Að borga meira fyrir minna

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

28/08/2000

28. 8. 2000

Í viðtali Morgunblaðsins við forstjóra Baugs í gær kemur fram að kostnaður af innflutningsvernd í landbúnaði kostar neytendur 6,2 milljarða króna árlega. Áður hefur verið bent á að þegar allt er tekið saman, innflutningsvernd og ríkisstyrkir, hljóðar reikningurinn upp á fimmtán milljarða króna árlega. Landbúnaðarstefnan tryggir Íslendingum því tækifæri til að borga meira fyrir minna. […]

Í viðtali Morgunblaðsins við forstjóra Baugs í gær kemur fram að kostnaður af innflutningsvernd í landbúnaði kostar neytendur 6,2 milljarða króna árlega. Áður hefur verið bent á að þegar allt er tekið saman, innflutningsvernd og ríkisstyrkir, hljóðar reikningurinn upp á fimmtán milljarða króna árlega. Landbúnaðarstefnan tryggir Íslendingum því tækifæri til að borga meira fyrir minna.


Ekki allt í allra besta lagi
Eins og ég hef áður bent á leggur landbúnaðarkerfið verulegar álögur á þá sem það snertir (alla Íslendinga). Það leggur álögur á neytendur í formi hærra matvælaverðs, það leggur álögur á skattgreiðendur í formi hærri skatta og það leggur álögur á bændur sem hafa lengi dregist aftur úr öðrum stéttum í launakjörum. Síðasti liðurinn er bættur af og til en þá oftast með því að leggja meiri álögur á tvo fyrri hópana.

Í viðtalinu við forstjóra Baugs kemur fram að einungis fjórða hver króna sem varið er í landbúnaðarkerfið skilar sér til bænda samkvæmt skýrslu OECD, þó er látið vaka í veðri að kerfið eigi að gagnast þeim. Gárungarnir halda því reyndar einnig fram að tilgangur landbúnaðarkerfisins sé að tryggja neytendum góða vöru á góðu verði en það hljómar óneitanlega eins og hver annar brandari í ljósi þess að við búum við eitthvert hæsta matvælaverð sem þekkist.

Gjaldþrota kerfi
Ýmsir stuðningsmenn núverandi kerfis hafa sagt að við þurfum að fylgja öðrum að og getum ekki markaðsvætt landbúnaðinn meðan aðrar þjóðir styrki landbúnað í sínum löndum. Málið er þó ekki flóknara en svo að það er ekki nóg með að við greiðum eitthvert hæsta matvælaverð sem finnst heldur erum við líka meðal þeirra þjóða sem verja hvað mestu til að styrkja framleiðendur. Við förum því ekki aðeins að fordæmi annarra heldur erum við í fararbroddi að halda uppi matvælaverði og sköttum. Íslenskir stjórnmálamenn geta stoltir sagt að fáir séu þeim fremri í að halda uppi gjaldþrota atvinnustefnu á kostnað þjóðarinnar.

Því ítreka ég enn og aftur þá ósk mína að landbúnaðarkerfið verði markaðsvætt. Ég er ekki að biðja um að þetta gerist allt á morgun en að styrkir og innflutningsvernd verði minnkuð ár frá ári þar til hvort tveggja verður að engu á nokkrum árum. Slíkt yrði einhver mesta kjarabót sem landsmönnum stendur til boða og hefur reyndar verið reiknað út að kjör þeirra lægst launuðu myndu batna um 10%. Það munar um minna.

Deildu