Kristni og siðmenning

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/07/2001

18. 7. 2001

Maður heyrir því oft haldið fram að með kristinni trú hafi Vesturlandabúar fyrst kynnst siðmenningu. Enn fremur er því oft haldið fram að kærleikur, samhjálp og í raun allt velferðarsamfélagið sé afsprengi kristninnar. Í íslenskri tungu tákna orðin kristni og siðferði í sumu samhengi nær það sama í hugum almennings eða eru í það minnsta […]

Maður heyrir því oft haldið fram að með kristinni trú hafi Vesturlandabúar fyrst kynnst siðmenningu. Enn fremur er því oft haldið fram að kærleikur, samhjálp og í raun allt velferðarsamfélagið sé afsprengi kristninnar. Í íslenskri tungu tákna orðin kristni og siðferði í sumu samhengi nær það sama í hugum almennings eða eru í það minnsta nátengd. Þessu til marks má benda á orðasamböndin ,,kristilegt siðgæði“ eða ,,kristinn kærleikur“. Útbreiðsla og áhrif þessara hugtaka eru svo mikil að það stendur meira að segja í lögum um grunnskóla að starfshættir skóla eigi að mótast af kristilegu siðgæði. Hér er gefið í skyn að siðgæði sé varla til nema það sé kristilegt.

Þó að þessi hugmynd um að trúarbrögð kristinna manna hafi fært veröldina úr sótsvörtu myrkrinu inn í birtu kærleika og umburðalyndis sé útbreidd þá er hún ekki alls kostar sönn. Þvert á móti má rökstyðja að velferð og velmegun nútímans sé tilkomin þrátt fyrir kristni en ekki vegna hennar. Hægt er að benda á fjölmargt þessu til stuðning og ætla ég nú að tæpa á því helsta.

Orsök og afleiðing
Auðvelt er að benda á þá vandræðalegu staðreynd að þrátt fyrir að boðskapur kristninnar hafi verið orðinn sæmilega útbreiddur í Evrópu um miðja fjórðu öld þá bólaði ekki á lýðræði, velmegun, frelsi, velferð og ,,kristilegum“ kærleik fyrr en seint á þar síðustu öld. Hér er því afar erfitt að álykta að um orsakasamband milli kristninnar og velferðar sé að ræða. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að virðing fyrir réttindum og frelsi manna í Evrópu varð vart til fyrr en á 19. öld kristninnar. Enn fremur er það staðreynd að frelsi og mannréttindi hafa vaxið, allt fram á þennan dag, um leið og vald kirkjunnar og trúarbragða hefur farið minnkandi.

Kristilegur kærleikur í ljósi sögunnar
Saga kirkjunnar er bæði svört og siðlaus, og sá tími sem trú manna var sem mest og kirkjan var allsráðandi er sá tími sem við köllum nú hinar myrku miðaldir. Kristin trú náði útbreiðslu með ofbeldi og valdbeitingu og helstu talsmenn hennar hafa því miður, margir hverjir, verið allt annað en góðir menn.

Við þurfum ekki að gera annað en að lesa sagnfræðibækur til þess að komast að því að velferðarsamfélag nútímans varð til þrátt fyrir áhrif bókstafstrúarmanna en ekki vegna þeirra. Eftir að kirkjan náði völdum í Evrópu var þekking litin hornauga og vísindamenn og heimspekingar annað hvort hraktir í útlegð eða drepnir.

Eitt af elstu og átakanlegustu dæmunum um árás kristintrúarmanna á boðbera þekkingar og vísinda er þegar Hypatia, sem var síðasti vísindamaðurinn sem starfaði í hinu mikla bókasafni í Alexandríu og ein merkasta kona þess tíma, var myrt af erkibiskupinum Cyril og söfnuði hans.

Söfnuðurinn réðst á Hypatiu árið 415 þegar hún var á leið sinni til vinnu. Brjálaður múgurinn reif af henni fötin, skrapaði af henni holdið með skeljum og brenndi síðan restina af líkamsleifum hennar á báli. Fáir vita í dag hver Hypatia var en erkibiskupinn yfir Alexandríu var tekinn í dýrlingatölu.

Ofangreint dæmi er hvorki einstakt né sérstakt í ljósi sögunnar. Kirkjan hefur barist hatrammlega gegn vísindum, framförum og þekkingu allt fram til dagsins í dag. Sérhver nýjung, sérhver hugsuður og öll sú þekking sem ekki var að finna í hinni helgu bók var talin runnin undan rifjum djöfulsins og því hættuleg.

Krossferðirnar
Það er ekki ætlun mín að minnast á öll þau grimmdarverk og allt það ofbeldi sem kirkjan hefur staðið fyrir enda er sú saga efni í heilan bókaflokk og rúmast því ekki vel í stuttri grein sem þessari.

Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að allt frá dauða Jesú til seinni hluta 19. aldar voru kristnir ekki þekktir fyrir að berjast gegn fáfræði, fátækt, sjúkdómum, þrælahaldi og ofbeldi. Slíkt varðaði þá ekki. Það eina sem skipti þá máli var að berjast gegn öllum þeim sem trúðu ekki á kirkjuna, Biblíuna og á hina heilögu þrenningu.

Múslimar sem voru og eru eingyðistrúar trúðu svo sannarlega ekki á hina heilögu þrenningu og voru því réttdræpir. Auk þess höfðu múslimar náð yfirráðum yfir hinum svokölluðu helgu löndum kristintrúarmanna. Vegna þessa háðu kristnir blóðug stríð við múslima sem við þekkjum sem krossferðirnar. Í dag eru kristnir vesturlandabúar gjarnir á að gagnrýna heittrúaða múslima í Mið-Austurlöndum og saka þá um villimennsku og jafnvel skort á ,,kristilegu siðgæði“. Þá sem svona tala saka ég um sagnfræðilegt minnisleysi því krossferðir kristinna manna voru ekkert annað miskunnarlausar slátranir sem voru framkvæmdar í nafni Guðs.

Siðgæði og kristilegt siðgæði
Nú vilja margir eflaust fullyrða að allir þeir sem hafa framið grimmdarverk í nafni trúarinnar hafi í raun og veru ekki verið ,,sannkristnir“. Vandinn við slíka fullyrðingu er sá að erfitt getur reynst að skilgreina hver er ,,sannkristinn“ og hver ekki. Í raun svo erfitt að kristnir geta ekki gert það sjálfir eins og sést á þeim fjölmörgu mismunandi kirkjudeildum og sértrúarsöfnuðum sem allar telja sig vera með hina einu sönnu túlkun á því hvað kristin trú er.

Önnur leið til þess að bera saman hið svokallaða kristilega siðgæði við almennt siðgæði er að bera saman boðskap Biblíunnar annars vegar og boðskap hinna ýmsu heimspekinga og mannvina sem ekki kenndu sig við kristna trú hins vegar.

Þrátt fyrir að það megi til sanns vegar færa að boðskapur Jesú sé sá langskásti boðskapur sem er að finna í Biblíunni þá er boðskapur hans langt frá því að vera fullkominn. Jesú á til dæmis að hafa sagt eftirfarandi setningar:

,,Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.“
(sjá Matteusarguðspjall 10:34)
og
,,Ég er kominn að gjöra, son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.“
(sjá Matteusarguðspjall 10:35-36)
og
,,Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.“
(sjá Matteusarguðspjall 10:37)
og
,,Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“
(sjá Lúkasarguðspjall 14:26)

Berið ofangreindan boðskap haturs og öfundar við spakmæli Cicerós sem var uppi á árunum 104-36 f.o.t. og hafði því eðlilega ekki heyrt um Jesú eða kristilegan kærleik:
,,Þeir sem segja að við eigum að elska nágranna okkar en ekki útlendinga eru að tortíma algildu bræðralagi manna, og þar með mun góðvild og réttlæti glatast að eilífu“.

Jesús segir enn fremur:
,,Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“
(sjá Matteusarguðspjall 13:49-50)

Berið þessa eldpredikun saman við yfirlýsingu heiðingjans Thomasar Paine (1736-1809) sem meðal annars barðist fyrir bættum hag almennings, réttindum kvenna og afnámi þrælahalds:
,,Heimurinn er föðurland mitt og góðverk eru mín trúarbrögð“

Og áfram heldur boðberi ljóss og friðar:
,,En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér.“
(sjá Lúkasarguðspjall 19:27)

Kærleiksboðskapur Ciceró er hins vegar:
,,Við skulum ekki hlusta á þá sem halda að við eigum að vera reiðir út í óvini okkar og segja að slíkt atferli sé karlmannlegt. Því engir menn eru eins lofsverðir og þeir sem eru miskunnarsamir og reiðubúnir til að fyrirgefa.“

Í sálmum Biblíunnar (þeim sem eðlilega eru sjaldan sungnir í messu) segir:
,,Heill þeim er þrífur ungabörn þín og slær þeim niður við stein“
(Sálmarnir 137:9)

En Epiktetos (55?-135 e.o.t.) þurfti enga Biblíu til að geta sagt:
,,Þú skalt umgangast undirmenn þína á sama hátt og þú vilt að yfirboðaðar þínir umgangist þig“

Eftirfarandi tvær tilvitnanir eru mjög lýsandi fyrir meint orð Guðs.
,,Guð, brjót sundur tennur í munni þeirra“
(Sálmarnir 58:7)

Hvernig getur algóður og almáttugur guð sagt eftirfarandi?:
,,Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna.“
(1. Samúelsbók 15:3)

Villitrúarmaðurinn Sókrates (470?-399? f.o.t.) segir hins vegar:
,,Sá sem verður fyrir skaða ætti ekki að endurgjalda skaðann. Því undir engum kringumstæðum getur ranglæti talist rétt og það er ekki rétt að endurgjalda skaða eða að gera öðrum illt, sama hversu mikið við höfum þjáðst af völdum annarra.“

Eftirfarandi tilvitnun í orð Guðs var lengi notuð til að réttlæta bága stöðu kvenna:
,,Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.“
(1. Tímóteusarbréf 2:11-15)

Prestar og þrælaeigendur notuðu eftirfarandi tilvitnun til að réttlæta þrælahald allt fram á 19. öld:
..Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur“
(Efesusbréfið 6:5)

Er það undarlegt að Gregoríus ,,hinn mikli“ sem var páfi á árunum 590-604 e.o.t. hafi verið mesti þrælaeigandi í Evrópu á sínum tíma?

