Bjarni Jónsson, félagi minn og samstarfsmaður í Siðmennt, sendi frá sér góða grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag. Þar fjallaði hann um grein Jónínu Ben í sama blaði þar sem hún, af einhverjum furðulegum ástæðum, vildi kenna trúleysi um barnaníðingsskap.
Jónína var vitaskuld að tala um það mál sem nú tröllríður fjölmiðlum. En eins og flestir vita hefur að því er virðist hátrúaður, aðstoðarmaður prests, kirkjukórsfélagi og fyrrum starfsmaður í KFUM verið sakaður um að eiga barnaklám. Jafnvel er talið að hann hafi framleitt slíkt efni sjálfur.
Þrátt fyrir starfsferil þessa manns fannst Jónínu eðlilegt að kenna TRÚLEYSI um slíka siðleysu sem barnaníðingsskapur er. Ég verð að segja að mér sárnaði mjög mikið þegar ég las grein Jónínu og ég veit að margir trúlausir félagar mínir urðu mjög reiðir.
Sjálfur tel ég mig vera siðprúðan mann og satt best að segja eru þeir vinir mínir sem telja sig trúlausa þeir sem ég tel að hafi hvað mesta siðferðiskennd.
Siðferði kemur trú ekki við eins og ég hef svo oft tíundað í greinum mínum og nú vona ég að fólk fari að átta sig á þessu. Það er orðið hálf þreytt að upplifa endalausar árásir frá hinum og þessum þess efnis að maður hljóti að vera siðlaus bara vegna þess að maður trúir ekki á heilagan anda, að maður hafi gengið á vatni, breytt vatni í vín og dáið fyrir syndir mannanna (sem hinn sami reyndar skapaði).
Ég hvet alla til að lesa grein Bjarna.
Ítarefni:
Heimspeki og trú