Fráskildir foreldrar með jafna umgengni eru ekki jafnir frammi fyrir lögum

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

20/11/2013

20. 11. 2013

*Þessi pistill er byggður á ritgerð sem undirritaður gerði í félagsfræði í háskólabrú Keilis haustið 2013. Ritgerðin er síðan skrifuð upp úr pistli sem birtist hér á Skoðun.is 13.Mars síðastliðinn. Vakti sá pistill mikla athygli og hægt er að lesa hann hér. https://skodun.is/2013/03/13/eg-er-ekki-fadir-dottur-minnar/ Inngangur  Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það […]

Lögin

*Þessi pistill er byggður á ritgerð sem undirritaður gerði í félagsfræði í háskólabrú Keilis haustið 2013. Ritgerðin er síðan skrifuð upp úr pistli sem birtist hér á Skoðun.is 13.Mars síðastliðinn. Vakti sá pistill mikla athygli og hægt er að lesa hann hér. https://skodun.is/2013/03/13/eg-er-ekki-fadir-dottur-minnar/

Inngangur

 Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það. Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns. Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. (Heimasíða Alþingis, 2013).

Ástæða þess að mig langaði til að skoða þetta málefni er af persónulegum toga. Ég og fyrrum eiginkona mín skildum árið 2012. Við tókum þá ákvörðun að dóttir okkar, sem þá var fjögurra og hálfs ár gömul, myndi hafa lögheimili sitt hjá móður sinni en að hún væri viku í senn hjá hvorru foreldri, þ.e.a.s. sameiginleg forsjá og jöfn umgengni. Felur þetta í sér að ég er með dóttur mína helminginn af tímanum í hverjum mánuði og allur kostnaður sem tilfellur vegna dóttur okkar er skipt jafnt á milli. Því var það mér mikið persónulegt áfall er ég komst að því að ég er ekki skráður faðir dóttur minnar í þjóðskrá. Fannst mér þetta undarlegt og ákvað ég að slá upp kennitölu móður hennar í þjóðskrá og kemur þá dóttir okkar sem hluti af hennar fjölskyldu. Ég fór að kynna mér þessi málefni og komst að því að, vegna þess að dóttir mín er ekki með lögheimili hjá mér, þá er hún ekki skráð sem hluti af minni fjölskyldustærð, á skattaframtali er ég ekki skráður með barn á framfæri og samkvæmt laganna bókstaf hefur barnsmóðir mín ríkari ákvörðunarrétt yfir dóttur okkar. Ritgerð þessi fjallar ekki um foreldra sem deila ekki forræði yfir barni eða börnum né deila ekki umgengni eða kostnaði.

Staða mála á Íslandi

Árlega upplifa í kringum 1.200 börn á Íslandi skilnað foreldra sinna (hagstofan.is, 2013). Á undanförnum árum hafa hlutirnir breyst mjög mikið þegar kemur að skilnaði eða sambandsslitum para sem eiga barn eða börn saman. Hér áður fyrr var það nánast reglan undantekingarlaust að ef foreldrar slitu samvistum að barnið eða börnin fylgdu móður og faðirinn fékk umgengni um helgar. En hlutirnir tóku að breytast fljótlega upp úr aldamótunum 1999/2000. Feður fóru að óska eftir því að hafa börnin hjá sér til jafns við móður og eða jafnvel að óska eftir fullu forræði. Þeir vildu fá að vera stærri þátttakenndur í lífi barna sinna, ekki bara það sem í daglegu máli er kallað helgarpabbi. Á síðastliðnum árum hefur það orðið mun algengara að börn eigi tvö heimili og hafa rannsóknir sýnt að þrátt fyrir það sem margir myndu halda, þá kemur jöfn búseta nokkuð vel út í könnunum. Börn og unglingar hafa lýst því yfir í  könnunum sem lagðar hafa verið fyrir þau, að þetta fyrirkomulag greiðir fyrir samvistum við báða foreldra þrátt fyrir skilnaðinn og segja þeir að þeim líði betur og séu ánægðari með lífið heldur en þeir sem búa ekki við það að njóta jafnar umgengni við foreldra sína. (Benedikt Jóhannsson, 2012)