Epiktetos – grískur heimspekingur og siðapredikari og fyrrverandi þræll sagði hins vegar:
„Skiljið þið ekki að þjónar ykkar eru börn Guðs og þar með bræður ykkar? Með því að segja að þið hafið keypt þá eru þið að stinga höfði ykkar ofan í gryfju þar sem þið sjáið ekki lögmál guðanna heldur aðeins vesæl lögmál löngu dauðra manna.“

Samkvæmt Biblíunni og þar af leiðandi samkvæmt kristnu siðgæði verður okkur aðeins bjargað með trú og iðrun:
,,En vér vitum, að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist.“
(sjá Galatabréfið 2:16)

,,…ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast…“
(sjá Lúkasarguðspjall 13:5)

,,Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.“
(sjá Markúsarguðspjall 16:16)

Gautama Búdda (563?-483? f.o.t.) sagði hins vegar:
,,Aldrei mun ég leita eða öðlast frelsun einn og sér; aldrei mun ég einn kynnast eilífum friði; en ávallt og alls staðar mun ég sækjast eftir björgun handa öllum lifandi verum hvar sem þær eru að finna í veröldinni. Ég mun ekki yfirgefa þennan synduga heim sorgar og strits fyrr en öllum hefur verið bjargað. Þangað til, verð ég hér um kyrrt og þjáist.“

Búdda sagði einnig:
,,Gerðu það sem er rétt vegna þess að þú hatar illsku en ekki vegna þess að þú óttast að þér verði refsað“

Siðgæði er óháð trú
Góðar siðareglur verða til vegna reynslu manna og skilnings þeirra á því hvernig best sé að koma fram við náungann. Það þarf engar guðlegar leiðbeiningar til að átta sig á því að það er skynsamlegt að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig. Rökhugsun og viljinn til að læra af reynslunni er allt sem þarf. Góðar siðareglur eru alþjóðlegar og eiga alls staðar jafn vel við, því þær eru byggðar á skynsemi en ekki kreddum.

Það sem almenningur á við með ,,kristilegu siðgæði“ er yfirleitt ekki sá boðskapur sem ég vitnaði til úr Biblíunni hér að ofan. Menn eiga frekar við kærleiksboðskap þann sem er að finna í eftirfarandi orðum Jesú:
,,Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“
(sjá Mattheusarguðspjall 7:12 og Lúkasarguðspjall 6:31)

Þessi svokallaða gullna regla er einmitt gott dæmi um siðaboðskap sem er byggður á skynsemi og reynslu en ekki kreddum. Því ætti það ekki að koma okkur á óvart að Konfúsíus (551-475 f.o.t.) sagði nokkurn veginn það sama um 500 árum fyrir meinta fæðingu Jesú:
,,Það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér, skalt þú ekki gera öðrum“

Það er eins með gullnu regluna og annan siðaboðskap sem Jesús er sagður hafa boðað að hann var alls ekki nýr af nálinni. Allur sá boðskapur Biblíunnar sem vert er að hafa eftir hafði löngu áður verið boðaður af öðrum. Enginn veit í raun hverjum datt fyrst í hug allur sá siðaboðskapur sem sumir kenna í dag við kristið siðgæði og skiptir það í raun litlu máli. Það er auðvitað innihald boðskaparins sem skiptir öllu máli en ekki hver upphaflegi höfundurinn var.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að hvorki siðgæði né kærleikur á uppruna sinn að rekja til kristinnar trúar. Því er það svo að í hvert skipti sem siðgæði manna og kærleiksverk eru tileinkuð kristinni trú er um leið, viljandi eða óviljandi, verið að gera lítið úr öllum þeim sem eru annarrar trúar eða annarra lífsskoðana en kristnir.

Um leið og ég bið fólk um að hafa tilfinningar þeirra sem ekki eru kristnir í huga næst þegar siðgæði eða kærleikur kemur til tals langar mig til að ljúka þessari grein með eftirfarandi spakmælum Gautama Búdda (u.þ.b. 563-483 f.o.t.) um það hverju við eigum að trúa og hverju ekki:

,,Ekki trúa neinu sem þú hefur lesið eða heyrt, jafnvel þótt að ég hafi sagt það, nema að það samrýmist dómgreind þinni og skynsemi“

Til fróðleiks: http://www.religioustolerance.org/reciproc.htm

Deildu