Minni sóun og minna vesen. X – A

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

24/04/2013

24. 4. 2013

Árið er 2009. Veturinn 2008/2009 hafði ég ásamt fjölda Íslendinga tekið þátt í mótmælum sem í daglegu tali eru kölluð búsáhaldabyltingin. Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þessum mótmælum,  ég er stoltur að hafa verið niður á Austurvelli og fengið piparúða í augun (sem var ógeðslega sársaukafullt) ég er stoltur að […]

Björt Framtíð

Árið er 2009. Veturinn 2008/2009 hafði ég ásamt fjölda Íslendinga tekið þátt í mótmælum sem í daglegu tali eru kölluð búsáhaldabyltingin. Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þessum mótmælum,  ég er stoltur að hafa verið niður á Austurvelli og fengið piparúða í augun (sem var ógeðslega sársaukafullt) ég er stoltur að hafa staðið ásamt flestu því fólki sem þar var samankomið fyrir friðsamlegum mótmælum. Þarna mætti ég í marga daga og það án þess að einhver úr VG væri að segja mér að mæta eins og söguskoðun Morgunblaðsins (eða réttara sagt Davíðs Oddsonar) heldur fram.

Ég mætti líka á frægan fund Samfylkingarinnar í Reykjavík þar sem samþykkt var ályktun þess eðlis að slíta ætti ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks. Það nefnilega gleymist í umræðunni að Samfylkingin var í ríkisstjórn síðustu 18 mánuðina fyrir hrun. En ég ætla mér ekki að vera að horfa of mikið í baksýnisspegilinn í þessum pistli en þó er það nauðsynlegt í samhenginu. Ég var s.s. í Samfylkingunni og ætlaði m.a. að bjóða mig fram í kosningunum árið 2009, held meira að segja að hægt sé að finna fréttatilkynningu þess eðlis einhverstaðar á netinu með smá hjálp vina okkar hjá google. Ég varð frá að hverfa sökum fjárhagslegra örðuleika á þeim tíma og sem betur fer. Ég reyndar var ekki að sækjast eftir sæti ofarlega á lista né tel ég mikla möguleika á að ég hefði hlotið einhverja yfirburða kosningu, kannski mögulega mitt atkvæði og þáverandi konu minnar.

Þegar líða fór á núverandi kjörtímabil óx innra með mér óánægja með þann flokk sem ég tilheyrði og það var kannski eitt atriði sem gjörsamlega fyllti mælirinn og varð til þess að ég sagði mig úr flokknum. Það var dagurinn sem gengislánadómurinn hinn fyrsti féll. Þá mætti þáverandi viðskiptaráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar í viðtal í öllum miðlum, og í stað þess  að fagna þessum dómi og fagna fyrir hönd neytenda í landinu að þá tók hann taum bankanna og fjármálafyrirtækjanna og talaði um að þetta gæti komið þeim illa. Ég man ekki orðrétt hvað það var sem hann sagði en innihaldið var þetta.

Eftir að ég sagði mig úr flokknum missti ég allan áhuga á pólitík og fannst hvernig umræðan á alþingi vera, í einu orði sagt hundleiðinleg. Það virtist sem svo að flokkarnir og fólkið sem kosið var á þing sem hluti af ,,hinu nýja Íslandi“ hefði bara gleymt öllu því sem komið hafði fyrir á Íslandi nokkrum mánuðum og eða árum fyrr. Í stað þess að reyna að vinna saman að þá var baknagið og hvernig talað var um andstæðinga bara ógeðslegt.

