Einu sinni var uppi „góður maður“. Hann dó. Samkvæmt samferðarmönnum var hann ágætis maður og vann góð verk. Hann trúði þó ekki á Guð. Þetta voru mikil mistök því eftir dauðann kom engill og flutti „góða manninn“ til himna þar sem hann var dæmdur af hinum allra heilagasta. Kom þá í ljós að „góði maðurinn“ hafði meðan hann lifði meðal annars horft á fallega konu og hugsað með sér „girnileg þessi!“ Þar með drýgði maðurinn „hór með henni í hjarta sínu.“ (Matt. 5.28). Hann sagði líka óheppilega brandara sem unglingur, óhlýðnaðist foreldrum sínum og gott ef hann fór ekki eitt sinn með málshátt eftir Sverri Stormsker…
Eins og gefur að skilja gat hinn alvitri og réttláti Guð ekki gert annað en að bölva „góða manninum“ og sent hann í þann „eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.“ (Matt. 25.41).
Í helvíti mun svo „góði maðurinn“ dvelja í eilífri refsingu.
Amen!
Eins gott að ég hef aldrei horft á fallega konu og hugsað: „girnileg þessi!“
Heimildir:
- Biblían – heilög ritning
- „Þetta var þitt líf!“ – upplýsingarit J.T.C. (lifdu.org)
- Saurugar hugsanir heiðingja (skodun.is)