Ég á varla til orð yfir framkomu Karls Sigurbjörnssonar, biskupi „Þjóð“kirkju Íslands, í fjölmiðlum undanfarna daga. Hæfni hans til að taka á kynferðisafrotamálum innan kirkjunnar er engin. Framkoma hans í Kastljósinu í gær var til skammar. Maðurinn gat ómögulega komið því skýrt til skila að hann TRYÐI þeim konum sem hafa ásakað forvera hans um svívirðilega glæpi. Ekki var heldur að sjá að hann væri REIÐUR yfir þeim glæpum sem hafa átt sér stað innan kirkjunnar? Nei. Viðbrögðin voru, það sem ég kalla helvítis mjálm (og óviðeigandi glott) um ekki neitt. Bendi á ágæta samantekt Illuga Jökulssonar hér…
Satt best að segja skil ég ekki allt það góða fólk sem hefur ekki nú þegar sagt sig úr Þjóðkirkjunni vegna þessa máls og reyndar annarra (t.d. afstöðu sumra þjóna kirkjunnar til barnaverndarlaga). Líklegast er ég óhæfur til að hafa þessa skoðun, enda húmanisti og hef ekki tilheyrt kirkju í mörg ár. Ég held ég geti þó fullyrt að væri ég enn trúaður og hefði verið skráður í Þjóðkirkjuna í gær þá væri ég búinn að segja mig úr henni í dag.
Hvað sem því líður þá er löngu kominn tími til að aðskilja ríki og kirkju. Samkvæmt nýjustu fréttum eru bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra sammála mér í þeim efnum.