Ég er ekki faðir dóttur minnar

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

13/03/2013

13. 3. 2013

Í þessum pistli ætla ég að vera á persónulegum nótum.  Sumarið 2012 slitum við barnsmóðir mín samvistum. Vil þó taka það strax fram að við eigum gott samband og erum sammála um að velferð dóttur okkar skiptir mestu máli. Við tókum þá ákvörðun að fara með sameiginlega forsjá dóttur okkar og nýtur hún jafnrar umgengni […]

Í þessum pistli ætla ég að vera á persónulegum nótum. Lögin

Sumarið 2012 slitum við barnsmóðir mín samvistum. Vil þó taka það strax fram að við eigum gott samband og erum sammála um að velferð dóttur okkar skiptir mestu máli.

Við tókum þá ákvörðun að fara með sameiginlega forsjá dóttur okkar og nýtur hún jafnrar umgengni við okkur bæði. Einnig skiptum við þeim kostnaði sem við kemur dóttur okkar svo sem leikskólagjöldum, tómstundum o.s.frv.

Því var mér brugðið þegar ég fletti kennitölunni minni upp á þjóðskrá um daginn. Á kennitölu minni kemur hvergi fram nafn dóttur minnar eða nokkrar upplýsingar um að hún tilheyri mér. Hins vegar ef slegið er upp kennitölu móður hennar er dóttir mín skráð sem hluti af fjölskyldu hennar. Það stafar af því að dóttir mín er með lögheimili hjá móður sinni (oft talað um lögheimilisforeldri).

Fjárhagslegi hlutinn

Út frá þessari skráningu þvingar löggjafinn mig úr lífi dóttur minnar samkvæmt opinberum gögnum, þar sem barn getur ekki haft lögheimili hjá báðum foreldrum sínum. Með þessu að þá er það svo að móðir hennar hefur eingöngu rétt til þess að fá barnabætur, sem í okkar tilfelli er í lagi því að við eins og áður segir skiptum  við með okkur kostnaði. En þegar um er að ræða foreldra þar sem samskiptin eru ekki eins góð að þá er klárlega aðstöðumunur þarna á ferð.

Eins er réttur minn hvað varðar námslán eða húsaleigubætur ekki jafn ríkur og barnsmóðir minnar. Barnsmóðir mín á rétt á húsaleigubótum sem eru hærri en þær sem ég á rétt á þar sem hún er jú með barn á framfæri en ég á ekki rétt á þeim, því að ég er jú ekki með barn á framfæri samkvæmt opinberum gögnum.  Samt er ég með dóttur mína til jafns við móður hennar.

Ákvörðunarréttur

Sökum þess að móðirin er með lögheimili dóttur minnar þá fer hún með frekari ákvörðunar- og umráðarétt en ég. En þetta kemur fram í breytingum sem gerðar voru á barnalögum í haust og tóku gildi 1. janúar 2013 og þar segir m.a.:

„Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf.“

Sjá nánar hér: http://www.althingi.is/altext/stjt/2012.061.html

Þetta finnst mér algjörlega ólíðandi og veit ég til þess að Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar Framtíðar lagði fram þingsályktunartillögu á alþingi um breytingu á lögum þannig að barn geti átt rétt á tveimur lögheimilum. Því miður var þessi tillaga ekki samþykkt er nýju barnalögin voru unnin. Sjá tillögu Guðmundar hér: http://www.althingi.is/altext/141/s/0152.html

Það þarf að laga aðstöðumun foreldra sem ekki eru í sambúð. Það er jafnréttismál og snýst ekki eingöngu um fjármuni þó  talnir hafi verið upp  fjárhagslegir þættir málsins hér að ofan. Heldur snýst þetta um að foreldrar hljóti sömu meðferð innan kerfisins og hjá löggjafanum. Það eru hrein og klár mannréttindi.

 

Deildu