Börn og forsjárhyggja

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/06/2003

24. 6. 2003

Það hefur komið mörgum á óvart að undirritaður skuli taka undir þá tillögu Gro Harlem Brundtland, aðalframkvæmdastjóri WHO, að banna eigi reykingar á heimilum barna, eða í það minnsta banna reykingar í návist barna. Menn kalla þessa afstöðu forsjárhyggju, en því er ekki hægt að vera sammála. Verndun barna er ekki forsjárhyggjaForsjárhyggja felur í einföldu […]

Það hefur komið mörgum á óvart að undirritaður skuli taka undir þá tillögu Gro Harlem Brundtland, aðalframkvæmdastjóri WHO, að banna eigi reykingar á heimilum barna, eða í það minnsta banna reykingar í návist barna. Menn kalla þessa afstöðu forsjárhyggju, en því er ekki hægt að vera sammála.

Verndun barna er ekki forsjárhyggja
Forsjárhyggja felur í einföldu máli í sér að banna fullorðnum og andlega heilsuhraustum einstaklingum að gera það sem skaðar ekki aðra en þá sjálfa. Þetta er nokkuð svart/hvít skilgreining, þar sem á þessu hljóta að vera nokkrar undantekningar sem ekki verður fjallað um hér.

Börn eru ekki sjálfráða og hafa ekki tækifæri til að velja sér umhverfi eða foreldra. Um leið og frjálslyndi felur í sér umburðarlyndi gagnvart því að fullorðið fólk fái að reykja úr sér lungun ef það svo kýs þá felur frjálslyndi ekki í sér umburðarlyndi við því að saklaust fólk sé neytt til þess að reykja með þeim.

Yfirvöld eiga að vernda börn
Rannsóknir sýna, hvort sem við viljum það eða ekki, að óbeinar reykingar eru hættulegar heilsu fólks. Óbeinar reykingar stytta og skemma líf þeirra sem verða fyrir því. Líf einstaklingsins hlýtur að vera það mikilvægasta sem hann hefur og því ber að vernda það.

Eitt helsta markmið yfirvalda er að vernda smæstu og viðkvæmustu einstaklinga samfélagsins. Það að neyða ósjálfbjarga fólk til að búa, að óþörfu, í heilsuskaðlegu umhverfi er ofbeldi. Ekki síður en hið hefðbundna líkamlega ofbeldi. Margir gera sér eflaust ekki grein fyrir því hve alvarlegt ofbeldi óbeinar reykingar eru gagnvart börnum, en það er þeirra mál og breytir ekki alvarleika málsins.

Auðvitað er erfitt að fylgjast með því hvort fólk er að reykja ofan í börnin sín eða ekki. En sama má segja um annars konar ofbeldi. Það er enginn að tala um að senda eftirlitsmann inn á hvert heimili til að fylgjast með foreldrum. Það sem á að gera er að tryggja börnum lagalegan rétt til að búa í heilsusamlegu umhverfi. Í kjölfarið myndi fólk almennt líta niður á þá sem reykja ofan í börnin sín og líklegt er að það myndi draga úr slíkum ósóma. Þá er markmiðinu náð.

Tengt efni:
Bönnum reykingar á heimilum

Ítarefni:
Greinar um málefni barna

Deildu