Mín yndislega móðir, Sóley Sigurðardóttir, lést þann 8. október 2024. Hún var kvödd með fallegri athöfn í Grafarvogskirkju þann 16. október undir leiðsögn séra Sigurðar Grétars Helgasonar.
Þegar ég vaknaði um morguninn fyrir athöfnina var drungalegt veður á höfuðborgarsvæðinu. Mikil og þung þoka. Sannkallað jarðarfararveður. En skömmu eftir að athöfnin hófst birti skyndilega til og allt í einu skein sólin skært og friður færðist yfir. Þetta var táknræn stund sem ég mun seint gleyma.
Eftir stendur söknuður. Söknuður er sérstök tilfinning því hún er bæði erfið og góð. En fyrst og fremst sit ég hér, fullur af þakklæti og góðum minningum.
Takk mamma. Takk fyrir ástina, hlýjuna og lífið sjálft!
Minningarorð
Hér fyrir neðan má lesa þann hluta úr minningarorðum séra Sigurðar Grétars sem byggð voru á samtölum við okkur bræður og aðra í fjölskyldunni.
Við upphaf athafnar las séra Sigurður fallegt ljóð eftir Mary Elizabeth Frye.
(Ekki er vitað fyrir vissu hver höfundur ljóðsins er, en það er í sjálfu sér aukaatriði):
Ekki standa við gröf mína og fella tár
Ég er ekki þar. Ég er ekki sofandi.
Ég er þúsund vindar sem blása.
Ég er glitrið sem glóir í snjónum.
Ég er sólarljósið á fullþroskuðu korni.
Ég er haustrigningin blíð.
Þegar þú vaknar á hljóðlátum morgni
mun ég lyfta þér upp um leið.
Hljóðlátir fuglar sem fljúga í hring
Ég er stjarna sem skín að nóttu til
Ekki standa við gröf mína og gráta
Ég er ekki þar. Ég dó ekki.
Nú fyrir nokkru hitti ég bræðurna Sigurð Hólm og Harald Inga og við ræddum undirbúning þessarar stundar. Það var góð stund og dýrmæt reynsla fyrir mig að fá að kynnast móður þeirra í gegnum minningar þeirra og ástvina. Þeir sögðu mér meðal annars, „mamma var trúuð manneskja, dásamleg manneskja, blíð, þolinmóð og kærleiksrík. Alltaf að hlú að öðrum, réttsýn og sterk kona, stórglæsileg og framfærin.“ Í framhaldi af samtali okkar þá sendu þeir mér eftirfarandi texta sem ég vil með góðfúslegu leyfi þeirra flytja ykkur eins og hann barst mér. Því hver eru best til þess fallin að segja frá Sóleyju en nákvæmlega þau er stóðu henni næst.
Sóley fæddist 17. febrúar 1954 í Reykjavík. Fyrstu árin bjó hún í Mosgerði hjá foreldrum sínum, Sigurði Hólm Þórðarsyni og Guðrúnu Tómasdóttur, ásamt eldri systur sinni, Guðrúnu Erlu. Síðar fluttist fjölskyldan á Háaleitisbraut 45.
Sóley stundaði nám í Álftamýrarskóla og var iðinn námsmaður og vandaði til verka, þá sérstaklega tengt handavinnu, teikningu og skrift. Hefur hún haldið upp á gömul verkefni og vinnubækur frá þeim tíma sem glöggt sýna hve natin hún var við verkefnin.
Fjölskyldan flutti til Noregs árið 1969 og var þar í um ár. Þar stundaði hún nám við Ringerike folkehøgskole og talaði mikið og vel um þá reynslu og var í sambandi við samnemendur lengi vel.
Árið 1973 kynntist Sóley barnsföður sínum, Gunnari Bollasyni og hóf með honum sambúð og hjúskap og árið 1976 eignuðust þau eldri son sinn, Sigurð Hólm. Árið 1980 flutti litla fjölskyldan til Svíþjóðar þar sem þau Gunnar ráku saman golfskála rétt fyrir utan Stokkhólm. Þar voru þau í nokkur ár en fluttu svo aftur til Íslands og keyptu sér íbúð á Austurbergi 12.
Árið 1983 eignuðust þau yngri son sinn, Harald Inga. Á þeim tíma slitu þau samvistum og Sóley flutti með drengina í Háberg í Breiðholtinu og síðar í Vallarhús 6 í Grafarvoginum þar sem Sóley bjó allt þar til hún flutti inn á hjúkrunarheimilið Eir árið 2020.
