Ég ætlaði að skrifa lærða grein um sögufölsun í kvikmyndum og almennri söguskoðun en komst að því þegar ég settist við skriftir að ég hafði ekki þolinmæði til þess. Þess vegna vona ég að lesendur mínir fyrirgefi mér þó ég nöldri yfir hinu og þessu þó svo það verði lítið samhengi í skrifunum.
Frelsishetjan
Almennt er ég þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að fjalla um kvikmyndir sem þeir hafa ekki séð en í tilviki The Patriot ætla ég að gera undantekningu. Í myndinni er söguhetjan Martin Bennett réttlátur og framsýnn maður, seinþreyttur til ofbeldis og hin besta fyrirmynd. Myndin byggir að um margt á ævi Francis Marion sem gat sér gott orð fyrir baráttu sína gegn Englendingum stríðinu sem leiddi til sjálfstæðis Bandaríkjanna. Það nær hins vegar ekki öll persóna Marion. Marion þykir nefnilega nokkuð siðlaus, í það minnsta á okkar tíma mælikvarða. Þannig lagði hann það í vana sinn að nauðga ambáttum sínum og halda í langar veiðiferðir þar sem skotmörk hans voru indíánar. En slíkt hentar ekki svo vel inn í stórmyndir um glæstar hetjur.
Skattar og opinber birting álagningarskrár
Ég skal viðurkenna að ég hef lúmskt gaman af því þegar álagningarskrár eru birtar. Þeir sem ekki vilja sjá slíka birtingu láta oftast í sér heyra og Heimdellingar eiga hrós skilið fyrir yfirsetu sína síðasta þriðjudag. Framtak þeirra er ekki aðeins til þess fallið að vekja athygli á baráttumálum þeirra heldur og ekki síður á þeim sjálfum. Nokkuð sem hefur farið í taugarnar á sumum andstæðingum þeirra sem aldrei geta komið sjálfum sér á framfæri og sárnar hugmyndauðgi ungra Sjálfstæðismanna.
Mér er hins vegar alveg sama hvort skrárnar séu birtar eða ekki. Ég fletti væntanlega í gegnum Frjálsa verslun þegar hún berst mér í gegnum póstlúguna (sem verður víst ekki fyrr en á morgun) en hef þó meira gaman af því að fylgjast með fjölmiðlamönnum sem hafa fengið starfsmenn skattsins til að búa til lista yfir hæstu skattgreiðendur en verða svo að láta sér nægja að lesa upp úr samantekt Frjálsrar verslunar. Einhvern veginn finnst mér ekkert voðalega mikið til þeirrar fréttamennsku koma, en það er svo sem ekkert nýtt.
Skoðanakannanir
Skoðanakannanir geta verið afskaplega skemmtilegar. Þær geta líka verið afskaplega vitlausar og spilað stærra hlutverk í meðförum margra en þær gefa tilefni til. Til marks um hversu mikið hlutverk þær kunna að spila má nefna sjónvarpsumræður formanna og talsmanna þeirra flokka sme voru í framboði fyrir síðustu kosningar þegar fyrsti stundarfjórðungurinn fór í að hver og einn fékk tækifæri til að segja að niðurstaða síns flokks væri ásættanleg og gæfi sóknarfæri meðan aðrir flokkar væru í talsverðum vandræðum. Þannig var skoðanakönnunin orðin aðalmálið, ekki það sem hún mældi.
En stundum eru skoðanakannanir lélegar í sjálfu sér. Sumar vegna þess að orðalag er leiðandi. Aðrar vegna þess að það úrtak sem er mælt gefur ekki færi á því að yfirfæra niðurstöðurnar á stærri hóp. Einstaka jafnvel vegna þess að sumir svara aftur og aftur og aftur. Netkannanir og innhringikannanir eru verstu skoðanakannanir sem völ er á. Það er ekki rannsakandinn heldur rannsóknarefnið sem velur úrtakið og oft á tíðum getur sami aðilinn skilað inn óheyrilegum fjölda svara. Þessar skoðanakannanir geta verið skemmtilegar en þegar fólkið á Vísir.is reynir að halda því fram að skoðanakannanir þeirra mæli eitthvað legg ég til að lesendur hlægi upp í opið geðið á þeim.
Kristilegt umburðarlyndi
Ég hlusta ansi oft á kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvanna í útvarpinu þegar ég er á flakki eða að gera eitthvað sem veldur því að ég kemst ekki til að horfa á sjónvarp. Svo var í gær og olli það því að ég náði ekki nafni og stöðu þess manns sem tengist vígslu nýju kirkjunnar um helgina. Eftir að hafa sagt kirkjuna vera sameign Íslendinga hélt hann mikla vanþóknunarræðu um það að leikþáttur ásatrúarmanna væri skrílsháttur sem ætti ekkert tengt við trúarbrögð þar sem enginn vissi hvernig gamla ásatrúin hefði verið. Þar af leiðandi væri ekkert mark takandi á ásatrúarmönnum.
Það fyrsta sem mér datt í hug var að ef ég segði að ekkert mark væri takandi á kristnum mönnum vegna þess hversu miklum breytingum trúarbrögð þeirra hefðu verið tekin væri ég sennilega grýttur. Þannig gæti ég sagt að þegar kristin trú var lögleidd og trúfrelsi afnumið var hún mjög undir áhrifum ásatrúar og Hvíti-Kristur persónulegur guð í anda gömlu trúarinnar. Svo þróast hún yfir í kaþólskan sið með öllum sínum hefðum og spám, lútherskan sið með sínum galdrabrennum og breytilegum skýringum á hvernig menn koma til himnaríkis og loks yfir í þá trú sem Þjóðkirkjan boðar í dag og fæstir hafa hugmynd fyrir hvað stendur. Ég er hræddur um að ég yrði skammaður fyrir að gera lítið úr trú fólks. En sem betur fer kennir kristni mönnum umburðarlyndi eins og ummælin hér að framan sýna.