Er rökræðulistin að deyja út á Íslandi eða hefur hún kannski aldrei verið áberandi á þessu skeri? Málsmetandi fólk ræðir mikilvæg mál með stælum, hroka og uppnefningum.
Allt of margir neita að færa, eða geta ekki fært, málefnaleg rök fyrir skoðun sinni en ráðast þess í stað á viðmælandann.
Sjálfur fell ég of oft í þessa gryfju en reyni þó yfirleitt að bakka og færa umræðuefnið á vitsmunalegra plan.
Ég fagna því þegar einhver bendir mér á rökvillur í mínum málflutningi eða gagnrýnir mig málefnalega. Að sama skapi er ég orðinn ansi þreyttur á að vera uppnefndur og hrópaður niður fyrir eitthvað sem tengist umræðuefninu ekki með beinum hætti.
Einnig er ég orðinn þreyttur á fólki sem gefur sig út fyrir að standa fyrir ákveðin prinsipp en getur aldrei rætt nein mál af neinu viti vegna flokkspólitískra hagsmuna. Pólitíkin er full af svona fólki. Flokkspólitískum þrælum sem taka bara þá opinberu afstöðu sem hentar þeirra flokki hverju sinni.
Þetta er ein ástæðan fyrir því að fólk nennir ekki að mæta á kjörstað.