Margir vilja trúræði á Íslandi

Biblía-biðja-trú
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/01/2019

23. 1. 2019

Mikilvægt er að við áttum okkur á því að einstaklingar sem vilja að landslög byggi á trú eru í raun að krefjast þess að trúræði ríki á Íslandi.

Það er í senn áhugavert og ógnvekjandi að lesa umsagnir sumra trúarleiðtoga og annarra trúaðra einstaklinga um hin ýmsu þingmál. Nú síðast umsagnir vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um þungunarrof. Þetta fólk byggir afstöðu sína algjörlega á trúarsannfæringu sinni.

Vitaskuld er það sjálfsagður réttur allra að hafa sínar skoðanir og byggja þær á trú eða kreddum þeirra trúarbragða sem þeir aðhyllast. Um leið er ekki í lagi að ætlast til þess að landslög séu byggð á slíkum kreddum.

Það má aldrei gerast að þingmenn semji lög útfrá trúarlegum forsendum. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, varar við slíkri lagasetningu í nýlegri umsögn sinni.

Lög landsins verða að byggja á skynsemi, veraldlegri heimspekilegri íhugun og bestu vísindalegu þekkingu hvers tíma. Þannig byggjum við lýðræðislegt veraldlegt samfélag þar sem réttindi allra eru tryggð óháð trú eða annarri lífsspeki.

Veraldleg lög þvinga sjaldnast trúaða einstaklinga til að gera eitthvað sem trú þeirra bannar á meðan lög sem byggja á kreddum skerða iðulega réttindi annarra.

Mikilvægt er að við áttum okkur á því að einstaklingar sem vilja að landslög byggi á trú eru í raun að krefjast þess að trúræði ríki á Íslandi.

Deildu