Siðmennt og Framsóknarflokkurinn í Reykjavík

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/06/2014

6. 6. 2014

Presthjónin Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir skrifa afskaplega undarlegan pistil í Fréttablaðið í gær þar sem þau fullyrða að viðhorf Framsóknarflokksins í Reykjavík til trúarbragða séu sambærileg viðhorfum Siðmenntar. Þessi túlkun presthjónanna á stefnu Siðmenntar er eins langt frá sannleikanum og hugsast getur. Siðmennt hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu vegna þessara skrifa en […]

Presthjónin Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir skrifa afskaplega undarlegan pistil í Fréttablaðið í gær þar sem þau fullyrða að viðhorf Framsóknarflokksins í Reykjavík til trúarbragða séu sambærileg viðhorfum Siðmenntar. Þessi túlkun presthjónanna á stefnu Siðmenntar er eins langt frá sannleikanum og hugsast getur.

Siðmennt hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu vegna þessara skrifa en ég vil fá að bæta við nokkrum orðum.

Siðmennt hefur alltaf staðið fyrir fullu trúfrelsi, umburðarlyndi og jafnræði ólíkra lífsskoðana á meðan oddviti Framsóknarflokksins í borginni vildi beinlínis mismuna ólíkum trúarhópum auk þess sem hann fjallaði ítrekað um múslíma með mjög fordómafullum hætti. Það er því ekki aðeins rangt að segja að afstaða Siðmenntar sé svipuð afstöðu Framsóknar. Það er beinlínis móðgandi.

Í Fréttablaðsgreinininni segja presthjónin:

„Þar [í grein á tru.is og í Morgunblaðinu] leiddum við rök að því að þau viðhorf sem forysta Framsóknar í Reykjavík bar fram varðandi stöðu ólíkra trúarbragða í borginni sé í grunninn ekki svo fjarri því viðhorfi sem Siðmennt hefur haldið á lofti og hlotið stuðning fráfarandi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.“

Vísa þau þar í greinina Stóra moskumálið sem þau skrifuðu einning:

„Líklega mætti telja Siðmennt verðugan fulltrúa annars viðhorfsins auk þess sem sterkur hópur innan Samfylkingar og Besta flokksins í Reykjavík hefur túlkað þetta viðhorf m.a. með tillögum mannréttindaráðs borgarinnar við upphaf kjörtímabilsins sem nú er að ljúka. Þar er einnig litið svo á að ólíkar trúarskoðanir rekist illa hlið við hlið í almannarýminu en í stað þess að láta eitt trúfélag ráða í krafti meirihluta er lagt til að öll trú og trúariðkun sé tekin út úr hinu opinbera rými og hún skilgreind sem einkamál. Fulltrúar þessa viðhorfs vilja einskorða hið opinbera samtal við almenn siðgildi byggð á veraldlegri heimsmynd og mannhyggju en halda orðræðu trúarbragða utan almannarýmisins.“

Og áfram segja þau:

 „Hver er í raun munurinn á afstöðu framsóknarforystunnar í Reykjavík og afstöðu þess stjórnmálafólks sem gengið hefur fram með Siðmennt í borginni? Bæði sjónarmið ganga út frá því að lífs- og trúarskoðanir hljóti að rekast á og skapa óæskilegan núning og því skuli skera úr með valdboði í krafti almenningsálits. Og hver væri annars munurinn á því að gera lútherska þjóðkirkju eða siðrænan húmanisma að ráðandi sið í einu landi? Gæti hugsast að fyrsta og annað viðhorfið séu náskyld í verunni þótt fólk halli sér að ólíkum lífsskoðanakerfum? Okkur sýnist að svo sé.“

Nú get ég ekki talað fyrir hönd Samfylkingar eða Besta flokksins en ég veit allt um stefnu Siðmenntar, enda gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið í nálægt 20 ár.

Með allra vinalegasta móti er hægt að kalla málflutning presthjónanna þvætting. Siðmennt hefur aldrei og ég ítreka aldrei lagt til að siðrænn húmanismi eigi að vera „ráðandi“ siður „í einu landi“. Aldrei!

Í inngangsorðum trúfrelsisstefnu Siðmenntar segir orðrétt:

„Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.“

Í nýlegu bréfi Siðmenntar til þingmanna segir orðrétt:

„Siðmennt – félag siðrænna húmanista lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trú- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.“

Undirritaður hefur síðan skrifað ótal greinar og mætt í fjölmörg viðtöl til að fjalla um trúfrelsi, umburðarlyndi þegar kemur að trúmálum og veraldlegt samfélag.
(Sjá: greinasafn um veraldlegt samfélag)

Í nýlegri grein útskýrði ég ítarlega að veraldlegt samfélag táknar alls ekki að hið opinbera eigi að tryggja að siðrænn húmanismi verði ráðandi opinber stefna. Orðrétt segi ég:

„Trúfrelsi tryggir öllum rétt til að trúa og tjá skoðanir sínar alls staðar, hvort sem það er heima hjá sér, inn í trúarhofum, út á götum, inn í skólum, í strætó, í sundi eða í raun hvar sem er (svo lengi sem ekki er gegnið á rétt annarra).

Veraldlegt samfélag snýst um hið opinbera, ekki almenning.

Með veraldlegu samfélagi er reynt að tryggja að opinberar stofnanir séu ekki grundvallaðar á ákveðinni trú eða lífsskoðun. Í veraldlegu samfélagi fer ekki fram boðun á ákveðinni trú eða lífsskoðun á vegum hins opinbera eða í opinberu rými. Þannig ættu börn í opinberum skólum að fá frið fyrir áróðri bæði frá félögum eins og Þjóðkirkjunni og ekki síður frá Siðmennt.

Í veraldlegu samfélagi eru opinberar stofnanir hlutlausar þegar kemur að lífsskoðunum. Þar hanga ekki upp á vegg boðorðin tíu og ekki heldur stefnuskrá Siðmenntar. Þar starfa ekki einstaklingar sem hafa það hlutverk að kristna einstaklinga og ekki heldur guðleysingjar frá Siðmennt sem vinna við að sannfæra fólk um gildi trúleysis og húmanisma. Í opinberum skólum fer fram fræðsla um ýmislegt. Þar á meðal um trúarbrögð og lífsskoðanir en ekki boðun.“
(Sjá: Sóknarprestur misskilur hugtökin trúfrelsi og veraldlegt samfélag)

Siðmennt hefur ekki barist fyrir sérréttindum heldur fyrir jafnrétti allra. Þannig hefur málflutningur Siðmenntar alltaf verið.

Því er í senn óþolandi og ólíðandi þegar presthjónin bendla Siðmennt við málflutning Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Þetta hljóta hjónin að gera gegn betri vitund enda hafa þau tekið virkan þátt í umfjöllun um trúfrelsismál undanfarin ár og er þeim vel kunnugt um stefnu Siðmenntar.

Deildu