Á fullorðinsárum starfaði Sóley meðal annars í verslunninni Ástund og síðar sem sölumaður í heildverslunni Sund. Hennar lokastarf var við aðhlynningu aldraðra á hjúkrunarheimilinu Eir, þar sem hún nokkrum árum síðar bjó og lést.
Sóley lætur eftir sig tvö börn, Sigurð Hólm og Harald Inga.
Sigurður Hólm er kvæntur Ragnheiði Láru Guðrúnardóttur og eiga þau þrjá syni, Birgi Orra, Bjart Hólm og Mána Hólm.
Haraldur Ingi á tvö börn. Þau Rúnu og Óliver Inga.
Synir Sóleyjar lýsa því hversu hlý og góð móðir þeirra var. Hún var ávallt til staðar, þolinmóð og skilningsrík. Betri mömmu er vart hægt að hugsa sér.
Hún sagði oft frá því hversu mikið hún naut þess að vera með drengjunum sínum. Hún sagði sonum sínum skemmtilega frá því að þegar Sigurður var lítill, þá svæfði hún hann hverja nótt með því að lesa fyrir hann bók og syngja. Þetta kunni Siggi litli vel að meta og neitaði að fara að sofa án þess að fá þessa sjálfsögðu þjónustu. Þegar Halli litli kom í heiminn hélt Sóley uppteknum hætti og bjóst við svipuðum viðbrögðum. Halli hafði þó litla þolinmæði fyrir þessum óþarfa fyrir svefninn og með hans fyrstu setningum var: “mamma, farðu fram!“. Svona geta bræður verið ólíkir 🙂
Það sem einkenndi Sóleyju hvað mest var hversu barngóð hún var. Hún sýndi þeim mikla ást og athygli og því ekki að undra að börn löðuðust að henni og fannst þeim gott að vera í návist hennar. Sóley var þó ekki aðeins barngóð, hún sýndi almennt mikla hlýju gagnvart öllu fólki, ekki síst gagnvart þeim sem þurftu á stuðningi að halda. Það er því ekki að undra að þegar hún vann við aðhlynningu á Eir að þar var hún mikilsmetin og vinsæll starfsmaður og vistmenn hlökkuðu til þess að hún kæmi aftur á vakt.
Ragnheiður Lára, tengdadóttir Sóleyjar, vill koma því á framfæri hversu vel hún hafi fundið fyrir skilyrðislausri ást og hlýju frá Sóleyju til hennar og Birgis Orra sonar hennar þegar þau komu inn í fjölskylduna. Hún minnist á þá óskiptu athygli og ást sem Sóley gaf af sér til barnabarnanna, líka þegar hún var á erfiðum stað í sjúkdómnum sínum. Barnabörnin voru alltaf ljósið í lífi hennar og þau fundu það svo sterkt frá henni.
Sóley átti nokkrar góðar æskuvinkonur sem voru henni mjög kærar og sagði hún reglulega frá uppátækjum þeirra vinkvenna i æsku og ljómaði. Samband hennar við vinkonur var að jafnaði gott allt þar til að “Alzheimerinn“, eins og hún kallaði í fyrstu sinn sjúkdóm, fór að hafa töluverð áhrif á hennar persónu fyrir all mörgum árum.
Sóley hélt afskaplega vel upp á hluti og minningar. Í fórum hennar allt til æviloka hélt hún upp á servíettusafn sem hún hóf að safna sem lítil stúlka. Eins hélt hún upp á gömul bréf og annað sem hafði tilfinningalegt gildi. Hún átti stóran skókassa með líklega öllum blaðagreinum um morðið á John F. Kennedy sem til voru í prenti úr íslenskum blöðum. En hún safnaði líka fleiru sem flestir telja ekki mikil verðmæti í, eins og sex gömlum gulum cheerios bolum sem hún fékk gefins fyrir mörgum árum. Ekki má svo gleyma löngu hártagli frá Sigga syni hennar frá því hann klippti síða hárið fyrir löngu síðan. Einnig er skemmtilegt að segja frá því að tannálfurinn hefur verið ærlega svikinn í viðskiptum við hana því barnatennur drengjanna hennar fundust vel geymdar í gömlu glasi upp á háalofti.