Löggjafinn hefur ekki fylgt þeirri framþróun sem orðið hefur á milli foreldra í þessum tilfellum. Árið 2013 var gerð breyting á barnalögunum.  Að mati þess sem þetta ritar hefði mátt ganga enn lengra þegar kom að því að breyta fyrrnefndum lögum. Það foreldri sem ekki hefur lögheimili barnsins hjá sér er verr statt gagnvart löggjafanum, gagnvart ríkisvaldinu, gagnvart félagsþjónustunni og gagnvart lánasjóð íslenskra námsmanna. Með því að leyfa ekki skráningu tveggja lögheimila þegar aðstæður eru þær að jöfn umgengni er samkomulag á milli foreldranna, þvingar löggjafinn umgengnisforeldrið úr lífi barn/barna sinna samkvæmt opinberum gögnum, þar sem barn getur ekki haft lögheimili hjá báðum foreldrum sínum. Með þessu er átt við að það foreldri sem er umgengnisforeldri er til að mynda ekki skráð sem foreldri barns í þjóðskrá og á skattaskýrslu er viðkomandi ekki skráð/ur með barn á framfæri. Þingmenn nokkurra flokka lögðu fram þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að þessu yrði breytt. Því miður að þá fékk þessi tillaga ekki framgang. En í henni segir meðal annars:

Mikill misbrestur er á því að íslensk löggjöf styðji þá foreldra sem kjósa að ala upp börn sín saman án þess þó að búa saman. Aðstöðumunur foreldranna er þónokkur. Til að mynda er gert ráð fyrir því að það foreldri sem barnið á lögheimili hjá skuli hafa töluvert meira að segja um hagi barnsins heldur en hitt foreldrið. Lögheimilisforeldrið þiggur einnig margvíslegan fjárstuðning á meðan hitt foreldrið nýtur ekki sams konar réttar og félagslegrar aðstoðar. Þá eru ýmsar stofnanalegar og félagslegar hindranir til staðar sem gera því foreldri þar sem barnið hefur ekki lögheimili erfiðara fyrir en hinu að sinna skyldum sínum gagnvart barninu.   

Úr þessu er áríðandi að bæta með frumvarpi því sem hér er lagt til að verði samið á grundvelli niðurstaðna sérfærðihóps. Það er hag barna fyrir bestu að foreldrar sem kjósa að annast um þau á tveimur heimilum í góðri sátt búi við sambærileg skilyrði, en ekki sé hvatt til ágreinings með ójafnri stöðu heimilanna. Hér er lagt til að kannað verði með hvaða hætti rétt sé að löggjafinn bjóði þeim foreldrum sem kjósa að ala upp börn sín saman, þrátt fyrir að þeir búi ekki saman, upp á viðeigandi lagalega umgjörð sem styður og hvetur foreldrana í þessari viðleitni sinni, enda sé það barni fyrir bestu. (Heimasíða Alþingis, 2013)

Með því að heimila ekki tvöfalt lögheimili eða jafna ekki þennan lagalega ójöfnuð, er það svo að lögheimilsforeldrið hefur eingöngu rétt til þess að fá barnabætur, sem hefur kannski ekki mikið að segja í þeim tilfellum þar sem samskiptin eru góð og allur kostnaður er hvort eð er skipt jafnt á milli foreldra. En þegar um er að ræða foreldra þar sem samskiptin eru ekki eins góð að þá er klárlega aðstöðumunur þarna á ferð. Þegar foreldrar eru í skráðri sambúð eða gift að þá deilast barnabætur þeirra á milli en við skilnað, þá fylgja barnabætur lögheimilinu. Það gerir það að verkum að það foreldri sem ekki hefur lögheimilið hjá sér, missir á ári hverju þó nokkra upphæð úr fjárhag heimilisins, þrátt fyrir að foreldrið taki þátt í öllum kostnaði er viðkemur barninu og greiðir jafnvel meðlag með barninu eða börnunum. En eins og það sé ekki ein og sér nóg mismunun í garð foreldra að þá er það svo að það foreldri sem er lögheimilisforeldrið, að það hefur mun ríkari ákvörðunarrétt yfir barninu/börnunum. Það er ekkert í barnalögunum, sem tóku gildi 1. janúar 2013, sem lagar þennan aðstöðumun foreldra. Eru þetta lög sem eru sett og tóku gildi eins og fyrr segir árið 2013, ekki árið 1983 þar sem aðstæður voru á allt annan hátt í þjóðfélaginu eins og fyrr greinir í ritgerð þessari:

Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. (Heimasíða Alþingis, 2013)

En nokkuð færðist þó í rétta átt með þeim breytingum sem áttu sér stað. Meðal annars er nú tekið tillit til óska barns sem orðið er stálpað en það er breyting frá því sem áður var. Áður var það svo að lögheimilisforeldrið gat haft úrslitaáhrif á um það hvort að vilji barns var virtur eður ei. Ef svo er horft til jafnréttissjónarmiða er enn töluvert langt í land. Samkæmt jafnréttislögum er það skýrt að með setningu þeirra á að koma á og viðhalda jafnrétti og jafna tækifæri kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. En núverandi barnalög eru ekki til þess að styðja við jafnrétti, skiptir þá engu hvort um er að ræða konur eða karla. Það foreldri sem er umgengnisforeldri stendur höllum fæti í samfélaginu.

Lokaorð

Foreldrar sem slíta samvistum en ná að vinna úr skilnaðinum á réttan hátt og ná að hafa velferð barn/a í fyrirrúmi ættu ekki að þurfa að búa við þann ójöfnuð sem löggjafinn setur þeim. Vissulega er það svo að það er kannski ekki stór mál að barn sé ekki skráð sem hluti af fjölskyldustærð í þjóðskrá og eða sé ekki skráð á framfæri umgengnisforeldris í skattaskýrslu. Við lifum þó í heimi laga og reglna. Það hlítur því að skjóta skökku við að annað foreldri fái meiri lagalegan rétt en hinn þó svo hann sé ekki mikill. Samkvæmt jafnréttislögum eiga bæði kyn að hafa jafnan rétt sama hversu smávægilegur hann megi virðast. Þetta skekkir lífsmynd umgengisforeldris sem hefur afkvæmi sitt hjá sér stóran hluta af árinu, að það sé ekki skráð sem foreldri og í kjölfarið nýtur það ekki þess fjárhagslega stuðnings sem það annars ætti völ á. Ástæðan sem gefin er upp fyrir takmörkunum á þessum nauðsynlegum breytingum hljómar afskaplega hjákátleg. En hún er sú að af tæknilegum ástæðum er ekki mögulegt að bæta við skráningarsvæðum í þjóðskrá en slíkt væri nauðsynlegt ef ákveðið væri að heimila börnum að hafa tvö lögheimili eða ef þess yrði krafist að einhverskonar jafnt búsetuform barna yrði sýnilegt með ákveðnum hætti í þjóðskrá. Það er með öllu óskiljanlegt að þetta sé svona í tölvukerfi á nútímaöld. (Fréttablaðið, 2013)

Löggjafinn hlýtur að vilja stuðla að þeirri framþróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu síðustu ár og er vitað til þess að vilji er meðal nokkurra þingmanna um að jafna þennan aðstöðumun. Það er ljóst að fráskildir foreldrar með sameiginlega forsjá og jafna umgengni eru ekki jöfn frammi fyrir lögum þegar að barni eða börnum þeirra kemur. Vissulega hefur orðið framþróun til hins betra en enn er töluvert langt í land.

 

Heimildaskrá

Alþingi.(2012). Þingsályktunartilaga um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Sótt 20.Nóvember af http://www.althingi.is/altext/141/s/0152.html

Barnalög nr 61/2012

Fréttablaðið.(2013). Umfjöllun um þingsályktunartillögu Guðmundar Steingrímssonar. Birtist í fréttablaðinu 18.Mars 2013.

Hagstofa Íslands.(2012). Lok hjúskapar og skilnaðir að borði og sæng 1951-2011. Sótt 20. nóvember 2013 af http://tinyurl.com/p884ueb

Benedikt Jóhannsson.(2012). Til skiptis hjá foreldrum. Líðan og aðlögun unglinga eftir fjölskyldugerðum. Sótt 20.Nóvember af http://kirkjan.is/fjolskylduthjonusta/skraarsofn/fjolskylduthjonusta/Til-skiptis-hj%C3%A1-foreldrum.pdf

Deildu