Um lögleiðingu vímuefna I

Logo

Bragi Freyr Gunnarsson

Bragi Freyr Gunnarsson sat í ritstjórn Skoðunar frá febrúar til september árið 2000.

01/09/2000

1. 9. 2000

Nokkuð hefur borið á umræðu um afglæpavæðingu vímuefna undanfarið. Ástæður þess eru vafalaust áhrif utanfrá, en slík umræða hefur færst nokkuð í auka erlendis, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Ætlunin er að þessi pistill sé sá fyrsti í röð nokkurra um það málefni. Í þessum fyrsta hluta er fjallað um stöðu vímuefnamála hér á […]

Nokkuð hefur borið á umræðu um afglæpavæðingu vímuefna undanfarið. Ástæður þess eru vafalaust áhrif utanfrá, en slík umræða hefur færst nokkuð í auka erlendis, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Ætlunin er að þessi pistill sé sá fyrsti í röð nokkurra um það málefni. Í þessum fyrsta hluta er fjallað um stöðu vímuefnamála hér á landi, og þær aðferðir sem notaðar eru í baráttunni við þau.


Stutt um stöðu vímuefnamála hér á landi
Nýjustu unglingarannsóknir sýna að neysla gagnfræðaskólanema á áfengi og ólöglegum vímuefnum hefur dregist saman svo um munar frá árinu 1998 (http://www.rannsoknir.is/avr&g2000.htm). Hvað veldur þessari jákvæðu þróun er ekki gott að segja, en freistandi er að skrifa árangurinn á gott forvarnarstarf í grunnskólum. En er vímuefnavandinn almennt í rénum? Ef miðað er við fjölmiðlaumræðu verður ekki séð að svo sé, en við vitum öll að ekki er alltaf hægt að treysta fjölmiðlum þegar siðferðisleg hitamál eins og vímuefnaneysla eru annars vegar. Þetta hafa rannsóknir stutt, en sýnt hefur verið fram á að fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að ýkja vímuefnatengda glæpi, og taka þá úr raunverulegu samhengi (Brownstein, 1991).

Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu SÁÁ hefur þróunin í samfélaginu almennt ekki verið jafn vænleg og hjá unglingunum. Hlutfall sprautufíkla af þeim sem lagðir eru inn til meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár, fjöldi stórneytenda sem sótt hefur meðferð á sama stað hefur einnig aukist mikið (http://www.saa.is/ifx_aa?MIval=adalsida&k=2.3.6). Upplýsingar af heimasíðu Lögreglunnar (http://www.police.is) sýna að magn haldlagðra vímuefna hefur aukist gríðarlega frá því í fyrra, en þær upplýsingar ber þó að túlka varlega þar sem tvö stór fíkniefnamál voru leyst á árinu, og skekkja þau væntanlega þessar tölur. Í lokaorðum ársskýrslu fíkniefnadeildar Lögreglunnar er þó komið að því að fjöldi fíkniefnamála hefur nær stöðugt vaxið, magn haldlagðra efna aukist og fjöldi handtekinna í fíkniefnamálum aukist frá setningu gildandi laga (65/1974). Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir hertar aðgerðir yfirvalda. Það er einnig bent á að ekkert lát sé á, og að árangurinn hafi á heildina litið verið í samræmi við þróun eftirspurnar og framboðs á vímuefnamarkaði, því verð á vímuefnum hafi haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir allt. Af þessari stuttu samantekt má álykta að þær aðferðir sem yfirvöld beita í baráttunni við vímuefnavána virki ekki sem skyldi. Innflutningur eykst, neyslan eykst og vandamálum fjölgar.

Baráttan við vímuefnin
Það er markmið allra aðgerða yfirvalda í vímuefnamálum að lágmarka þann skaða sem hlýst af vímuefnaneyslu, hvort heldur er fyrir einstaklinga eða fyrir samfélagið í heild sinni. Í þessu skyni hafa yfirvöld á Íslandi, sem og flestum vestrænum löndum beitt fyrir sig réttarkerfinu (ásamt forvarna- og meðferðarstarfi, sem verður ekki rætt frekar hér). Innflutningur, dreifing og neysla er að miklu leyti gerð ólögleg og einstaklingum sem gerast sekir um brot er varða fíkniefnalöggjöf refsað samkvæmt gildandi refsilögum.

Þegar refsiaðferðin reynist ekki virka sem skyldi hættir hún að vera lausn á vandamálinu, og verður hluti af því. Það má í raun ganga svo langt að segja að bann við vímuefnum sé að nokkru leyti orsök vímuefnavandans, því hann er mun viðameiri en neysla efnanna ein og sér. Reikna verður með kostnaði við að viðhalda refsikerfi, vandamálum sem einstaklingar lenda í, í kjölfar þess að vera dæmdir fyrir brot á fíkniefnalöggjöf, heilsufarsvandamálum sem vímuefnaneytendur lenda í vegna lélegra efna. Svona mætti lengi telja, en hér verður látið staðar numið í bili.

Í næsta hluta mun ég fjalla nánar um þau vandamál sem refsiaðferðin í baráttunni við vímuefnin ólöglegu veldur

Heimildir:

Brownstein, H.H. (1991). The media and the construction of random drug violence, í Gaines, L.K. og Kraska, P.B (ritstj). Drugs, crime and justice. U.S.A: Waveland Press.

Rannsóknir og Greining ehf, og Áfengis og vímuvarnarráð. (2000). Ungt fólk 2000. http://www.rannsoknir.is/avr&g2000.htm. Heimasíða Rannsókna og Greiningar ehf.

SÁÁ á netinu (1999). http://www.saa.is/ifx_aa?MIval=adalsida&k=2.3.6. Heimasíða SÁÁ.
Lögreglan á Íslandi (2000). Skýrsla um fíkniefnamál 1999 á netinu: http://www.police.is. Heimasíða Lögreglunnar á Íslandi.

Deildu