Sóley hafði gaman að því að púsla og lesa og hlusta á tónlist. Hafði hún sérstakt dálæti af Sven Ingvars, Vikingarna, Ragga Bjarna og Björgvini Halldórs. Á meðan hún hafði heilsu til hafði hún einnig gaman að því að fara út að dansa með vinkonum.
Hún var alla tíð afskaplega náin foreldrum sínum. Það leið aldrei vika án þess að farið var í heimsókn til þeirra og þess á milli mikil og góð samskipti. Þegar þau byrjuðu að eldast, og fluttu að lokum inn á Eir, var hún alltaf til staðar til að sinna þeim og á milli þeirra var alltaf mikill, mikill og einlægur kærleikur.
Fyrir jólin 2012, eða fyrir tólf árum síðan, skrifaði Sigurður Hólm mömmu sinni bréf sem ég vil deila með ykkur:
Bréf til mömmu.
Gleðileg jól mamma mínÉg veit að ég sýni það ekki alltaf en ég er óendalega þakklátur fyrir allt sem þú hefur gefið mér í gegnum lífið. Ég gæti ekki hugsað mér betri mömmu. Nánast allt það góða í lífi mínu er þér að þakka. Þú hefur alltaf sýnt mér mikla hlýju og móðurást og án þín væri ég ekki sá maður sem ég er í dag. Ég vil að þú vitir að þó hugur minn ferðist stundum niður í djúpa dali og ég verði fjarlægur og leiður þá er það ekki á þína ábyrgð og auðvitað ekki þér að kenna. Þú berð mikla ábyrgð á kostum mínum en ekki göllum.
Þú ert og hefur alltaf verið kletturinn í lífi okkar bræðranna. Mér þykir svo vænt um þig og ég er líka stoltur af þér. Stoltur af öllu því sem þú hefur gert fyrir mig, Halla bróður og Rúnu litlu, fyrir ömmu og afa og í raun alla sem leita til þín. Þú ert alltaf til staðar. Nú er kominn tími til að þú farir að hugsa svolítið um þig sjálfa. Þú átt það skilið! Ég skal gera mitt besta í að vera duglegri við að aðstoða þig í framtíðinni.
Nú þegar ég er að skrifa þetta bréf hellast yfir mig minningar úr æsku og það er ekki laust við að ég fái nokkur tár í augun. Að hafa alast upp í nærveru þinni, umhyggju og faðmi eru mikil forréttindi. Þær góðu minningar sem þú hefur veitt mér eru ómetanlegar.
Elsku mamma. Ég vil að þú vitir hversu mikið mér þykir vænt um þig. Ég segi þetta ekki nógu oft en þú ert besta mamma í heimi!
Að þessu sögðu þá vil ég deila hér með ykkur þremur ljóðum eftir föður Sóleyjar:
Í blíðu og stríðu
Í blíðu og stríðu best það er,
að bræðralags allir njóti.
Ef reynist einhver reiður þér,
þá reynist honum vel í móti.
Ljóssins faðir
Ljóssins faðir, ljósið bjarta,
loga þú í hverju hjarta.Veittu oss drottinn visku þína,
vináttu lát aldrei dvína.
Kærleiksþeli kyntu undir,
Kenndu okkur allar stundir,
Ljóssins Guð að líkna og græða
láta sárin aldrei blæða.Sannleiksþráin sé oss iðja,
svo að við megum ætið biðja þig,
ljóssins Guð um líkn og þrótt.
Og að síðustu, þegar Sóley var lítil stúlka orti faðir hennar þetta fallega ljóð til hennar. Ljóð sem Sigurður sonur hennar las upp fyrir hana á dánarstund. Nokkrum mínútum síðar kvaddi hún þennan heim:
Ó Sóley mín litla
Ó Sóley mín litla þú sæt ert og góð
Ó Sóley mín litla ég syng til þín ljóð
um sólina og vorið sem vekur upp þrá
og vaxandi lífsgleði öllum hjáÉg bið að Guð gefi þér gæfu og þor
Hann gæti þín ávallt og verndi öll þín spor
Hann leiði þig glaða um lífskalda braut
Hann láti þér gæfuna falla í skautÉg bið að Guð gefi þér gleðileg jól
Og geislum þig vermi hin nýja árs sól
Hann boði þér fögnuð og frelsi á Jörð
Hann færi þér gleði þótt veröld sé hörð
(og ljái þér blessun Guð sína.)