Núverandi ríkisstjórn hefur gert margt gott, það má ekki taka það af henni. Vissulega eru hlutir sem betur hefðu mátt fara og vitlaust hefur verið tekið á ýmsum málum.  En ég mun ekki kjósa núverandi stjórnarflokka þann 27.apríl næstkomandi. Ég reyndar er búinn að greiða mitt atkvæði og það fór til Bjartar Framtíðar ( X-A )

Af hverju er ég að því gætu einhverjir spurt. Meðal annars hef ég heyrt að þeir sem ætla að kjósa BF vilji vera hipp og kúl. Ok það gæti vel verið, enda finnst mér svo sem ekkert slæmt að vera hipp og kúl. En það er samt ekki ástæðan. Ástæðan til að byrja með að ég hreifst af Bjartri Framtíð var Guðmundur Steingrímsson og Heiða Kristín Helgadóttir. Ég hef fylgst með Guðmundi á þingi og í pólitík í langan tíma og hefur það hvernig hann hefur stundað sína pólitík heillað mig. Hann hefur verið samkvæmur sjálfum sér og staðið með sínum skoðunum. Einnig hefur hann verið dyggur baráttumaður fyrir því að foreldrar sem ekki eru saman en deila forræði yfir barni eða börnum verði jöfn frammi fyrir lögum. Heiða Kristín hefur heillað mig í starfi sínu fyrir Besta Flokkinn sem er systurflokkur Bjartar Framtíðar.

Síðan fóru að koma andlit inn á listana sem ég bæði þekkti og þekkti ekki og ég varð hrifnari og hrifnari af flokknum. En þegar kom að því að mynda mér skoðun á því hvort að ég gæti kosið þennan flokk var ég ekki viss. En ég varð það þegar ég kynnti mér stefnumálin og einnig hvernig flokkurinn hefur stundað sína kosningabaráttu. Það er ekki lofað einhverju sem ekki er innistæða fyrir, það er ekki talað illa um aðra flokka og BF er á því að pólitík geti og eigi að vera skemmtileg. Þar er ég sammála. Ég hef allavegana fundið gleðina og áhugann fyrir pólitík eftir að ég fór að fylgjast meira með BF. Stefna BF í öllum málum er skýr sama hvað hver segir og hægt er að kynna sér hana á heimasíðu flokksins en ég ætla að telja upp þau atriði sem harmonera hvað mest með mínum skoðunum, fyrir utan það augljósa atriði sem ég nefndi hér að ofan að jafna rétt foreldra.

 Verjum mannréttindi.

Hér eru ærin verkefni. Nefna má nokkur: Útrýmum launamisrétti kynjanna. Breytum lögum um mannanöfn. Tökum upp notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk og innleiðum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jöfnum aðstæður lögheimilisforeldra og umgengnisforeldra, sem er börnum í hag. Tölum fyrir mannréttindum og friði á alþjóðavettvangi

Skólakerfið er svo annað. Í huga Bjartrar framtíðar er það mikil sóun á hæfileikum ungs fólks og tíma starfsfólks, og opinberu fé, að svo margir nemendur í framhaldsskóla og háskóla hætti í námi.  Þetta er þjóðarmein. Þessu verður að mæta með því m.a. að leggja alla áherslu á fjölbreytni og ekki síður sveigjanleika. Það þarf að minnka áherslu á bóknám ennþá meira. Fjölbreytileikinn í námsleiðum má sín lítils ef fólk þarf samt að yfirstíga sömu hindranirnar í íslensku og stærðfræði í þeim öllum. Við megum ekki við því að hæfaleikaríkt ungt fólk flosni upp úr námi vegna slíkra hindrana

Löndum góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá opnast leið til gjaldmiðilssamstarfs við Evrópska seðlabankann (ERM II), sem strax getur aukið stöðugleika. Svo getum við tekið upp evru þegar skilyrði skapast til þess. Það er auðvitað ekki töfralausn en þó að öllum líkindum sigurstranglegasta leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika.

Ég sem kjósandi og ekkert annað en kjósandi fann farveg hjá Bjartri Framtíð með mínum skoðunum og hugsjónum. Ég trúi að fái flokkurinn til þess umboð kjósenda muni hann ná að breyta stjórnmálahefðinni og umræðunni. Það gerist ekki í einum grænum enda segir flokkurinn ,,Skýr fókus, ekkert hókus pókus“

Ding Ding, Óttar Proppé (og öll hin) á þing.

Deildu