríkisins.

Annars er það undarlegt hvað ólíkir menn geta litið sömu mál ólíkum augum. Í erindi Sigurjóns, sem hann dreifið á fundinum, segir hann:

“Er það ekki merkilegt að nokkrir af svokölluðum trúleysingjum álíta sig hafa rétt og vald til að ákveða hvenær megi skíra börn, hvert innihald trúarinnar sé og hvernig við kristnir menn eigum að haga okkur o.s.frv.”

Hvaða trúleysinga er Sigurjón að tala um og hvað kemur þetta aðskilnaði ríkis og kirkju við? Þeir trúleysingjar sem ég þekki til telja einmitt “…að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa.” (sjá stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum).

Það eru hins vegar þeir, fulltrúar Þjóðkirkjunnar sem berjast gegn aðskilnaði ríkis og kirkju, sem vilja ríkisstudd áhrif á lífsskoðanir okkar hinna. Ríkistrú er stefna Þjóðkirkjunnar, trúfrelsi er stefna trúleysingja – ekki öfugt.

Höfundur er varaformaður Siðmenntar og varaoddviti SARK.

Ítarefni:
Erindi SARK
http://www.sark.is/archives/2005/13/06/avarp_sark_a_stjornarskrarradstefnu.php

Erindi Siðmenntar
http://www.sidmennt.is/archives/2005/14/06/erindi_sidmenntar_a_radstefnu_stjornarskrarnefndar.php

Erindi Þjóðkirkjunnar (dreift á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar)
https://skodun.is/archive/thjodkirkjan.pdf

Öll erindi sem hafa borist stjórnarskrárnefnd
http://www.stjornarskra.is/Erindi/

Trúfrelsisstefna Siðmenntar
http://www.sidmennt.is/trufrelsi/

Stefna SARK
http://www.sark.is/stefna/

Deildu