Birtingarmyndir lýðræðisins 4

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

09/08/2000

9. 8. 2000

Þingræðið: Aðstöðuleysi þingmanna En kannski er ég að dæma þingheim of hart. Kannski er hinn almenni þingmaður ekki vanhæfur. Kannski er það bara aðstöðuleysi sem háir honum. Góður þingmaður á að vera vel að sér í öllum þeim málum sem hann hefur bein afskipti af, auk þess sem hann verður að hafa næga þekkingu á […]

Þingræðið: Aðstöðuleysi þingmanna
En kannski er ég að dæma þingheim of hart. Kannski er hinn almenni þingmaður ekki vanhæfur. Kannski er það bara aðstöðuleysi sem háir honum. Góður þingmaður á að vera vel að sér í öllum þeim málum sem hann hefur bein afskipti af, auk þess sem hann verður að hafa næga þekkingu á öllum þeim málum sem Alþingi tekur ákvarðanir um svo hann geti tekið ábyrga og málefnalega afstöðu.


Hinn íslenski þingmaður þarf því að eyða töluverðum tíma í að afla sér upplýsinga og mynda sér skoðun. Þetta er tímafrekt enda einkennist upplýsingaöflun oftast af því að aðeins brot af því sem maður kynnir sér er gagnlegt. Auk þess þarf þingmaðurinn bæði að sinna flokknum sínum og kjördæmi til þess að halda trausti baklandsins. Enn fremur þarf hann að vera tilbúinn til að koma í fjölmiðla og svara fyrir sig.

Þetta er full mikið fyrir eina manneskju. Það væri mikil aðstöðubót fyrir Alþingismenn ef þeir mættu ráða sér aðstoðarmanneskju. Einhvern sem aðstoðar við rannsóknarvinnuna, sér um að skipuleggja daginn fyrir þingmanninn og getur jafnvel verið fulltrúi þingmannsins ef svo bregður við.

Að kasta krónunni
Ég þykist vita að margir horfi hér í aurana og telji þetta aðeins vera sóun á almannafé. Ég held hinsvegar að sú kostnaðaraukning sem þetta felur í sér muni skila sér til baka í auknum afköstum og vandaðri vinnubrögðum löggjafarvaldsins.

Verði þingmönnum gert kleyft að ráða sér aðstoðarmenn er ekki ósennilegt að margir þessara aðstoðarmanna stefni sjálfir að því að verða sjálfir kjörnir á þing. Hættan við þetta er auðvitað sú að þingmenn geri aðstoðarmenn sína að einhverskonar arftökum þingsæta sinna. Það er bæði framkvæmanlegt og fyrirsjaánlegt innan ramma flokkakerfisins. Kosturinn er hinsvegar sá að þessir einstaklingar hefðu mikla reynslu af störfum Alþingis og þekkingu á viðfangsefnum þess þegar leðurstólarnir yrðu þeirra.

Að lokum er rétt að benda á að töluverður munur er á aðstöðu ráðherra og þingmanns. Ráðherrann hefur heilt skriffinnskubákn til þess að vinna úr upplýsingum fyrir hann. Þingmaðurinn er hinsvegar háður úthlutun úr sérfræðistyrk þingflokksins ef hann vill ítarlegri upplýsingar en hann getur aflað sér á eigin spítur. Aðstoðarmenn fyrir þingmenn myndu jafna aðstöðu þeirra að einhverju leiti og vera mótvægi við það pólitíska vopn framkvæmdavaldsins sem embættismannakerfið er.

Deildu