Ef formaður Sjálfstæðisflokksins væri samkvæmur sjálfum sér myndi hann vilja að Alþingi samþykkti nýja stjórnarskrá. Bjarni Benediktsson telur nefnilega að Alþingi eigi að taka ákvörðun um mikilvæg mál hafi þingið „skýrt lýðræðislegt umboð frá þjóðinni.“ Bjarni segir að það eina sem þurfi sé „skýr þjóðarvilji“ sem ekki verður fenginn „nema með þjóðaratkvæðagreiðslu“. Hér gætu margir haldið að hann væri að tala um nauðsyn þess að samþykkja nýja stjórnarskrá enda hefur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðarviljinn er skýr.
En nei. Bjarni Benediktsson er ekki að tala um stjórnarskránna heldur hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið.* Af því það hentar honum, og hans flokki, þá krefst hann þess að áframhaldandi samningaviðræður fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af því það hentar honum vill hann í þessu máli tala um skýran þjóðarvilja.
Er það ekki merkilegt þegar stjórnmálamenn eru með prinsippafstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslna í einu máli en ekki öðrum?
Viðtal við Bjarna Benediktsson á Stöð 2 í kvöld:
„Það sem skorti á Íslandi til þess að hægt sé að ljúka viðræðum við Evrópusambandið er skýrt lýðræðislegt umboð frá þjóðinni til þeirra sem eiga að leiða samningana til lykta og það verður ekki fengið nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokkurinn vill að lokum opna fyrir möguleikann á viðræðum ef það birtist með lýðræðislegum hætti, skýr þjóðarvilji til þess.“