Meira um fóstureyðingar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/04/2002

19. 4. 2002

Sævar bendir réttilega á að það er munur á sæði og eggi annars vegar og okfrumu (það sem verður til þegar egg og sæðisfruma sameinast, semsagt fyrsta stig fósturs) hins vegar. Hvorki sæði né egg geta ein og sér orðið að manneskju á meðan okfruma getur það. Rök mín gengu hins vegar ekki út á […]

Sævar bendir réttilega á að það er munur á sæði og eggi annars vegar og okfrumu (það sem verður til þegar egg og sæðisfruma sameinast, semsagt fyrsta stig fósturs) hins vegar. Hvorki sæði né egg geta ein og sér orðið að manneskju á meðan okfruma getur það. Rök mín gengu hins vegar ekki út á þetta. Ég tel fóstureyðingar réttlætanlegar svo lengi sem virkur taugavefur hefur ekki myndast. Eins og ég benti á um daginn þá er mannslíf ekki skilgreint sem ,,eitthvað sem lítur út eins og maður“. Heiladauð manneskja er því ekki lifandi í neinum venjulegum skilningi þess orðs. Getan til þess að hugsa, skynja og vera meðvitaður um sjálfan sig og umhverfi sitt eru einkennandi fyrir mannslíf. Fóstur á fyrstu stigum meðgöngu hefur ekkert þessara einkenna.


Siðfræðilega er því enginn munur á því að ,,drepa“ fóstur sem ekki hefur enn þroskað með sér virkan heilavef, og þarmeð vitund, og að slökkva á öndunarvél sem heldur ,,lífinu“ í heiladauðum einstaklingi.

Ef maður leyfir sér að fara út í heimspekilegar vangaveltur þá er jafnvel hægt að rökstyðja að það sé siðlausara að ,,drepa“ heiladauðann mann en að ,,drepa“ fóstur sem ekki er með virkan taugavef. Tækninýjungar og MJÖG stórtækar framfarir í læknavísindum (ala Star Trek) gætu hugsanlega endurvakið heilastarfsemi mannsins sem þýddi að ef hann yrði ,,drepinn“ þá væri maður hugsanlega að fórna möguleika hans til að lifa á ný og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Þar sem að möguleikinn á því að endurvekja heiladauðann einstakling er svo fjarstæðukenndur þá lítur enginn á þann möguleika sem raunhæfan og því teljum við ekki siðlaust að ,,drepa“ heiladauðann einstakling.

Fóstur sem enn hefur ekki eignast virkan taugavef, hefur aldrei upplifað neitt mennskt, hefur engar tilfinningar, veit ekki neitt og hefur aldrei verið meðvitað um tilvist sína eða umhverfi sitt. Að ,,drepa“ fóstur á þessu stigi getur því varla talist siðlaust. Hverju er verið að fórna? Engu. Mannlegt líf hefur ekki orðið til.

Þegar harðir andstæðingar fóstureyðinga segja: ,,Já en, þetta fóstur GÆTI orðið að manneskju og þú ert reiðubúinn að drepa það áður en það fær tækifæri til þess“ Hér svara ég með röksemdinni um sæðið og eggið. Í hvert sinn sem par stundar kynmök og notar getnaðarvarnir er það að ,,drepa“ eitthvað sem GÆTI orðið að manneskju ef parið hefði ekki komið í veg fyrir það. Munurinn á sæði og eggi annars vegar og okfrumu hins vegar er aðeins stigbundinn en ekki eðlisbundinn. Okfruman er einungis komin NÆR þeim tímapunkti þar sem ómennskt ,,frumulíf“ breytist í mennskt líf.

Annað sem hægt er að benda á er að líkami konunnar er sífellt að eyða fóstri án hjálpar frá læknum. Á hverjum degi verða því milljónir náttúrulegra fóstureyðinga í heiminum. Ættum við að finna til sömu sorgar og örvæntingar yfir þessum fregnum og fregnum yfir því að 1000 manns hafi dáið í jarðskjálfta á Indlandi? Ef ekki, þá hvers vegna? Vegna þess að fóstur á fyrstu stigum meðgöngu eru ekki manneskjur. Ekki enn.

Deildu