Skráðu þig í Siðmennt fyrir 1. desember

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/11/2013

19. 11. 2013

Ef þú styður fullt trúfrelsi og veraldlegt samfélag hvet ég þig til að skrá þig í lífsskoðunarfélagið Siðmennt hjá Þjóðskrá fyrir 1. desember næstkomandi. Fjöldi meðlima 1. desember ákvarðar hversu mikið félagið fær í sóknargjöld. Siðmennt er eina félagið sem fær sóknargjöld sem berst beinlínis gegn þeim. Siðmennt vill fullt trúfrelsi og þar með afnema […]

Siðmennt skráð lífsskoðunarfélagEf þú styður fullt trúfrelsi og veraldlegt samfélag hvet ég þig til að skrá þig í lífsskoðunarfélagið Siðmennt hjá Þjóðskrá fyrir 1. desember næstkomandi.

Fjöldi meðlima 1. desember ákvarðar hversu mikið félagið fær í sóknargjöld. Siðmennt er eina félagið sem fær sóknargjöld sem berst beinlínis gegn þeim. Siðmennt vill fullt trúfrelsi og þar með afnema sóknargjaldakerfið!

Þann 3. maí síðastliðinn var Siðmennt lögformlega skráð sem fyrsta veraldlega lífsskoðunarfélagið á Íslandi. Í fyrsta skipti í sögunni geta húmanistar, trúleysingjar og efasemdamenn látið „sóknargjöld“ sín renna í félag sem samræmist lífsviðhorfum þeirra.

Sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga og lífsskoðanafélaga rennur nú beint í ríkissjóð. Má segja að það fólk borgi hærri skatt en aðrir.  Þessu vill Siðmennt breyta.

Nokkrar mikilvægar ástæður fyrir því að skrá sig í Siðmennt fyrir 1. desember 2013:

  • Siðmennt byggir starfsemi sína og lífssýn á siðrænum húmanisma (manngildishugsjóninni), sem er lífsviðhorf óháð trúarsetningum.
  • Siðmennt leggur áherslu á persónulegt frelsi mannsins en jafnframt ábyrgð einstaklingsins gagnvart náunga sínum.
  • Siðmennt styður opið, víðsýnt og fjölþætt samfélag.
  • Siðmennt er eina skráða lífsskoðunarfélagið sem berst fyrir fullu trúfrelsi. Sbréf til þingmanna sent í október.
  • Siðmennt vill afnema sóknargjaldakerfið og er því eina félagið sem fær hlutdeild í sóknargjöldum sem vill afnema þau.
  • Siðmennt berst að lágmarki fyrir því að þeir sem standa utan allra trú- og lífsskoðunarfélaga fái endurgreitt frá skattinum.
  • Siðmennt vill aðskilja ríki og kirkju.
  • Siðmennt vill að kirkjujarðasamkomulagið verði endurskoðað.
  • Siðmennt er á móti því að hið opinbera styðji trúfélög með beinum hætti.
  • Siðmennt vill afnema lög um guðlast og lög um helgidagafrið.
  • Siðmennt býður upp á veraldlegar athafnir. Útfarir, giftingar, nafngjafir og fermingar.
  • Siðmennt hvetur til gagnrýnnar umræðu um og umburðarlyndis.

Siðmennt leggur áherslu á trúfrelsi og veraldlegt samfélag

Siðmennt vill fullt trúfrelsi þar sem réttur allra er tryggður til að iðka trú sína svo lengi sem trúariðkunin skaðar ekki aðra með beinum hætti.

Að sama skapi berst Siðmennt fyrri því að á Íslandi verði til veraldlegt samfélag. Veraldlegt samfélag er þegar opinberar stofnanir eru ekki grundvallaðar á ákveðinni trú eða lífsskoðun. Í veraldlegu samfélagi fer ekki fram boðun á ákveðinni trú eða lífsskoðun á vegum hins opinbera eða í opinberu rými. Þannig ættu börn í opinberum skólum að fá frið fyrir áróðri bæði frá félögum eins og Þjóðkirkjunni og ekki síður frá félögum eins og Siðmennt.

„Í veraldlegu samfélagi eru opinberar stofnanir hlutlausar þegar kemur að lífsskoðunum. Þar hanga ekki upp á vegg boðorðin tíu og ekki heldur stefnuskrá Siðmenntar. Þar starfa ekki einstaklingar sem hafa það hlutverk að kristna einstaklinga og ekki heldur guðleysingjar frá Siðmennt sem vinna við að sannfæra fólk um gildi trúleysis og húmanisma. Í opinberum skólum fer fram fræðsla um ýmislegt. Þar á meðal um trúarbrögð og lífsskoðanir en ekki boðun.“ (Úr greininni Sóknarprestur misskilur hugtökin trúfrelsi og veraldlegt samfélag)

Ef þú styður helstu markmið Siðmenntar hvet ég þig til að skrá þig í félagið hjá Þjóðskrá fyrir 1. desember. Það er ein öflugasta leiðin til að berjast fyrir fullu trúfrelsi á Íslandi og veraldlegu samfélagi þar sem jafnrétti og umburðarlyndi ræður ríkjum.

Höfundur situr í stjórn Siðmenntar.

[Ég hvet alla sem styðja Siðmennt að deila þessari grein og hvetja sem flesta til að skrá sig fyrir 1. desember 2013]

Nánari upplýsingar:

Deildu