Jæja, það hlaut að fara svona að lokum. George W. Bush verður lýstur næsti forseti Bandaríkjanna í dag og er þegar farinn að tilkynna hverjir verða helstu ráðherrar og aðstoðarmenn hans. Nú er hann bara einu hjartaslagi annars manns frá því að verða valdamesti maður heims.
Það er sennilega langt síðan maður með jafn litla reynslu og hæfileika hefur náð í Hvíta húsið. Sennilega hefur það ekki gerst síðan John F. Kennedy tölti þangað inn við álíka virðulegar kringumstæður og Bush gerir nú. Báðir hafa þeir hins vegar notið þess að hafa þrælvana plottara sér til aðstoðar. Menn sem þekkja bandaríska stjórnkerfið inn og út og hefðu sjálfir getað hugsað sér að verða forsetar.
Án þess að við förum út í sögu Kennedys að þessu sinni, enda hefur í það minnsta nóg ef ekki alltof mikið verið skrifað um þann mæta glaumgosa, má vera nokkuð ljóst að forsetatíð Bush án Dick Cheneys væri, ef ekki andvana fædd, í það minnsta líkleg til að fara af stað af veikum mætti. Cheney er auðvitað einhver reyndasti maður sem repúblikanar gátu náð í og hefur starfað með ófáum forsetum. Þessi skrifstofustjóri Hvíta hússins í forsetatíð Geralds Fords kannaði möguleikana á því að fara í forsetaframboð fyrir fjórum árum en hætti fljótlega við. Nú virðist þó sem svo að hann hafi náð markmiði sínu að miklu leyti. Næstu fjögur árin verður hann væntanlega valdamesti varaforseti í sögu Bandaríkjanna. Að því gefnu að hann tóri.
George H. W. Bush hafði nefnilega vit á því að fá sinn gamla samstarfsmann syni sínum til aðstoðar. Mikilvægi þess sést auðvitað best á því að það er Cheney sem sér um alla praktíska hluti við stjórnarskiptin í næsta mánuði. Það mun einnig lenda á hans herðum að takast á við ýmis vandamál sem baby-Bush mun delegata til hans. Baby-Bush er nefnilega afskaplega líkur Ronald Reagan að ýmsu leiti. Hann virkar dálítið vitlaus, nær að heilla almenning upp úr skónum og er afskaplega illa til þess fallinn að leysa praktísk vandamál. Þess vegna þarfnast hann Cheneys. Hann er bráðgáfaður, ekkert sérlega kjósendavænn þrátt fyrir að hafa náð kjöri sem þingmaður og afskaplega vel til þess fallinn að leysa praktísk vandamál.
Annars mun ég sakna þess að heyra Bush lýsa þeirri miklu reynslu sem hann hefur sem ríkisstjóri eins stærsta ríkis Bandaríkjanna. Það var reyndar ágætis brandari svona í ljósi þess að ríkisstjóri Texas, ólíkt flestum öðrum ríkisstjórum í Bandaríkjunum, er álíka valdamikill í ríki sínu og leiðtogi minnihlutans á fulltrúaþinginu. Ekki svo að skilja að Bush sé einhver heimskingi. Heimskur maður nær ekki kosningu sem forseti Bandaríkjanna, þó svo Bush hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að telja okkur trú um það. En reynslulítill og veigalítill maður eins og George W. Bush þarf á hjálp hæfra og reyndra manna að halda. Honum til blessunar.